þriðjudagur, júní 29, 2004

12.júní 1964 var Nelson Mandela dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir frelsishugsjón sína. Þá hugsjón að allir menn væru jafnir. Í lokaræðu sinni sagðist hann tilbúinn að deyja fyrir þessa hugsjón. Hundruðir manna létu lífið á þessum tíma. 27 árum seinna var hann látinn laus. Enn í dag deyja menn fyrir minna.

Ég var samt að spá í að grenja yfir því hve íbúðin mín er lítil, að ég eigi ekki bíl og að ekki nokkur maður nenni að hlusta á rausið í mér. Ég ætla líka að rausa yfir því að ráðamenn þjóðarinnar séu fífl og kjánar. Þegar vel liggur á mér get ég vel hugsað mér að engjast um og grenja hátt því launin mín eru svo lág. Ég ætla líka að hunsa það algjörlega að ég get rausað og röflað og kvartað og kveinað án þess að nokkrum komi það við (einstaka maður flýr af hólmi en hver skeytir um það!)
Ég hef það nefnilega nokkuð skítt þegar ég fer að spá í það en Nelson hann hefur ekki undan neinu að kvarta.


laugardagur, júní 26, 2004

Af virðingu við land og þjóð drattaðist ég á fætur og hugaði að fíflavíninu mínu, sannfærð um ágæti þess til að gleðja landann.
Stend nú og leita að pólitískri afstöðu minni til forsetakosninganna en sú leit hefur enn ekki borið árangur, smá fliss en ekki nokkurn árangur. Sú dauðasynd hvarflaði meir að segja að mér að kjósa bara ekki neitt. Engar yfirlýsingar...aðallega leti. En nei valkyrjan ég mun arka á kjörstað kyrjandi þjóðsönginn og aðrar fornar vísur þylja örlítið úr hávamálum og kjósa svo skilmerkilega. Ég skal vanda mig.

Alveg er ég sannfærð um að á kjörstað séu tvö klósett, annað er merkt konur, fatlaðir, börn/skiptiborð og hitt karlmenn. Kannski maður pissi útfyrir af pirring. Ég vissi nefnilega ekki betur en að karlmenn ættu jú stöku barn og á tyllidögum myndu þeir hugsa um þau og að bæði kynin væru með fötlun.
Það er erfitt að vera fáfróður í dag

Kjósum rétt!!!

mánudagur, júní 21, 2004

Mér líður örlítið eins og tuttugutonna trukkur hafi lent ofan á mér tvisvar. ég hef loks öðlast fullan skilning á því hvað það er að leggjast í víking. Andlitið á mér er skaðbrunnið ef horft er frá enninu. En sálin er sátt og gleðin var mikil.

Á þessum örfáu dögum hafa verið teknar fleiri myndir af mér en síðastliðin 25 ár. Veit ekki hvort það sé gott eða illt. Örlítið skondið að vera í myndaalbúmi hjá ókunnugu fólki hehehe.

Sólin skín og fólkið er fallegt.

Valkyrjan


fimmtudagur, júní 17, 2004

Þúsund og þrjár nætur brátt að baki. Þó ekki ber er hver að baki.
Náði ekki alveg svefni hinna réttlátu og svaf því líkast til svefni hinna ranglátu sem er engu verri svefn, aðallega styttri.

Sem valkyrja reyni ég eftir bestu getu að dásama öll dýraskinnin og reyni nokkuð ,,klént" að taka undir lof samvíkinga minna. Valkyrjan í mér er þó ekki meiri en svo að ég fékk samviskubit yfir því að strjúka yfir kanínufeldsskinn og lagðist svo niður og grét þegar klærnar á úlfskinninu klóruðu mig.

Það breytir ekki stöðu dýranna þó forynjan gráti í það minnsta ekki þeirra sem eru nú til sölu. Tilhugsunin um að vera tekin og sútuð hljómar ekki vel og líkast til hafa tröll lítinn áhuga á að súta þreytta afturgöngu sem reynir að tóra vakandi.

miðvikudagur, júní 16, 2004

Nóttin hefur þúsund augu stóð einhversstaðar, eða var það þúsund andlit? Ég er alveg viss með þúsund og eina nótt.

Nótt er ekkert verra en tónt eða óttn og maður getur allt eins fundið fyrir kyrrðinni í þeim orðum eins og nóttunni.

Fólkið fer að tína sig á fætur og ég fer fljótlega í háttinn. Það verður ljúft að fórna eins og einum sumardegi í svefn. Þetta verður svefn hinna réttlátu sem og svo oft áður.

Svefnynjan

fimmtudagur, júní 10, 2004

Sól, sól, meiri sól

Allt er svo dásamlegt í sólinni, rúntaði meirihluta Vesturlands svona í morgunsárið. Yndælt. Tók upp í japanskan túrista og líkast til hafa aldrei verið teknar jafnmargar myndir af mér eins og þessar 20 mínútur og hann sat í bílnum. Þá datt mér í hug að myndartakan væri því ég er svo sæt og sólleg að sjá. Held mig við þá kenningu enda hafa japanir aldrei að mér vitandi verið þekktir fyrir að taka mikið af myndum.

Ætla skella mér á sjóinn með fríðu föruneyti.

Sólsjávarynjan

fimmtudagur, júní 03, 2004

Þrefalt húrra fyrir Herra Ólafi.
Ætli Davíð sé ekki brjálaður heima hjá sér eins og óþekkur krakki en mér er alveg sama.
Ég tek ofan fyrir Ólafi að hafa yfir höfuð synjað lögum og leggja þau fyrir þjóðina, svona fyrir stemmninguna. Þetta mætti gera oftar. Það er ekkert að því að þjóðin samþykki eða synji stórum málum í landinu og þá er vilji þjóðarinnar skýr og ekkert meira um það að segja sama hver niðurstaðan er. Ég hefði vilja sjá kárahnjúkamálið fara fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu en það skiptir engu. Rödd lýðræðis hefur talað og nú fyrst ég trú á mínu lýðræði í langan tíma. Þingmenn geta ekki &%/($/#%!#%&#&"$ þjóðinni að vild og treyst svo á gleymsku. Ég þykist vita að það hlakki í Gríshildi yfir þessum tíðindum enda skammaðist hún yfir Kónginum fyrir að gera lítið úr mótmælum okkar hér um árið. Loks getum við fagnað! Gunnþór virðist sáttur líka enda er hann alltaf til í að skapa stemmningu.
Ætli gamalt uppreisnareðli hafi ekki aðeins rankað við sér og hvet ég alla til að raka á sig hanakamb í tilefni synjunarinnar.

Trallalalalalalatralalalalaltralala