þriðjudagur, ágúst 28, 2007

Ég er komin með nóg af þessum helvítis lunda. Ég er á leiðinni heim.

Ætla heim að baka vöfflur.

fimmtudagur, ágúst 23, 2007

Langt síðan ég hef séð svona bjartan og skæran regnboga, líður eins og ég eigi að loka sjoppunni og skokka út og elta hann, reyna að ná gullinu og óskunum í eitt sinn fyrir öll. Ég reyndi það ósjaldan sem barn, þrátt fyrir að átta mig á því tiltölulega fljótt að það væri ómögulegt fyrir fólk að ná regnboganum, trúði ég því að ég væri pínulítið meira sérstök en hinir.
Allt kom fyrir ekki, ég er dauðleg eins og hinir, fjársjóðs og óskalaus.

Þrjár óskir fæ ég uppfylltar fljótlega, þær teljast mannlegar og rætast fyrir tilstuðlan mína. Eða ég trúi því.

Bráðum hætti ég að vinna. Í bili. Farin að hlakka mikið til, kann vel við vinnuna, kann bara betur við það að gera lítið. Skólinn byrjar svo þriðja september. Ég hlakka til að byrja í honum.

Fyrir löngu búin að ákveða að mæta seint, illa og sjaldan í skólann, svona eins og í gamla daga. Þær fjarvistir voru sjaldnast fyrirfram ákveðnar og ástæðurnar síst merkilegar.

Eins og staðan er í dag hlakka ég til- sem aldrei fyr - að skrópa í haust.

Við Stormur stefnum að því að dunda okkur heima fram eftir vori. Ég er orðin frekar spennt að hitta á hann.

mánudagur, ágúst 20, 2007

Mér finnst Menningarnótt æðislegt framtak. Borgin iðar af lífi og eitthvað um að vera allsstaðar. Við hjónaleysin kíktum á kaffihús í tilefni dagsins. Skilst að það sé sett upp einu sinni á ári - blindrakaffihús!
Ótrúleg tilfinning að labba inn á kaffihús og halda um arm þjónsins til þess að hægt væri að vísa okkur til borðs. Þurftum að þreyfa eftir sófanum og staðsetja borðið áður en við gátum sest. Þegar veitingarnar voru bornar á borð kallaði maður og sagði svo til um hvar mætti setja kökuna. Ævintýralegt að borða skúffuköku með gaffli blindandi og þreifa á kaffibollanum áður en maður tók hann upp. Magnað að sitja og hlusta á skvaldrið en sjá hvergi nokkra sálu.

Tónleikarnir á Klambratúni stóðu líka fyrir sínu, aðstaðan klikkaði. Leitaði eins og logandi ljós að salernisaðstöðu en slíkt var ekki í boði nema inni á Kjarvalsstöðum og um fimmtíu manns á undan mér. Vafraði líka hálf utanvelta um svæðið í leit að ruslatunnu en fann enga. Ákvað loks að fara heim þegar partýblaðran var sprungin og sá þá örfáa kamra falda í rjóðrinu en engar ruslatunnur. Kannski er þægilegast að hirða allt ruslið upp af túninu, vesen að ná í tunnur, tæma þær og skila. Hver veit - atvinnuskapandi?

Fékk það varla af mér að horfa á flugeldasýninguna enn eitt árið. Er ég sú eina sem fæ í magann af tilhugsuninni um hvað væri hægt að gera margt gáfulegra fyrir þessa peninga? Milljónir fuðra upp á augabragði og fyrir hvað?
Það eru svo margar flugeldasýningar orðið að það er ekkert sérstakt við þær lengur. Ég legg því til að OR lækki frekar rukkanir sínar í ágúst en haldi þessu áfram. Svo væri hægt að skjóta tveimur flugeldum til að minnast þess að peningunum sé betur varið. Það væri líka hægt að nota peningana í að hafa Strætó frítt fyrir aldraða og öryrkja eða alla. Einnig mætti nota þessa peninga í að styrkja heilbrigðiskerfið eða jafnvel sem lið í að hækka laun kennara. Endalaust mikið af betri leiðum til þess að eyða þessum peningum.

fimmtudagur, ágúst 16, 2007

Fátt er betra en að vakna við kattarmal og sírenuvæl. Get varla beðið eftir því að vera stopp á rauðu ljósi og að einhver svíni fyrir mig.

miðvikudagur, ágúst 15, 2007

Í litla sjávarplássinu sem lifir á fiskveiðum er ekki hægt að kaupa ferskan fisk.
Skilaboðin eru skýr.
Ef þú ætlar að kaupa ferskan fisk nýdreginn úr sjónum í fiskibænum út úr búð - ertu annað hvort útlendingur eða vinalaus.

laugardagur, ágúst 11, 2007

Íslendingar eru tiltölulega nýbúnir að uppgvöta blöðrusleppingar. Veit ekki nákvæmlega hvenær þetta æði hófst en nú er ekki hægt að fara á hátíð án þess að fleiri fleiri knippum af blöðrum er sleppt upp í loft við dynjandi lófaklapp. Á Bolungarvík er Ástarvika núna og þar á að sleppa blöðrum og hefð er fyrir því að sleppa blöðrum í Gay pride- göngunni. Ég yrði hissa ef blöðrur eru ekki látnar fjúka á fiskideginum á Dalvík.

