sunnudagur, október 29, 2006

Var að skríða heim frá huggulegum jazz-tónleikum. Fullt af hljómsveitum í svífandi sveiflu og stemmningin frábær. Að sitja úti í grasinu, í góðum félagsskap í lok október er ekki leiðinlegt, síður en svo.

Ein hljómsveitin safnaði um tuttugu manns upp á svið með sér og allir áttu að sveifla rassinum í takt við tónlistina og svo var sama atriði endurtekið nokkuð oft. Allir meira en til í tuskið og ég þakkaði mínu sæla fyrir að sitja aftarlega og þurfa ekki að óttast að vera dregin upp á svið.

Hrekkjavökupartý í gær, fullorðið fólk að halda upp á öskudaginn í vitlausum mánuði. Það var nokkuð áhugavert. Ég kann alltaf jafnvel að meta þá sem mæta sem trúboðar. Svartar buxur, hvít skyrta og bindi og reiðhjálmur á hausnum.

Það er nokkuð mikið af trúboðum í Taívan og þegar sótt er um dvalarleyfi eða framlengingu á dvöl í Taívan er boðið upp á nokkra möguleika til útskýringa á dvöl sinni,
Vinna
Skóli
Ættingjar
Trúboð.

Ég hef ekki enn haft kjarkinn til að krossa við, en kannski að ári þegar ég þarf að endurnýja dvalarleyfið.

Trúboðarnir hanga svolítið í almenningsgörðunum og trufla svo fólk. Sumir nenna að spjalla og aðrir ekki og þeim virðist vera sama hverjum þeir lenda á. Ég hef enn ekki lent á spjallinu við þá. Kannski standi í trúboðabiblíunni þeirra að ólíklegt sé að útlendingarnir í Taívan taki trúna í almenningsgarði. Kannski sést það á mér að mér er ekki viðbjargandi.

Ætli trúboðarnir mæti í hrekkjavökuveisluna sína sem guðleysingi eða búddi?

Helgin rokin hjá, allt sem ég ætlaði að gera í dag og í gær má allt eins gera á morgun. Illu er best slegið á frest og allt það

laugardagur, október 28, 2006

Ég tapaði enskukunnáttunni minni eina kvöldstund ekki fyrir löngu í almenningsgarði nokkrum. Síðan þá hefur ferðum mínum í garðinn fjölgað allnokkuð, enda er þar yfirleitt maður nokkur á röltinu og honum er alveg sama þó ég tali ekki ensku og vill endilega tala við mig á kínversku.
Við höfum spjallað um allt milli himins og jarðar og yfirleitt yfirgef ég garðinn að rifna úr stolti yfir hve fær ég er í kínversku.
Svo fór ég í göngu í gær og hitti þennan yndælis mann aftur og við erum að spjalla þegar hann spyr mig hvort ég kunni alveg örugglega ekki ensku. Hmm uuu hmmm uuu æji ohh... jú ég þarf svo sem ekkert að skammast mín fyrir enskuna.
Þetta vissi hann. Hann hitti nefnilega vin sinn útlendinginn um daginn og sagði honum frá mér og vinurinn sagði víst að bragði að þegar hann var að læra kínversku notaði hann þetta bragð stundum til þess að fá fólk til að tala við sig kínversku. Af hverju þagði útlendingurinn ekki bara?

Fór á Djazz-hátíð áðan fín tónlist og stemmningin góð. Ætlaði að fara að sjá mynd um Grænland en svefn er góður. Mér til ama komst ég að því eftir svefninn mikla að þetta var eina sýningin.

Styrkurinn minn er ekki enn kominn, ég fer á hverjum degi og spyr um hann og fæ alltaf svipað svar, á morgun, hinn eða daginn þar á eftir. Samt var hringt í mig fyrir þremur vikum og mér sagt að styrkurinn væri kominn. Mér líður svolítið eins og maðurinn með lyklana sé í fríi.

fimmtudagur, október 26, 2006

Maður mallar þetta í rólegheitunum, fastur í vananum.

Veðrið er yndislegt núna, ekki eins heitt og áður og fátt betra en að sitja í kvöldinu úti og drekka Oolong te- sem ku vera allra meina bót.

Lífið sallar þetta og Ynjan hefur gengið um flestar götur óáreitt vegna hvalveiða Íslendinga... ætli Taívönum og útlendingunum hér standi á sama.

Hún þurfti reyndar að róa einn örlítið og benda honum á að aðeins ætti að veiða 40 hvali... hann var samt mest hissa þegar hann fattaði að ekki átti að veiða ,,vini" Keikó heitins.

Vanti einhvern að opna bankareikning í Taívan getur Ynjan lagt fólki lið... já rúllaði bankanum upp og fór út með bros á vör.

