sunnudagur, júní 18, 2006

Fjallkonan birtist ynjunni ekki þetta árið frekar en áður. Ynjan þekkir ekki fjallkonuna persónulega en hefur hlerað út í bæ að hún hafi gaman að ljóðum og þjóðbúningum. Hafi fjallkonan aukreitis áhuga á bátum og sjó eiga þær stöllur margt sameiginlegt og ekki úr vegi að þær kynnist og haldi sambandi.

Kannski að fjallkonan sé að austan og gráti nú land sitt, hver veit nema hún hafi fellt fé sitt Landsvirkjun til heiðurs. Kannski fjallkonan sé í Brasilíu á veturna til þess að kynna sér virkjanir annarra landa. Fallegt væri að sjá í símaskránni að fjallkonan hefði starfann atvinnumótmælandi og betra ef hún laun hennar kæmu frá listasjóði Landsvirkjunar.

Svo gæti verið að fjallkonan sé uppfærð nútímakona og vinni reglulega í banka í 101 eða á töff hárgreiðslustofu. Þá er fjallkonan í nýmóðinsfötum á daginn með sokkana girta utan yfir, sem reyndar hefur tíðkast í gegnum aldirnar. Hún laumast þá til þess að sofa í þjóðbúningnum sínum þegar fáir sjá til.

Milli þess sem hún les þjóðfræði og Íslendingasögurnar situr hún við vefstólinn sinn eða prjónar lopapeysu. Í góðra vina hópi slær hún sér á lær og segir margt skrýtið í kýrhausnum og stundum vitnar hún í ljóð til þess að fá dýpt í frásögn sína. Hver veit.

Tvennt skilur Ynjan ekki;
af hverju það er ekki fyrir löngu búið að kynna þær
og af hverju er fjallkonan ekki fyrir löngu gengin út?