föstudagur, september 29, 2006

Svo sökktu þeir landinu og slökktu ljósin...
eins og ekkert væri sjálfsagðara.

Ég veit að jarðskjálfinn kemur og þá verða ljósin á.

miðvikudagur, september 27, 2006

ERT ÞÚ ÍSLENDINGURINN?
jamm
ÉG ER BÚIN AÐ VERA AÐ LEITA AÐ ÞÉR!

Fyrir framan mig stóð ung stelpa alltof mikið máluð og pissaði næstum því í sig af gleði, hún hitti Íslendinginn. Ég brást við eins og sannur Íslendingur og var eins og fífl, segir maður...já ég var líka að leita að þér? Nei.

Hún er norsk og stóð þarna glottandi eins og górilluungi með banana og réði sér varla fyrir kæti. Svo sagði hún mér frá öllum þeim sem höfðu sagt henni frá mér. Paranojan óx, hvað var fólkið að segja.
Þá er fyrri grunur minn staðfestur ég er Íslendingurinn. Íslendingurinn. Frumlegt ekki satt?

Bráðum verður kennaradagurinn haldinn hátíðlegur. Þann dag á Konfúsíus að hafa fæðst og hann var jú kennari. Í fyrra þegar kennaradagurinn var náði ég að humma hann fram af mér, horfði á nemendur skrifa kennurum sínum fallegar orðsendingar um göfugleika þeirra og svo voru orðsendingarnar hengdar upp.

Í ár átti ég ekki að sleppa, ég þóttist ekki skilja hvað samnemendur mínir sögðu þegar þeir réttu mér miðana til þess að ég gæti lagt mitt af mörkum í að dásama þessar verur, kennara. En þær komu aftur og töluðu smá ensku og voru búnar að skrifa niður tákn til þess að ég myndi vita hvað væri í gangi.

Svo ég var með þrjá miða í höndunum, einn fyrir hvern kennara og átti að senda þeim línu. Mér hefur sjaldan liðið jafnfáránlega.

Ég rifjaði samstundis upp stundirnar þegar mér var vísað úr skóla hér í denn, þegar ég átti mér þann draum heitastann að kennararnir mínir myndu veikjast til langframa og kennsla lögð niður. Þegar ég lagði mig fram um að yrða ekki á þá og slagorðið, notum smokkinn kennarar fæðast daglega var dauðans alvara.
Ég gerði mér líka grein fyrir því að það er lengra síðan í árum en ég kæri um um að muna og uppreisnarseggurinn í mér dó einhvern tíma á síðustu öld. Mig rámar meir að segja í að hafa klárað nám tengt kennslu....

Hvað skrifar maður til bleika kennarans síns? Elsku bleiki kennari, þú ert bleikara en allt bleikt og stundum næ ég ekki að einbeita mér því ég er dáleidd af því að horfa á fötin þín?
Eða hinn kvenkennarann.... Ég gæti aldrei sofnað í tíma hjá þér því þú ert með svo skerandi rödd?
Nú eða til karlkennarans míns.... Þú er svolítið sætur þegar þú flissar en réttu úr þér maður, þú ert ekki það hávaxinn.

Nokkuð margar ámóta vondar hugmyndir fæddust og engin þeirra prenthæf. Kannski væri ráð að skrifa eitthvað á við að þau væru bestu kennarar í heimi og hver mínúta með þeim sem gull í huga mínum. En það væri bara lygi, þau eru fín, ég kann vel við þau en í hjarta mínu eru minningar um kennara sem eru svo dásamlegir að mér leið eins og ég væri að fremja helgispjöll.
Af hverju er skylda að skrifa kennaranum sínum sleikjubréf einu sinni á ári?

Því meira sem ég hugsaði um málið því meira svitnaði ég og angistin óx. Kannski er ráð að veikjast sjálfur eða skrá sig í annan skóla.

