þriðjudagur, júní 29, 2004

12.júní 1964 var Nelson Mandela dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir frelsishugsjón sína. Þá hugsjón að allir menn væru jafnir. Í lokaræðu sinni sagðist hann tilbúinn að deyja fyrir þessa hugsjón. Hundruðir manna létu lífið á þessum tíma. 27 árum seinna var hann látinn laus. Enn í dag deyja menn fyrir minna.

Ég var samt að spá í að grenja yfir því hve íbúðin mín er lítil, að ég eigi ekki bíl og að ekki nokkur maður nenni að hlusta á rausið í mér. Ég ætla líka að rausa yfir því að ráðamenn þjóðarinnar séu fífl og kjánar. Þegar vel liggur á mér get ég vel hugsað mér að engjast um og grenja hátt því launin mín eru svo lág. Ég ætla líka að hunsa það algjörlega að ég get rausað og röflað og kvartað og kveinað án þess að nokkrum komi það við (einstaka maður flýr af hólmi en hver skeytir um það!)
Ég hef það nefnilega nokkuð skítt þegar ég fer að spá í það en Nelson hann hefur ekki undan neinu að kvarta.