miðvikudagur, ágúst 09, 2006

Þegar ég leit á klukkuna í morgun var komið haust, aukreitis er mánuður í brottför. Það er eitthvað við landið niðurrignda sem kallar á mann, heldur aðeins í mann. Þetta eitthvað er almennt orðið óspennandi um miðjan ágúst og því ráð gerast farfugl og flýja á gáfulegri slóðir. Svona rétt þegar maður er að hefja sig á flug skotrast niður í hugann að maður er ófleygt fygli. Ég væri sátt með að taka með mér nokkrar manneskjur, sem myndu halda manni selskap hlut úr degi. Ljón taka hita fram yfir allt annað í lífinu og neyðin kennir nöktu ljóni að kaupa sér flugmiða og læra kínversku. Hvergi verður hvikað.

Nú eru þeir sem aka á of miklum hraða hryðjuverkamenn. Það þykir mér fara illa. Ég kann því vel að keyra hratt en vil ekki kannast við krógann hryðjuverk. Ég sé einattan lítið samhengi milli hryðjuverka og hraðaaksturs en líkast til er það mín brenglun því flestir sjá Landsvirkjun sem umhverfisverndarfyrirtæki, Olís sem uppgræðslufélag og bankana sem vini sína.

Ég hef ekki enn gert Landsvirkjun né Olís að persónulegum vinum mínum og þegar bensínlítrinn kostar ámóta mikið og hektari af landi fyrir austan sé ég ekki ástæðu til þess að vinna því. Ég er þó í þeirri vondu stöðu að mér finnst bankinn vera vinur minn. Ég hringi og kynni mig bara með fyrsta nafni. Nú má ekki taka því sem svo að bankinn sjálfur svari, heldur starfsfólk sem vinnur innan veggja bankans. Ég bið gjaldkerann um að kíkja á bókina mína og jafnvel millifæra yfir á hinn reikninginn sem ég nota svo mikið. Stundum spyr gjaldkerinn hvort ekki gangi allt vel og ég jánka því og spyr kurteisislega um veðrið og vegaframkvæmdir.

Svo verði banki einhvern tíma vinur manns, er bankinn minn eins nálægt því og líkast er hægt. Svo langt sem það nær að vingast við banka og starfsmenn í afgreiðslustörfum.