Niðurstaðan var hógvær en einlæg:

Broskall og takk á kínversku,
Zhang Bing Xin

sunnudagur, september 24, 2006

Stundum skil ég ekki hvað ég er heppin. Enn eitt vespuóhappið! Sem betur fer meiddist enginn alvarlega. Vespan þarf að fara í smá andlitslyftingu.


Búin að koma mér fyrir að mestu, yndislegt að sofa í tómri íbúð á dýnu sem er kannski heldur stutt. Ég verð bara að muna að rétta ekki úr mér þegar ég er sofandi, nema ég vilji hafa tærnar á gólfinu. Svolítið teiknimyndalegt þegar maður passar ekki í rúmið sitt og kannski breytist ég í teiknimynd hægt og hægt hérna.

Sat í almenningsgarði áðan og horfði á börn á línuskautum æfa sig. Nokkuð krúttlegt að horfa á tuttugu börn á línuskautum, stelpurnar í bleikum bol og með bleikan hjálm. Strákarnir með bláan hjálm og í bláum bol.
Ég hafði setið og gónt á börnum í smástund þegar ég tók eftir því að nokkur börn, ekki á hjólaskautum, voru búin að raða sér upp í hálfhring og góndu á mig. Eins og ekkert væri eðlilegra en að stilla sér upp fyrir framan útlendinginn og stara. Líklegast er ekkert eðlilegra.
Ég heilsaði þeim og þrír hlupu í burtu. Einn hafði kjarkinn í að spyrja hvort ég talaði kínversku, þegar ég sagði já smá, fóru tveir enn. Þau stóðu tvö þétt saman eftir og góndu á mig. Ég brosti og þau hörfuðu.

laugardagur, september 23, 2006

Við fengum íbúðina í dag, því hefur verið í mörgu að snúast.
Fyrst þurfti að eitra allhressilega hér og þar, kakkalakkar eru húsdýr sem ég er ekkert sérlega hrifin af. Ég tók mig vel út með eiturbrúsann og spreyjaði af lífsins sálarkröftum. Þrátt fyrir að vilja ekkert heitar en losna við kvikindin, uppskar ég móral! Líklega var það ágætisákvörðun að verða ekki sjómaður!

Ýmislegt þurfti að gera, kaupa eitt og annað. Meðleigjandinn minn, sem er nýkomin til landsins, á ekki vespu og því þurfti hún að fljóta aftan á vespunni. Sem var ekkert mál á leiðinni í búðina en eitthvað varð sjónin kómískari á heimleiðinni.

Í fyrsta leiðangri voru hreinlætisvörur keyptar og eitthvað smotterí, uppskeran fjórir fullir innkaupapokar. Við á pínulítilli vespu. Því hélt meðleigjandinn á tveimur pokum og ég hafði tvo í framrýminu, þ.e. þar sem maður setur yfirleitt fæturna.

Í seinni leiðangrinum þurfti að koma fyrir tveimur baskkörfum, tveimur koddum og tveimur stórum viftum og tveimur manneskjum, ein stór og hin lítil.
Ég geri mér ekki fulla grein fyrir því hvernig var að horfa á þetta. Hún hélt á viftu og koddunum tveimur, ég hafði körfurnar milli fótanna og tyllti viftunni einhvern veginn á fótinn á mér sem ég rétt náði að setja í fótastæðið, ég var líka með lítinn poka í hægri hendi.

Af hverju Taívanarnir brostu svo breitt til okkar skil ég ekki enn, ég hef séð fjögurra manna fjölskyldu á minni vespu en minni og heilu tveggja manna dýnurnar fluttar á milli á sama farartæki.

miðvikudagur, september 20, 2006

Dagur þrjú í skólanum á enda runnin. Námið hefur gengið stórslysalaust en á morgun er próf svo gleðin er líkast til fyrir bí.
Ég er með þrjá kennara, bleika kennarann margfræga, annan sem mér líst mjög vel á- kona á miðjum aldri. Sá þriðji hefur staðið sig vel hingað til og hefur alla burði í að vera prýðiskennari. Hann er bara svo barnalegur í útliti og djúpraddaður að ég veit varla hvernig ég á að taka honum. Það er líka eitthvað undarlegt að hafa það á tilfinningunni að maður sé eldri en kennarinn!

