miðvikudagur, ágúst 30, 2006

Bananalýðveldið Ísland!

sunnudagur, ágúst 27, 2006

Hér er ugglaust hægt að skrifa eitthvað af viti.

mánudagur, ágúst 21, 2006

Fátt veit Ynjan verra en fólk sem talar í sífellu og eingöngu um börnin sín. Ekki að Ynjan þekki slíkt fólk, heldur hræðir tilhugsunin hana svo að svitinn perlar fram. Eilítið verri þjóðflokkur talar í sífellu og eingöngu um dýrin sín.

Í ljósi þess ætlar Ynjan ekki að segja frá hremmingum ljónanna við að læra á kattalúguna. Annar er þó inni og hinn vill út.


Ynju þótti Ljóni sinn ekki fyndinn þegar hún las athugasemd hans í síðustu færslu ,,Þetta blogg er merkilegt. hver ertu? ljóni".
Dulúðin hefur ætíð umvafið Ynjuna en eitthvað er óviðeigandi að spyrja sína heittelskuðu á vefritlu hver hún sé. Vont þótti henni jafnframt að Ljóni hafði komið sér upp vefritlu og ekki séð sért fært um að segja sinni ektakonu tilvonandi. Þar sem Ljóni var ekki heima ákvað kerla að skoða vefritluna hans og vonandi er þetta ekki Ljóni.
Það er ekki fyndið að þykjast vera undir tvítugt og blogga á nokkrum tungumálum og setja inn skemmtilegar færslur um tungumál og ranghvolfa svo augunum á síðkvöldum þegar Ynjan dásamar Árna og málfræðibækur hans. Ljóni er enn Ljóni og ljóni þá einhver ekki að þykjast vera hann.
Fúff hitt hefði verið flókið.

sunnudagur, ágúst 20, 2006

Það er notalegt að hlusta á hrotur, vinalegt og vært. Að hlusta á djúpar, langar hrotur er eins og að liggja á loftmiklum alhvítum skýjum og borða vínber.

Ekki er verra að liggja í sólbaði í Skorradal.

Yndælast er þó að hjúfra sig í höllinni og bölva í hljóði því vökva þarf blómið.

fimmtudagur, ágúst 17, 2006

Hvað skal gera þegar kona er með könguló á milli brjóstanna

Hver eru helstu einkenni þess að vera með könguló á milli brjóstanna?
Kláði við annað brjósið (eða bæði séu fleiri en ein) allt eftir stærð og stöðu skordýrsins. Kláðinn er ekki staðbundinn og fólk fær það á tilfinninguna að eitthvað sé að skriða upp skoruna.

Hvað skal gera verði vart við könguló á milli brjósta?
Fyrst skal brosa og kynna sig, líklega færðu hroll þegar hér er komið við sögu. Þá er gott að setjast niður með hraði og teygja sig eftir blaði. Toga bolinn vel frá og setja áðurfundið blað niður á milli brjóstanna og skófla köngulónni af líkamanum, niður á gólf, eða út hafi fólk geð í sér að ganga með brjóstaló að neyðarútgangi. Ferli þetta ætti að taka innan við fimm sekúndur.

Eru eftirköst af því að vera með könguló á milli brjóstanna?
Flestir lýsa óheyrilegum áhuga á eigin brjóstum eftir að könguló finnst og kláða. Tilhneiging til þess að horfa í sífellu niður í skoru og finna fyrir kláða er algeng. Uppköst eru ekki þekkt en stundum kúgast fólk. Ekki ættu önnur eftirköst að vera.

Er sniðugt að biðja brjóstaló að vísa sér í berjamó?
Nei það er ekki einu sinni fyndið.

miðvikudagur, ágúst 16, 2006

Þá er maður að mestu búinn að jafna sig á íþróttameiðslunum. Ég hef sjaldan verið stoltari af eins stórum og ljótum marblettum. Flest meiðsli mín hafa verið af öllum öðrum ástæðum en íþróttaiðkun.

Í Tungudal voru þrír litlir drulluvellir sem vökvaðir voru til að tryggja lítinn árangur. Fyrir mig var völlurinn heldur stór og forugur.

