sunnudagur, desember 31, 2006

Tad er alveg ad koma nytt ar.
Tessi jol og aramot aetladi eg ad vera i Taivan
En svo flaug eg heim
og til Pollands
er tar enn.

Tad er huggulegt herna i Biaoistok, rolegt og notalegt. Skemmtilegt folk og godur matur. Flugeldar komnir a loft og hundurinn ad verda brjaladur.
Likast til er nyarid eins allstadar i heiminum.

Mest langar mig heim. Heim til fjolskyldu og vina. Og kattanna. Heimskulegt hvad madur saknar katta sem hafa mestan ahuga a sjalfum ser. En tannig er kaerleikurinn, hann bara er. Mig langar heim nuna, langadi heim i gaer og langar heim a morgun eda hinn eda hinn. En tad er ekki i bodi.

Fengi eg einhverju radid vaeri eg enn i Taivan. Ta vaeri allt gott.

Gledilegt nytt ar kaeru lesendur, takk fyrir tad gamla.
Vonandi faerir tad nyja okkur gledistundir, meiri ast, meiri hlyju og frid.

P.s. aramotaskaupid a spolu vaeri vel tegid. Tad verdur bara ad halda kastroaramot.

Nastrovje

laugardagur, desember 30, 2006

Af vísindavefnum

Melting, frásog og blóðsykur Þrúgusykur og hvítur sykur eru kolvetni. Þrúgusykur er einsykran glúkósi og hvítur sykur er tvísykran súkrósi, sem samanstendur af einsykrunum glúkósa og frúktósa. Meltingarensím sundra kolvetnum í fæðu í einsykrur áður en kolvetnin eru frásoguð úr meltingarveginum og flutt í blóðrásina. Þar sem þrúgusykur er einsykra þarf ekkert að brjóta hann niður, hann frásogast úr meltingarveginum og fer beint út í blóðið. Eftir að þrúgusykur er kominn inn í blóðrásina er talað um blóðsykur. Styrkur blóðsykurs hækkar fljótlega eftir neyslu á þrúgusykri. Líkaminn bregst við þessari hækkun á blóðsykri með því að brisið gefur frá sér hormónið insúlín. Insúlín gegnir því mikilvæga hlutverki að senda boð til frumna í vefjum og líffærum um að taka upp sykur úr blóðinu og við það lækkar styrkur blóðsykursins. Þegar styrkur blóðsykurs lækkar hættir brisið að seyta insúlíni út í blóðið og styrkur þess lækkar. Það er mjög mikilvægt fyrir eðlilega starfsemi líkamans að styrk blóðsykurs sé haldið innan ákveðinna marka.Áður en hvítur sykur eða súkrósi er frásogaður úr meltingarveginum klýfur meltingarensímið sem nefnist súkrasi súkrósann í einsykrurnar glúkósa og frúktósa. Glúkósahlutinn frásogast eins og greint er frá að ofan. Frúktósi, sem frásogast úr meltingarvegi, hefur ekki strax áhrif á styrk blóðsykurs eins og glúkósi. Fyrst fer frúktósi til lifrarinnar og er þar meðal annars ummyndaður í glúkósa, sem birtist þá sem sykur í blóði. Þetta ferli tekur lengri tíma og áhrifin á styrk blóðsykurs verða ekki eins mikil og þegar þrúgusykur er borðaður.Lífsvenjur og aldur einstaklings ráða miklu um hvernig líkaminn vinnur úr sykri (glúkósa) Ef líkaminn getur ekki unnið almennilega úr sykri verður blóðsykurinn of hár. Efnaskiptasjúkdómurinn sykursýki einkennist af of háum blóðsykri og honum fylgja ýmsir alvarlegir kvillar svo sem nýrnaskemmdir og blinda og sjúkdómurinn getur leitt til dauða. Einnig eru hjarta- og æðasjúkdómar meðal annars taldir vera fylgikvillar sykursýki. Tíðni hinnar svokölluðu insúlínóháðu sykursýki eða sykursýki af tegund 2 er há meðal aldraðra og hefur farið ört vaxandi meðal yngra fólks bæði hér á landi og annars staðar í heiminum. Insúlínóháð sykursýki er meðal annars talin stafa af því að frumur verða ónæmar fyrir insúlíni og afleiðingin er skert upptaka á glúkósa inn í frumur. Fyrir sextán árum birtust niðurstöður rannsóknar sem sýndu að næmi frumna fyrir insúlíni jókst, og þar með upptaka blóðsykurs inn í frumur, þegar aldraðir og ungir einstaklingar höfðu stundað reglulega líkamshreyfingu í eina viku. Fjórum árum síðar birtust niðurstöður rannsóknar þar sem sýnt var fram á að blóðsykur einstaklings með insúlínóháða sykursýki lækkaði eftir reglulega líkamshreyfingu í eina viku.Frumur miðtaugakerfisins, þar með talin heilinn og mænan, og rauð blóðkorn hafa þá sérstöðu að vera háð orku frá blóðsykri til eðlilegrar starfsemi. Einstaklingur sem er í námunda við kjörþyngd sína og hreyfir sig reglulega nýtir bæði þrúgusykur (glúkósa) og hvítan sykur (glúkósa og frúktósa) sem orkugjafa. Einstaklingur sem er of feitur og hreyfir sig lítið þarf ekki á mikilli orku úr næringarefnum að halda og þá er líklegt að þrúgusykurinn og hvíti sykurinn stuðli enn meir að uppsöfnun fitu í líkamanum, þar sem umframneysla á sykri verður að fitu. Sjá einnig:
Svar Árna V. Þórssonar við Hvers vegna eykst sykursýki hjá börnum og unglingum svona mikið?
Svar Ástráðs B. Hreiðarssonar við Hvað er langt í það að unnt verði að setja tæki inn í sykursjúka?
Svar Bryndísar Evu Birgisdóttur við Af hverju þyrstir okkur í sætindi, og af hverju finnast okkur þau góð?
Svar Davíðs Þórissonar við Hvað er það sem gerist í frumunum þegar við fáum sykursýki? Hver eru einkenni hennar?