þriðjudagur, október 24, 2006

Það eru ansi mörg ár síðan ynjan sofnaði síðast í prófi.

Hún var unglingur í laufléttu enskuprófi, illa sofin og kláraði prófið og lagðist svo fram á borðið og beið eftir að mega fara út og sofnaði. Yndæli enskukennarinn hennar ýtti við henni þegar prófið var búið.... en þá var hún unglingur.

Svo mætti hún úthvíld og hress í próf í dag, kláraði að leysa verkefnin og beið... og beið og dottaði svo. Það var vont þegar höfuðið skall í vegginn og Ynjan hrökk upp með andfælum.

Kennarinn var vandræðalegur á svipinn, tveir nemendur hlógu, Ynjan gretti sig og leit á þriðja bekkjarfélagann...

Þetta var í fyrsta sinn sem Ynjan svaf í félagsskap annars bekkjarfélaga í prófi.

Já já sumt breytist aldrei.

sunnudagur, október 22, 2006

Ferðin á bráðamóttökuna var ánægjuleg í alla staði. Ynjan mætti, í betra á sig komulagi en flestir aðrir og byrjaði að bíða.

Kannski má segja að þetta hafi verið opin bráðamóttaka því biðsalurinn var við hliðina á sóttkvínni og slysaherberginu. Salur sem sagði skurðstofa var líka opin en engar aðgerðir í bili.

Rétt eftir að Ynjan mætti var manni á þrítugsaldri rúllað inn í sjúkrarúmi, illa farinn líkamlega líklega eftir mótorhjólaslys, og plantað beint fyrir framan Ynjuna. Hún færði sig um eitt sæti af ótta við að blóðið af manninum færi að leka á hana. Mamma hans kom svo og stóð við rúmið hans og þau grétu bæði.

Við hliðina á mér var gömul kona, handleggsbrotin og beið. Hún brosti feimnislega til mín meðan hún skoðaði hvern sjáanlegan krók á mér og skyldi greinilega lítið í því af hverju þarna sat kona og ekkert rautt sjáanlegt og ekkert beinbrot.

Læknirinn kallaði mig til sín og við færðum okkur um 50 metra. Ég hafði enn góða sýn yfir biðstofuna og enn betri sýn yfir sjúkrarúmin.

Kona lá í einu rúminu með fleiri slöngur og línurit föst við sig en ég áður trúði að hægt væri að setja á eina manneskju. Hjúkrunarkona athugaði með línuritin, gargaði yfir herbergið eitthvað á kínversku, læknir kom og á meðan hann athugaði málið betur tæmdi hjúkrunarkonan pissumálið hjá rúmliggjandi konunni.

Við hliðina á henni lá kona undir sæng, komin vel við aldur og stundi. Stundum fleygðust fæturnir á henni upp í loft í einhverjum krömpum og aldraður eiginmaður hennar strauk henni þá um lærið og gætti þess að sængin væri yfir henni þegar kramparnir voru hættir. Hann horfði áhyggjufullur í kringum sig en bað aldrei neinn um aðstoð. Nema mig, þegar ég fékk mér vatnssopa þá veifaði hann til mín brosandi og ég færði honum vatn í poka og hann brosti í gegnum tárin.

Gaurinn með mömmu sinni gólaði og læknar þustu til og rúlluðu honum áfram. Hann fór í bakherbergið og hann sást ekki meira.

Maður kemur inn með meðvitundarlausa stúlku í fanginu og hjúkkurnar segja honum að láta hana á borðið. Hann stendur þolinmóður meðan borðið er tæmt og laki skellt á borðið. Hún liggur hreyfingarlaus með alls konar græjur tengdar við sig þar í dágóða stund.

Grenjandi kerling á stól kallar að hún þurfi að fara á klósettið og ungur maður kemur hlaupandi til að aðstoða hana. Hún skammar hann fyrir aumingjaskap og segir honum að hún sé svo gömul að hún þoli ekki að bíða eftir að komast á klósettið.

Meðan Ynjan bíður eftir niðurstöðum dregur starfsstúlka fyrir hjá sjúkrarúmi gamals manns, en bara svona passlega. Því gat Ynjan séð hvaða tækni hún beitti við að skipta á manninum.

Fólk kemur og fer. Börn hlaupa um gangana meðan önnur garga í fangi foreldra sinna. Fólk í hjólastól í fylgd ættingja bíður.

Þegar Ynjan hafði verið fullvissuð um að hún væri ekki að deyja og óhætt að fara heim komu sjúkraflutningamenn, töldu niður og færðu stúlkuna af borðinu yfir á sjúkrarúm.