Fyrsti leikur gekk illa, þá fattaði maður að þolið var lítið, maður kunni ekki að hlaupa í drullu og var enn verri í fótbolta. Tuðran gerði lítið, mótherjarnir minna og keppnisskapið lét ekki á sér kræla. Lokatölur núll núll og Vargas fegið að vera á lífi.

Ég hef heyrt íþróttamenn tala um að þeir spili upp á líf eða dauða, þeir vilji frekar deyja en að missa af boltanum og frekar slasast en að tapa. Eitthvað bar lítið á þessum vilja hjá mér. Í miðjum öðrum leik eftir glæsileg tilhlaup, grimmilegar tæklingar, legu í leðju sem svotil ómögulegt var að komast upp úr var ég alveg til í að fara útaf, leggja mig og leyfa andstæðingnum að fá boltann.

Við vorum frekar fáliðaðar en því fegurri og skemmtilegri. Rétt í þann mund sem að ég ætlaði að drekkja mér í drullunni skoraði framherjinn mark og auðvitað eflist maður við það. Lokatölur eitt núll fyrir Vargas.

Hluta af öðrum leik og allan þriðja leik spilaði ég því eftir getu, af miklum vilja og leikgleði. Gladdist líkast til mest þegar leikurinn var búinn og ljóst að utanbæjar, utankjálka, utanveltulið okkar hafði unnið riðilinn, við vorum farnar að hugsa um fyrsta sæti.

Yndisfagrar stúlkur, svona stúlkur sem bara finnast á Vestfjörðum, lögðu okkur lið og eftir hörkuspennandi leik var farið í vítaspyrnukeppni sem endaði núll eitt fyrir hina.

Þá þurfti að ráðast í að spila um þriðja sæti, mannskapurinn þreyttur, dasaður og dofinn.
Eins og sönnum íþróttamönnum sæmir, með keppnisskapið í lagi, buðum við andstæðingunum í vítaspyrnukeppni sem var hörkuspennandi. Þá var enginn kallaður tyrki heldur var athyglinni beint frá með því að tala um Stjórnarballið sem vera átti í Súðavík þá um kvöldið! Ekki enn hafa borist kærur en fingurnir eru í kross.

Ég var í marki og barðist eins og ljón, fleygði mér eftir boltanum og hvatti mínar stúlkur áfram til sigurs en allt kom fyrir ekki. Við vorum í bráðabana og fyrir einskæra heppni lak boltinn inn fyrir markalínuna og ljóst að Vargas vermdi fjórða sæti.
Ekki reyndist tóm til þess að setjast niður og skæla og gott ef undirrituð fékk ekki ákúrur fyrir að fagna með andstæðingunum þegar úrslit voru ljós!

Næst verður formið betra, æft fyrir keppni, liði safnað og við rústum keppninni.

Um ókomna tíð um ilja manni um hjartarætur að hafa unnið riðilinn og endað í fjórða sæti!
Keppni á Richter-skala og skemmtum á heimsmælikvarða!

sunnudagur, ágúst 13, 2006

Það er svo erfitt að vera íþróttamaður og koma heim eftir að hafa spilað fimm leiki sama dag.
Hræðilegt að haltra og skakklappast og stynja af verkjum.

Við unnum okkar riðil, það skipti mestu máli, sárið á sköflungnum á mér grær með haustinu.

Meira um mýrarbolta þegar fingurnir verða nothæfir.

fimmtudagur, ágúst 10, 2006

9. Ágúst 1945 var sprengju varpað á Nagasaki. Það eru sextíu og eitt ár síðan. Árið 1945 var pabbi minn ekki einu sinni hugsun í hausnum á pabba sínum það er svo langt síðan. Ætli kertum verði fleygt á tjörninni í Reykjavík árið 2067 útaf sprengingunum í Líbanon?

miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Þegar ég leit á klukkuna í morgun var komið haust, aukreitis er mánuður í brottför. Það er eitthvað við landið niðurrignda sem kallar á mann, heldur aðeins í mann. Þetta eitthvað er almennt orðið óspennandi um miðjan ágúst og því ráð gerast farfugl og flýja á gáfulegri slóðir. Svona rétt þegar maður er að hefja sig á flug skotrast niður í hugann að maður er ófleygt fygli. Ég væri sátt með að taka með mér nokkrar manneskjur, sem myndu halda manni selskap hlut úr degi. Ljón taka hita fram yfir allt annað í lífinu og neyðin kennir nöktu ljóni að kaupa sér flugmiða og læra kínversku. Hvergi verður hvikað.