sunnudagur, desember 24, 2006

Maður er bara eitthvað svona,
eitthvað svona
svona.

Best væri að hlutirnir væru hinsegin
Svona eins og ég vil hafa þá
ég vil hafa þá.

Sagt hefur verið,
enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur.
Það er ekki satt.
Ég vissi upp á hár hvað ég átti
og vil fá það aftur.

Gleðileg jól

föstudagur, desember 22, 2006

Bara að tár mín breyttu einhverju.

Vonandi að svefninn veiti þér þá lausn sem þú leitaðir eftir.

Þótt ég talaði tungu manna og engla,
en hefði ekki kærleikann,
yrði ég hljómandi málmur,
eða hvellandi bjalla,
og þótt ég hefði spádómsgáfu,
en hefði ekki kærleikann,
ég væri ekki neitt

Og þótt ég hefði svo sterka trú,
að færa mætti fjöll úr stað,
en hefði ekki kærleikann,
ég væri ósköp snauður,
og þótt ég deildi út öllum eigum mínum,
og framseldi líkama minn,
en hefði ekki kærleikann,
þá væri ég engu bættari.

Kærleikur trúir öllu,
kærleikur vonar allt,
kærleikur hann umber allt
og fellur aldrei úr gildi.

Kærleikur hann umber allt
og fellir aldrei dóm.

texti eftir Jóhann G. Jóhannsson
lokasetning breytt af síðueiganda

þriðjudagur, desember 19, 2006

Kveikjum á kertum.

mánudagur, desember 18, 2006

Mér er búið að vera kalt í tvo daga, inn að beinum. Nú er ég undir sæng og er enn kalt á tánum.
Ég átti svo sem von á því.