Til að nýta sér dramatískt orðalag þá eru þessar blöðrusleppingar umhverfisslys og framkvæmt af hryðjuverkamönnum sem hugsa ekki lengra en að horfa á eftir blöðrunum.

Blöðrurnar fjúka nefnilega ekki upp í loft og fara svo í loftruslatunnuna sem er hreinsuð reglulega. Þyngdarlögmálið á við um blöðrur sem og annað og á endanum koma blöðrurnar niður og stærsti hluti þeirra lendir í sjónum.
Í því liggur alvarleiki málsins.

Blöðrur drepa óhuggulega mörg sjávardýr. Helst er að nefna höfrunga, skjaldbökur og hákarla. Oft gleypa þessi dýr blöðrurnar og svo sitja þær fastar í þörmum dýranna sem dregur skepnurnar til dauða. Sorglega algengt er að finna skjaldbökur (ég hef ekki enn fundið eina sjálf) með blöðrubút yfir vitunum og dánarorsök köfnun.

Blöðrurnar drepa líka mikið af fiski og leggjast á rif og annan lifandi botn og drepa þannig lífrikið sem lendir undir blöðrunum. Blöðrurnar lenda líka í viðkvæmu skóglendi og inn á landi og valda þannig skaða á sjó og landi, ræktuðu sem og óræktuðu.

Sleppi Íslendingar þúsund blöðrum á hverri bæjarhátíð má varlega áætla að 15 þúsund blöðrum sé sleppt vísvitandi, fyrir pöpulinn, á ári. Fimmtán þúsund blöðrur geta valdið rosalegum skaða og valda miklum skaða.

Íslendingar eru ekki eina blöðruglaða þjóðin en þeir þurfa að axla sína ábyrgð sem og aðrir.

Það væri ráð að leggja blöðrusiðinn af og finna aðra leið til að gera eitthvað fallegt og táknrænt, sem ekki veldur jafnmiklum skaða og blöðrurnar í eins langan tíma og raun ber vitni.

föstudagur, ágúst 10, 2007

Veit ekki hve mörgum ferðamönnum ég hef liðsinnt í sumar en ófáum. Flestra þjóða kvikindi hafa komið við og stoppað mislengi. Reyni hvað ég get að sjá til þess að það fari vel upplýst og ánægt út úr húsi - í það minnsta ánægt.

Í dag kom fyrsti hundurinn. Fallegur íslenskur hundur sat fyrir utan í nokkra stund og áður en ég vissi af tiplaði hann inn og settist við upplýsingaborðið. Þegar ég ætlaði að benda honum á fegurð jökulsins snautaði hann út.

Göngutúrinn kom svo stuttu seinna, mátti til með að bjóða góðan daginn og þiggja kaffi. Hann hafði miklar áhyggjur af grjótinu fyrir utan húsið sem nú er að springa og hélt jafnvel að það væri að springa úr leiðindum. Svo kímdi hann og fékk sér mola. Hann hefur áhyggjur af glæpalýðnum í Reykjavík og skilur ekki af hverju alltaf er verið að skammast í börnum, þau eru jú framtíðin. Hann skilur heldur ekki af hverju fólk gerir upp á milli barna eftir því hvort þau eru skyld viðkomandi eða ekki. Vel á að koma við alla sem tilheyra framtíð landsins. Þegar talið kemur að berjalandi og sprettu bjarga ferðamenn mér.

Heimsmeistaramóti kvenna í kubb í firðinum var frestað. Ekki vegna veðurs heldur vegna þátttökuleysis. Eina liðið sem skráði sig til leiks var með undirritaðri innanborðs.
Á næsta ári verður metþátttaka, treysti á það.

fimmtudagur, ágúst 02, 2007

Á leiðinni

,,Ætlarðu ekki að kíkja við og skoða nýju kettlingana mína?" kallaði hún yfir runnana.
,,Ísó mín, ég er margbúin að sjá þá, yndæliskettir sem þú hefur fengið", segi ég og geri mig líklega til að halda áfram ferðinni heim í háttinn.
,,Vertu ekki svona leiðinleg, kíktu inn og fáðu þér tesopa".

Klukkan er að ganga eitt og ég er búin að vera á leiðinni heim síðustu sjö klukkutímana. Ákvað að kíkja og skoða kettina einu sinni enn og fá mér smá te í leiðinni. Þessi kattaskoðun leiddi í ljós að Megas er læða.

Tíminn er marklaus og einskis virði í sveitinni. Kaffibollinn sem ég ætlaði mér eftir vinnu endaði í fótanuddi, mat, bessevisaspjalli og tedrykkju. Löngu seinna lagði ég af stað heim.

Leiðin af fjallinu heim er ekki löng, þrjár mínútur í drolli en stoppaði tvisvar og að auki í kaffi.

Enda svo sum engin ástæða til þess að flýta sér heim