Nú eru þeir sem aka á of miklum hraða hryðjuverkamenn. Það þykir mér fara illa. Ég kann því vel að keyra hratt en vil ekki kannast við krógann hryðjuverk. Ég sé einattan lítið samhengi milli hryðjuverka og hraðaaksturs en líkast til er það mín brenglun því flestir sjá Landsvirkjun sem umhverfisverndarfyrirtæki, Olís sem uppgræðslufélag og bankana sem vini sína.

Ég hef ekki enn gert Landsvirkjun né Olís að persónulegum vinum mínum og þegar bensínlítrinn kostar ámóta mikið og hektari af landi fyrir austan sé ég ekki ástæðu til þess að vinna því. Ég er þó í þeirri vondu stöðu að mér finnst bankinn vera vinur minn. Ég hringi og kynni mig bara með fyrsta nafni. Nú má ekki taka því sem svo að bankinn sjálfur svari, heldur starfsfólk sem vinnur innan veggja bankans. Ég bið gjaldkerann um að kíkja á bókina mína og jafnvel millifæra yfir á hinn reikninginn sem ég nota svo mikið. Stundum spyr gjaldkerinn hvort ekki gangi allt vel og ég jánka því og spyr kurteisislega um veðrið og vegaframkvæmdir.

Svo verði banki einhvern tíma vinur manns, er bankinn minn eins nálægt því og líkast er hægt. Svo langt sem það nær að vingast við banka og starfsmenn í afgreiðslustörfum.
PLÍÍÍs

Svarthöfða sárvantar nýtt heimili!

mjá

mánudagur, ágúst 07, 2006

Við hjónaleysin erum búin að fara á tvær útihátíðar, græða hundrað og fimmtíu milljónir og leysa eitt morðmál. Samt situr maður inni með úfið hárið og nennir ekki að leggja af stað í verslunarmannahelgarumferðina. Í henni hefur maður setið áður og þráir ekki bíl við bíl löturhæga umferð.

Því er gott að geta siglt inn í Draumalandið enn um sinn og vonað að allir aðrir hafi ákveðið að vera snemma í því.

fimmtudagur, ágúst 03, 2006

Þegar sólin skín gerast undraáhugaverðir hlutir. Ynjan þurfti að skreppa á pósthúsið og ná þar í bréf sem vottaði að hún hefði hlotið styrk til árs náms í Taívan. Eitthvað sem hún vissi og var spennt fyrir.

Svo opnaði kerla áðurnefnt bréf og komst að því að einhverra hluta vegna fékk hún ekki téðan styrk.
Ynjan hafði krækt sér í styrk til þriggja ára, auk styrksins sem hún átti von á, var búið að slaufa aftan við tveimur árum til að klára meistaranám í sama landi.

Varla er algengt að þröngvað sé upp á námsmenn auka pening svo þeir geti verið lengur við nám. Kerla er nokkuð montin með þetta tilboð, þetta er stundin til þess að hringja í gamla kennarann sem hataði mann og grobba sig.

Annars hefur Ynjan áhyggjur af blaðburðarfólki. Líkast til eru ekki gerðar þær kröfur að blaðburðarfólk kunni að lesa. Ynjan hefur haft í ár miða í glugganum sem afþakkar fjölpóst, en hann var orðinn það máður að hún setti nýjan upp, afþakkaði fjölpóst og Blaðið og vil aðeins eitt eintak af Fréttablaðinu. Ekkert hefur breyst svo Ynjan verður að taka því sem svo að það geti ekki lesið.
Og Ynjan var meir að segja með gestaþraut á miðanum bara til þess að gleðja útburðinn en þar sem hann getur ekki lesið finnst honum líklega ekki fyndið að það standi Engann fjölpóst.

En Ynjan fær flest sem hún vill og því er smá mál að sitja uppi með pappírsflóð.

þriðjudagur, ágúst 01, 2006

Í samskiptum sínum í gegnum tíðina man ynjan ekki eftir því að hafa átt þess kost að segja Ríkinu að bíða aðeins.
Bíða aðeins með að hún borgi reikninga, bíði aðeins með að skila gögnum, bíði aðeins ...

...Hví á Ynjan því að bíða aðeins eftir laununum sínum?