þriðjudagur, desember 05, 2006

Kaffið mitt er orðið kalt, sem gerist sjaldan, ég gleymdi mér eitt augnablik í bókunum. Skrifa sama orðið aftur og aftur þangað til ég er löngu búin að gleyma merkingunni.

Taívanar leggja ekki mikla merkingu í jólin, en spila jólalög nú eins og vitlausir séu. Lögin minna mig ósköp lítið á jólin og vespur ekki heldur. Taívanar elska veislur og mat.

Framhjá mér þeytast um hundrað vespur, hvergi í heiminum eru eins margar vespur og í Taívan. Ég kann vel við vespuna mína.

Tengdadóttir forsetans flaug til Bandaríkjanna kasólétt og var sökuð um að ætla að eiga barnið í Bandaríkjunum svo það fengi Bandarískt ríkisfang. Hávær mótmæli og stelpan flaug heim. Var komin svo langt á leið að hún fékk undanþágu í flug. Ástæða mótmæla Taívana var sú að forsetinn hafði líst því yfir að hann vildi ekki eiga bandaríska fjölskyldu því hann elskaði Taívan. Það var löngu áður en stelpan varð ólétt.

Undanfarið hefur forsetinn verið sakaður um spilingu og helmingur þjóðarinnar vill að hann víkji. Hann ætlar hvergi að hvika. Hinn helmingur þjóðarinnar vill að hann sitji áfram.

Sá í blöðunum að einhverjir vilja opna ,,ChinaTown" í Taívan. Þannig geti kínverjarnir haldið sér á sama svæði og haft hlutina eins og þeir vilja og látið hina vera. Rökin eru að allsstaðar annars staðar eru ,,ChinaTown" í Bandaríkjunum, Ástralíu og víðar.

Ég glotti því eflaust er helmingur þjóðarinnar sammála honum, hinn helmingurinn ekki.

Kennarinn minn segist hafa áhyggjur af gangi mála því nú snúist allt um að elska Taívan og Taívana. Ég kann vel við mig í Taívan og kann vel við Taívana. Held samt að kennarinn minn hafi engar sérstakar áhyggjur af mér.