Huodao lao xuedáo lao haiyou sanfen xuebudao... mikill sannleikur í því.

Skilst það séu sex dagar til jóla. Væntanlega eru margir stressaðir yfir því.
Jólin ætla að renna framhjá mér þessi jólin, er samt pínustressuð núna en ekki útaf jólunum.

Held samt að ég skelli mér í nudd. Eða spa og dekri við mig í tilefni þess að þorri Íslendinga sé svo saddur að þeir geti ekki gengið. Ekki það að ég sé í megrun.

Sé til hvað ég geri, ég hef nokkra daga til að ákveða mig.

laugardagur, desember 16, 2006

Ég hefði kannski átt að eyða aðeins meira í mat. Nú þarf ég að bjóða í aðra veislu, til að klára afgangana.
En kvöldið var brill, mikið af góðum mat og skemmtilegum samræðum. Stundum horfði kennarinn minn út í loftið því hann skildi ekki orð af því sem við sögðum. Við vorum með það á hreinu hvað við vorum að segja. Held samt að það hafi verið ansi kómískt að hlusta á okkur spjalla um daginn og veginn. Enda veigruðum við okkur ekki við því að sækja stíft að málefnum líðandi stundar. Kennarinn sótti aðeins fastar að flöskunni.

Þær klöppuðu mikið og skríktu og sögðu fáránlega væmin orð.

Svo fór dágóð stund í að taka myndir, Bing xin að gera þetta, He Xiang zi að gera þetta, allir að gera þetta, stilla sér upp, stilla sér upp aftur, skipta um stöðu, taka mynd, taka mynd, taka mynd!

Helvíti var þetta gaman!

miðvikudagur, desember 13, 2006

Xiao Pí (þýðir lítill óþekkur) fleygði sér í fangið á mér í morgun, við brostum út að eyrum bæði. Ég hljóp á eftir honum um allt og hann flissaði og hló. Svo horfðum við saman útum gluggann, niður í garð á allt fólkið í hjólastólunum. Xiao Pí benti og benti og ég reyndi eftir bestu getu að fræða hann um það sem fyrir augu bar á bjagaðri kínversku.

Síðast þegar ég hitti Xiao Pí vorum við skömmuð, hann grét en ég gapti.

Xiao Pí er eins og hálfs árs gamall, hann er skarpur, snöggur og uppátækjasamur. Hann virðist standa systkinum sínum fremur að öllu leyti.
Ég veit ekki af hverju en ég var ein á deildinni með öll börnin og það var matmálstími. Þegar maturinn er kominn garga þeir fjórir og linna ekki látum fyrr en búið er að skófla upp í þá mat á ógnarhraða.
Ég var með eitt vöggubarn á hendi að gefa því pela og sá að ég gæti gefið þremur á sama tíma.
Því gaf ég vöggudrengnum pelann sinn með annarri og með hinni tróð ég upp í Xiao Pí og Jian Zi eins hratt og ég gat.
Svo byrjaði Xiao Pí að mata sig sjálfur. Mér þótti það afbragð og hrósaði honum mikið fyrir. Sá fram á að hann gæti borðað sjálfur og þá væru fjórir að borða og einn þyrfti að bíða.

En svo kom gæslukonan og hellti sér yfir Xiao Pí og tók af honum matinn og hann grét. Svo skammaði hún mig af öllum lífs og sálarkröftum. Og ég var sek. Ég leyfði Xiao Pí að borða einum.

Borði Xiao Pí sjálfur, vill hann alltaf borða sjálfur og hann er lengur að borða sjálfur en þegar hann er mataður. Borði hann sjálfur fer hann seinna að sofa og minni hvíld fyrir starfsmann.


