föstudagur, júlí 14, 2006

Sem og aðra daga var grenjandi rigning. Hjónaleysin ætla að hlaupa inn í skjól þegar þau heyra aumt væl. Pínulítið og hrakið kattarkvikindi vælandi fyrir utan húsið fjórða daginn í röð. Ljóni fór inn en Ynjan sagði kettinum það að í ljósi stormviðvörunar, væri svo sem hægt að gefa honum að eta. Ynjan varaði hann við villidýrunum tveimur sem búa með hjónaleysunum, en væri hann óbærilega svangur, kaldur og hrakinn kæmi hann inn. Hann afþakkaði pent svona í bili.
Svo þegar hjónaleysin voru búin að koma sér vel fyrir upp í sófa, öskraði hann á þau. Inn var hann kominn, tilbúinn að lúffa fyrir villidýrunum og sleikja sig upp við húseigendur. Svo fékk hann að éta, þá fékk hann að þurrka feldinn og smá klapp. Eins og samningar höfðu gert ráð fyrir átti hann svo að fara sína leið.
Hann kúrði aðeins meir, og sleikti sér aðeins upp við húsfreyjuna og reyndi svo að blíðka húsbóndann. Hann gætti þess vel að angra ekki óargadýrin sem fylgdust með hverri hreyfingu.
Ynjunni datt í hug að það gæti verið fínt að eiga þrjá ketti, Ljóna fannst það verri hugmynd en að gerast grænmetisæta. Það hvarflaði að Ynjunni að hann gæti fengið að vera þangað til hann fyndi nýtt húsnæði, Ljóni talaði um sprengingarnar í Hirosíma.
Því var honum hent út.

Svo fór Ynjan á fætur í morgun og átti von á því að gamla óvættin væri svöng. Ynjan hélt að hún hefði séð til þess að Svarthöfða hefði verið úthýst. Óvættin var á sínum stað, fyrir utan hurðina hungurmorða og kvartinn eins og alltaf í morgunsárið, kveinin óvenju mikil.
Svo stökk Svarthöfði, þá gersamlega búinn að misnota aðstöðu sína, fyrst í fang Ynjunnar, svo beint upp í rúm til húsbóndans og eftir eltingaleik um herbergið var hann settur fram. Þegar kom að matargjöf vældi hann hærra en hinir og sárar, líkt og hann hefði verið þar alla tíð.

Meindýravarnir Ríkisins fara með Svarthöfða í Kattholt í dag.
Ynjan á von á því að hann vanti eiganda.
Ynjan gefur honum meðmæli sé þess óskað.