laugardagur, ágúst 11, 2007

Íslendingar eru tiltölulega nýbúnir að uppgvöta blöðrusleppingar. Veit ekki nákvæmlega hvenær þetta æði hófst en nú er ekki hægt að fara á hátíð án þess að fleiri fleiri knippum af blöðrum er sleppt upp í loft við dynjandi lófaklapp. Á Bolungarvík er Ástarvika núna og þar á að sleppa blöðrum og hefð er fyrir því að sleppa blöðrum í Gay pride- göngunni. Ég yrði hissa ef blöðrur eru ekki látnar fjúka á fiskideginum á Dalvík.

Til að nýta sér dramatískt orðalag þá eru þessar blöðrusleppingar umhverfisslys og framkvæmt af hryðjuverkamönnum sem hugsa ekki lengra en að horfa á eftir blöðrunum.

Blöðrurnar fjúka nefnilega ekki upp í loft og fara svo í loftruslatunnuna sem er hreinsuð reglulega. Þyngdarlögmálið á við um blöðrur sem og annað og á endanum koma blöðrurnar niður og stærsti hluti þeirra lendir í sjónum.
Í því liggur alvarleiki málsins.

Blöðrur drepa óhuggulega mörg sjávardýr. Helst er að nefna höfrunga, skjaldbökur og hákarla. Oft gleypa þessi dýr blöðrurnar og svo sitja þær fastar í þörmum dýranna sem dregur skepnurnar til dauða. Sorglega algengt er að finna skjaldbökur (ég hef ekki enn fundið eina sjálf) með blöðrubút yfir vitunum og dánarorsök köfnun.

Blöðrurnar drepa líka mikið af fiski og leggjast á rif og annan lifandi botn og drepa þannig lífrikið sem lendir undir blöðrunum. Blöðrurnar lenda líka í viðkvæmu skóglendi og inn á landi og valda þannig skaða á sjó og landi, ræktuðu sem og óræktuðu.

Sleppi Íslendingar þúsund blöðrum á hverri bæjarhátíð má varlega áætla að 15 þúsund blöðrum sé sleppt vísvitandi, fyrir pöpulinn, á ári. Fimmtán þúsund blöðrur geta valdið rosalegum skaða og valda miklum skaða.

Íslendingar eru ekki eina blöðruglaða þjóðin en þeir þurfa að axla sína ábyrgð sem og aðrir.

Það væri ráð að leggja blöðrusiðinn af og finna aðra leið til að gera eitthvað fallegt og táknrænt, sem ekki veldur jafnmiklum skaða og blöðrurnar í eins langan tíma og raun ber vitni.