Matarboðið mitt er á föstudaginn, ég á eftir að kaupa stóla svo hægt sé að borða. Ég tilkynnti bekkjarfélögunum að þeir fengju tortilla í matinn og kennarinn spurði mig hvort það væri íslenskur matur..... já svona passlega.
Svo fá þeir hrísgrjónagraut í eftirrétt og slátur ef það er til í Taichung...

þriðjudagur, desember 12, 2006

Ég fór á tehús.
Svona eins og maður gerir. Settist og pantaði te, setti töskuna á stólinn við hliðina á mér.
Kaffið kom og ég talaði og talaði og talaði.
Síminn hringdi ég byrjaði að leita af honum ofaní töskunni minni.
Þá stökk stærðarinnar kakkalakki upp úr töskunni minni.

Mér fannst það ekkert sérstaklega töff.

fimmtudagur, desember 07, 2006

Af hverju suða moskítóflugur?

Til þess að fara í taugarnar á mér þegar ég er alveg að sofna!
Því hljóp ég um herbergið mitt í nótt í leit að flugum vopnuð raftennisspaða. Klukkustund seinna og tíu moskítóflugum lagðist ég til hvílu

zzzzzzz.... andskotinn. Kveikti á viftunni og var því kalt í nótt en heyrði ekki í moskítódruslunum. Mér er orðið sama þó þær nærist á mér til að geta verpt en ég nenni ekki að hlusta á þær. Maður hefði haldið að blóðsugur þyrftu að vera hljóðlátar....

Spurði kennarann minn út í númeraplötur á vespum og fékk klukkustundarfyrirlestur um pólitíska stöðu Taívan í heiminum. Svona til að leggja orð í belg benti ég henni á að Árni Johnsen ætlaði sér aftur á þing. Hún brosti sínu vinalega brosi. Ég veit ekki af hverju, kannski því hún skildi ekki hvað Árni vildi á þing, kannski af því hún skildi ekki pólitík almennt, en líklegast er að hún hafi hreinlega ekki skilið mig. Ég reyndi ekki að segja henni frá tæknilegu mistökunum.

Ég fór í banka í dag með ávísun og var vísað frá. Ég brosti ekkert sérstaklega mikið þegar ég heyrði buhaoyisi og fliss... komdu seinna. Færslan strandaði á nafninu mínu.

Ég kann vel við nafnið mitt. Sérstaklega föðurnafnið. En þegar maður er í útlöndum er ekkert töff að vera Bæringsdóttir, og minna töff að vera Baeringsdóttir. Verst er þegar nafnið er afbakað með öllu.

Ekki nóg með að útlendingar yfirhöfuð eigi svolítið erfitt með nafnið mitt þá var villa á ávísuninni minni. Gaeringsdothtir er ekki töff, ekki flott og eiginlega óskiljanlegt. Mér var eiginlega alveg sama hvað stóð á ávísuninni. Ég þykist vita að enginn í Taívan beri þetta eftirnafn, Gaeringsdothtir, er eiginlega sannfærð um að enginn vilji kannast við það. Og mig langaði í pening.

Mér fannst þetta einfalt mál. Ég mætti með tíu skilríki, framvísaði þeim öllum og sagði að starfsfólkið hefði gert mistök. Var meir að segja með pappír upp á það. Samt var nokkuð snúið að leiðrétta þessa afbökun og segja... láttu ekki svona bankakerling, þetta er ég! Gefðu mér nú peninginn og hættu þessari vitleysu.

Því sit ég fúlari en flest sem fúlt er og drekk ekki kaffi!

þriðjudagur, desember 05, 2006

Kaffið mitt er orðið kalt, sem gerist sjaldan, ég gleymdi mér eitt augnablik í bókunum. Skrifa sama orðið aftur og aftur þangað til ég er löngu búin að gleyma merkingunni.

Taívanar leggja ekki mikla merkingu í jólin, en spila jólalög nú eins og vitlausir séu. Lögin minna mig ósköp lítið á jólin og vespur ekki heldur. Taívanar elska veislur og mat.