Ég fékk ekki íbúðina sem ég vildi, fólkið þorði ekki að leigja útlendingum íbúðina, en ég skoðaði aðra í dag og fæ svar á morgun. Ég verð að útvega mér húsnæði.

Ég er komin með dvalarleyfi í Taívan! jibbí

mánudagur, september 18, 2006

Fyrsti skóladagurinn gekk vel og ég á von á svari í kvöld um það hvort ég fái íbúðina!

föstudagur, september 15, 2006

Fuglarnir tístu lágt, umferðin enn ekki það mikil að hún yfirgnæfði söng þeirra. Maður á sextugsaldri gengur hægt um og kíkir í blaðið. Hann er sköllóttur og ber að ofan. Líklega kallar konan á hann því hann hrópar nokkuð hátt að hann sé á leiðinni en heldur áfram að lesa blaðið.
Rétt hjá er annar maður, líklega aðeins eldri, að sópa fyrir framan húsið hjá sér. Hann strýkur yfirgráspengt hárið meðan hann gónir á útlendinginn, sem er nokkuð léttklæddur.

Rakinn er ekki mikill og veðrið því ljúft. Sólin er komin á loft og það er heiðskírt. Morgunverðarstaðirnir eru fullir af fólki, konur með svuntur og hanska hamast við að elda ofan í mannskapinn.

Eina eggjaköku?
jú takk
Viltu soyamjólk með?
Nei takk, ég þarf ekki poka

Krakkar í skólabúningum koma sér fyrir á vespunum með foreldrum sínum. Þrír strákar með pabba sínum á vespu. Maðurinn er með hjálm og elsti strákurinn líka. Þeir spóla af stað með bros á vör.

Góðan dag, kallar kona á miðjum aldri, er allt í lagi? segir hún á ensku.
jú allt í þessu fína, bara í morgungöngu.
Býrðu þarna? segir hún og bendir á rauða stálhurðina.
nei, ég gisti bara í nokkra daga.

Nokkuð óvænt heyrist trommusláttur. Tvo kínversk tröll ganga fram, annað er rautt í framan og hitt grænt. Þeir eru í gulum búning, skreyttum silkiþráðum í öllum regnboganslitum. Rétt fyrir aftan þá ganga nokkrir menn í gulum fötum. Einn situr í nokkurskonar kerru og ber á húðir. Trommuleikaranum, stekkur ekki bros þegar ég stíg út á götuna til að skoða þá nánar.

Klukkan er rétt að ganga sjö að morgni og enn einn fallegur dagur í Taichung.
Stuttu seinna kemur ruslabílinn og spilar fur eliza.

fimmtudagur, september 14, 2006

jeiiii

Farangurinn minn er kominn!

miðvikudagur, september 13, 2006

Þú ert komin aftur, sagði konan við morgunverðarstandinn. Ég var nýbúin að segja syni mínum að koma og sjá þig hér á morgnanna og svo komstu aldrei aftur! Fyrr en nú!

Konan sem keyrði leigubílinn hló þegar ég sagði henni að ég vissi ekki hvert ég væri að fara, ég rataði bara. Hún var alveg til í að keyra mig á áfangastað eftir leiðbeiningum.

Farangurinn minn er ekki enn kominn, vonandi kemur hann í dag. Fór í gær að kaupa föt, þvílík hörmung. Sumar búðir gætu alveg heitið 10 sekúndur. Tekur ekki nema 10 sekúndur að rústa sjálfsálitinu í fataleit. Niðurstaðan var samt ásættanleg, fékk það sem mig vantaði engin tískuföt þó...

Auðvitað sló harðfiskurinn í gegn og ég er spennt að leyfa fólki að smakka hákarlinn!