Ynjan getur örugglega aldrei aftur horft á ER því það verður bara óspennandi. Næst þegar henni leiðist er kjörið að skella sér þangað aftur.

miðvikudagur, október 18, 2006

Enn eitt prófið frá. Kennararnir trúa því að við lærum ekki nema það sé próf á þriggja daga fresti. Frasinn, ef það er engin pressa lærið þið þá eitthvað?
Það er ný stelpa í bekknum, frá Hong Kong, hún er góð í kínversku en er alveg sannfærð um að það sé betra að tala ensku við mig. Undanfarið hefur hún svarað mér á þá leið að hún sé ekki nógu góð í ensku til þess að svara spurningum mínum. Kannski spyr ég of nærgöngulla spurninga og svona kemur hún sér undan því að svara.

Mér fer líka fram í japönsku og hef blótað því í hljóði undanfarið að hafa ekki skellt mér til Japans í nám. Japanska virðist nefnilega vera enska með innilega frábærum framburði og stöku japönsku orði. Ég held ég hafi lært fleiri japönsk orð í tímanum í dag en ég lærði í kínversku á mánuði.

Tveir aðdáendur síðunnar eru í Japan -að læra japönsku eða kunna hana nú þegar, þeim er frjálst að mótmæla sleggjudómum mínum sem eru byggðir á algerri fáfræði.

Þessa dagana þrái ég ekkert heitar en hávaxinn karlmann með kúrekahatt sem tekur hattinn niður þegar hann hittir heldri konur. Hann er yfirleitt í blárri bómullarskyrtu sem er strekkt yfir axlir hans og vöðvastæltan brjóstkassann. Hann gengur yfirleitt í gallabuxum, sem eru örlítið rifnar hjá hnjánum og veigrar sér ekki við að sofa í hlöðunni til þess að gæta öryggis hesta sinna.....

laugardagur, október 14, 2006

Engar fréttir eru góðar fréttir.

Langt fótanudd er gott fótanudd.

Byrjun febrúar hljómar eins og skemmtilegasti febrúar í heimi.

Fjórar moskítóflugur dauðar í dag. Fleiri á morgun?

miðvikudagur, október 11, 2006

Chang E hin fagra

Einu sinni fyrir langa langa löngu var stúlka sem hét Chang E. Hún var ofboðslega falleg og yndisleg kona og átti mjög frægan mann. Hann drap með boga og ör átta sólarsynina og bjargaði þannig mannkyninu frá því að deyja úr hita.
Maðurinn hennar Chang E átti eilífðarlyf. Tæki maður lyfið yrði maður að eilífu ungur og fallegur. Hvorki ellikerling né herra dauði gátu unnið á lyfinu.

Dag einn þegar Chang E var ein í húsinu ákvað hún að stela lyfinu og innbyrgða það til að viðhalda fegurð sinni og æsku.

Fljótlega eftir að hún át lyfið fór hún að léttast. Hún varð alltaf léttari og léttari og léttari þar til hún sveif um og endaði að lokum á tunglinu. Þar húkir hún ein með kanínu.

Kanínan er alltaf frekar upptekin við að mala lyf í morteli.

Enn þann dag í dag skilur enginn af hverju Armstrong tók ekki Chang E hina fögru með sér aftur heim þegar hann var að þvælast þar um árið.

sunnudagur, október 08, 2006

jú kominn tími á einn ferskan úr borg miðjunnar.

Nýbúin í þriggja daga fríi og tveir dagar eftir... ekki slor að liggja heima með tærnar upp í loft og tala um allt það sem hefði verið hægt að gera þessa löngu helgi.

Á föstudaginn var tunglhátíðin, þá er stelpa og kanína í tunglinu og tunglið er eins skært og það verður... auðvitað er fullt tungl.
Þetta er annar mesti hátíðisdagurinn á eftir nýjaárinu og mikill fjölskyldudagur. Grilllyktin tók öll völd í bænum og stundum heyrði maður karaókísöng óma inn á milli þess sem að flugeldarnir sprungu.
Þennan dag, öðrum fremur borðar maður hringlótta hluti því það boðar gæfu og hamingju. Tunglkökurnar eru líka ómissandi hluti hátíðarinnar og eru í laginu eins og fullt tungl. Ekki er verra að borða eitthvað langt eins og núðlur því þær tákna langlífi... hver diskur með sína merkingu allt etið í von um betra líf...
Ég át bara kjúkling á steikarhúsi og gleymdi tunglkökunni þetta árið. En þar sem ég segi engum frá þá...

Þegar maður fær svona langt og gott helgarfrí ætlar maður aldeilis að massa lærdóminn.
Svo fattar maður þegar fríið er búið að maður massar lærdóminn bara í næsta fríi. Ég verð örugglega allt allt of upptekin á morgun og hinn til þess að gera eitthvað vísdómsaukandi.