Framhjá mér þeytast um hundrað vespur, hvergi í heiminum eru eins margar vespur og í Taívan. Ég kann vel við vespuna mína.

Tengdadóttir forsetans flaug til Bandaríkjanna kasólétt og var sökuð um að ætla að eiga barnið í Bandaríkjunum svo það fengi Bandarískt ríkisfang. Hávær mótmæli og stelpan flaug heim. Var komin svo langt á leið að hún fékk undanþágu í flug. Ástæða mótmæla Taívana var sú að forsetinn hafði líst því yfir að hann vildi ekki eiga bandaríska fjölskyldu því hann elskaði Taívan. Það var löngu áður en stelpan varð ólétt.

Undanfarið hefur forsetinn verið sakaður um spilingu og helmingur þjóðarinnar vill að hann víkji. Hann ætlar hvergi að hvika. Hinn helmingur þjóðarinnar vill að hann sitji áfram.

Sá í blöðunum að einhverjir vilja opna ,,ChinaTown" í Taívan. Þannig geti kínverjarnir haldið sér á sama svæði og haft hlutina eins og þeir vilja og látið hina vera. Rökin eru að allsstaðar annars staðar eru ,,ChinaTown" í Bandaríkjunum, Ástralíu og víðar.

Ég glotti því eflaust er helmingur þjóðarinnar sammála honum, hinn helmingurinn ekki.

Kennarinn minn segist hafa áhyggjur af gangi mála því nú snúist allt um að elska Taívan og Taívana. Ég kann vel við mig í Taívan og kann vel við Taívana. Held samt að kennarinn minn hafi engar sérstakar áhyggjur af mér.

sunnudagur, desember 03, 2006

Trabant

Risastórar byggingarnar voru gráar og þunglamalegar að sjá. Á árum áður hafði verið vínframleiðsla í húsunum. Fyrirtækið var fyrir löngu farið á hausinn. Það var samt eitthvað notalegt að sitja í grasinu og horfa á tómar byggingarnar og sjá ljósið frá einni byggingunni og hlusta á tónlistina.

Fyrr um daginn var listasýning opnuð. Samstarfsverkefni Taívanskra og erlendra listamanna. Myndir, skúlptúrar, gjörningar, ljóð og tónlist, allt sem prýtt getur góða sýningu.

Í grasinu sátum við nokkur og nutum þess að vera til. Hægt og hægt bættist fólk í hringinn og gleðin jókst. Maður á þrítugsaldri settist við hliðina á mér og við byrjuðum að spjalla.

Hreimurinn kemur alltaf upp um mig og með fyrstu spurningum er ,,hvaðan ertu?" Pínulítið þreytt á viðbrögðum annarra um heimalandið, var ég svolítið treg til svars. Nennti ekki að tala um hvað landið væri fallegt, hvort ég þekkti Björk eða hvalveiðar. Nú eða svara spurningum um hvort ísbirnir dafni vel og hvar í heiminum landið er.

Ég sagði satt og rétt frá og var tilbúin fyrir ,,REALLY... I´VE ALWAYS WANTED TO GO THERE". En auðvitað sagði hann það ekki. Hann gretti sig pínulítið og sagðist ekki vita neitt um landið, ég brosti og sneri vörn í sókn með því að demba á hann spurningu um hans líf.

Svo greip hann fram í fyrir mér og hálföskraði DO YOU KNOW TRABANT? Ertu ekki að grínast...

Kerla brosti, eiginlega ljómaði hún, þetta var nú með betri spurningum sem hún hafði heyrt. Og seisei jújú mikil ósköp Trabant!

Trabant rúntar um í eyrum mínum flesta daga, tónlist þeirra ber ábyrgð á nokkrum ,,óhöppum" í umferðinni.

Ég lofaði að redda honum eintaki af disknum mínum.

Næst verð ég ekki jafn upprifin spyrji mig einhver um Trabant, sömu spurningarnar sömu spurningarnar!