Vespan stendur fyrir sínu og í gær fékk ég smá lit!

þriðjudagur, september 12, 2006

Komin til Taichung, heil á hófi. Ferðin gekk nokkuð ljúft fyrir sig þangað til ég kom til Hong Kong en þá skráði ég mig formlega í klúbb hinna sigldu, flognu og fúlu ferðalanga.
Fastir liðir eins og venjulega, farangurinn týndur. Er svo sem löngu hætt að nenna að kippa mér upp við það.
´
Því fór ég eiginlega strax að tilkynningaborðinu og sagði frá raunum mínum. Ég mátti bíða aðeins og svo fylla út eins og eitt eyðublað og bíða svo aðeins lengur og fylla út annað blað. Þá mátti ég hlaupa í þessa átt og þá hina og snúa mér svolítið í hringi. Maðurinn með lyklana var við en hann var ekki samvinnuþýður.

Mitt í þessum hlaupum fór flugvélin til Taívan án mín, í staðinn fyrir skokkið uppskar ég þriggja tíma bið á flugvellinum og kom til borgarinnar eftir háttatíma. Hlaut að koma að því að ég kæmist í hóp heimsborgara. Taskan verður að koma fljótlega, bara rétt áður en fötin standa stíf á mér, korter er nóg.

Taichung er fögur og hlý og rök og skólinn stendur enn og starfsfólkið kann enn að brosa. Kunnugleg andlit brosa fallega til manns og lyktin hefur ekkert breyst. Ég hef varla komið upp orði í dag án þess að skjóta inn í eins og einu eða tveimur íslenskum orðum, af hverju skilur fólk ekki setningar á borð við, have you seen my lykla?

Búin að drekka tvo bolla af Oolong te í dag, lífið gerist varla betra.......

Fyrir fjáða vini Ynjunnar má hringja í +886918334454 nú eða senda sms ... jú eða ekki.

sunnudagur, september 10, 2006

Fer að leggja af stað út á flugvöll, allt klárt og komið niður í tösku. Farangurinn aðeins of þungur en vonandi dugir fallegt bros. Margbúin að athuga hvort ég sé ekki örugglega með allt.
Ef ég gleymi einhverju þarf ég líklega ekki á því að halda.

Undanfarnir dagar hafa verið yndislegir, náð að hitta á alla fjölskyldumeðlimi og vini og kveðja. Það er yndislegt að kveðja fólk. Betra er þó að heilsa því.

Spennandi hlutir framundan sem skýrast vonandi fljótlega. Ég hef komist að því að með góðum vilja og með góðu fólki er allt hægt.

Líkast til fæ ég heimsóknir til útlanda, sem er alltaf frábært. Ég er heppnari en margur.

Líklega er maður eilítið meir svona rétt fyrir brottför.

föstudagur, september 08, 2006

Tíminn flýgur frá mér, kannski er hann floginn. Ég er að vera búin að taka allt til en á alveg eftir að pakka í tösku. Mér finnst eins og ég þurfi að versla, helst kaupa kjól og taka með mér. Svo er eitthvað sem segir mér að ég þurfi ekki kjól í útlandinu, kannski af því ég er ekki mikið í kjólum.

Vikan hefur verið ljúf en hlaupið frá okkur, flest frestunarverk frá, hittingar um allan bæ. Veðrið hefur verið það gott að ég hef glaðst yfir góða sumrinu sem var. En núna hellirignir.
Spennandi hlutir að gerast í dag og kannski ganga þeir upp, kannski ekki. Ég vona það besta og legg mitt af mörkunum til þess að þeir gangi upp.
Ég er meir.

Endilega kíkja svo á þetta. Fram og til baka fyrir 30 þús kerlingar það er ekki neitt.

föstudagur, september 01, 2006

Fyrsti september

Nú þarf að gera sig kláran í bátana. Sem betur fer er hægt að fljúga til Taívan. Annars kann ég því vel að sigla og má sigla. Brottför tíunda, óhuggulega óþægilegt að tala um tíu daga. Tíminn stoppar nefnilega aldrei hjá mér.

Maðurinn glottir út í annað meðan ég róta í höfðinu á mér og tel upp allt sem þarf að gera fyrir brottför. Hann gerir sér ekki grein fyrir því hve mikilvægt það er að vera tímanlega í hlutunum, ná að klára og fara sáttur. Hann segir mig gera úlfalda úr mýflugu. Ég kýs að skilja ekki samhengi milli úlfalda og mýflugu. Samt fer þetta allt einhvern veginn, eins og alltaf.

Vikan verður kveðjuvika, nú þegar hefur land ársins verið kvatt og sel jöklanna. Kastaði kveðju á norðurljósin og íslenska hestinn. Ég hef borið rigningunni kveðju mína og rætt við kuldann.

Þá er fólkið bara eftir. Kveðjustundir eru ekki svo slæmar, maður hefur afsökun fyrir því að sitja aðeins lengur og slóra eilítið til. Fólk er einlægt og oftast glatt. Hugað er að endurfundum og gott knús í boðinu. Kveðjustundir verða líklega uppáhalds stundir fljótlega. Maður er líka alltaf svo vinsæll þegar maður fer, fólk segist ætla að sakna manns og skrifa og hugsa til manns, án framkvæmda. Það er gott.

Kannski eru t.d. togarasjómenn ekkert hetjur hafsins, kannski eru þeir með fettis fyrir kveðjustund.
Ssr ætlar að blása til herferðar. Nú á að auglýsa hve frábært það er að vinna á sambýlum. Sem það er ansi oft. Ég dreg þá ályktun að herferðin verði í anda Hrafnistu auglýsinganna.

Með þessari herferð á að búa til nýja og betri ímynd, plata fólk inn á staðina í vinnu, því auglýsingin segir bezt í heimi. Það er ekkert leyndarmál að mannekla á sambýlum og í ,,umönnunargeiranum" er hræðileg. Bætt laun hafa ekki laðað fólk að. Þá má kannski draga þá ályktun að fólk einblíni ekki á launin?

Það er dýrt að auglýsa og halda úti herferð, undirbúningurinn er heldur ekki gefins. Þessi herferð verður alls ekki fríkeypis. En nái hún að breyta ímyndinni ber hún árangur ekki satt?
Margir koma við á sambýlum einhvern tíma um ævina, vinna í nokkra mánuði og svo aldrei meir, aðrir finna sitt ævistarf. Hefur þetta fólk ekki allt með ímyndina að gera? Það kvisast út fljótt og vel hvernig er að vinna hér og þar og ímyndin er máski óskrifuð en til.

Væri ekki ráð að eyða herferðarpeningnum í starfsfólkið og vinnustaðinn og láta það svo sjá um herferðina, tekur lengri tíma en árangurinn verður líkast til betri heldur en skilti sem segir sambýli bezt í heimi. Láta starfsmenn, íbúa og umhverfi finna að vilji sé til að gera betur og ráða bót á málum? Nei það er ekki hægt útaf reglugerðum.

Kannski hefur ræst úr málum á Hrafnistu, ímyndin betri og fleiri sækja að og vilja vera. Kannski hugsar fólk FRÁBÆRT að vinna á Hrafnistu þegar auglýsingarnar birtast og ljóshærð stúlka brosir og sækir um. Ég fæ bara hroll, fyrst hélt ég að gamla fólkinu ætti að finnast frábært á Hrafnistu, sem auðvitað næst ekki án ánægðra vinnukrafta. Svo verður mér alltaf hugsað um peningasóunina, fyrir andvirði heilsíðu auglýsingar er ýmislegt hægt að betrumbæta. Líkt og bjóða upp á gott kaffi í nokkur ár eða eitthvað róttækara.

Úr því Á.J. fékk uppreist æru má breyta reglugerðunum.
Góður vinnustaður sér nefnilega um sig sjálfur.