þriðjudagur, nóvember 30, 2004

Hér rétt áðan skrifaði ynjan lífsins fyndnasta pistil.

Þá hvarf hann.

Ynjan er sauður en ekki jólasveinn
Hér rétt áðan skrifaði ynjan lífsins fyndnasta pistil.

Þá hvarf hann.

Ynjan er sauður en ekki jólasveinn

fimmtudagur, nóvember 25, 2004

,,Faðir minn er dauður"

Þetta þykir víst með öllu óviðeigandi setning. Orðið dauður er ljótt. Það verður að játast að þessi setning er kjánaleg. Líklega væri skárra að heyra ,,pabbi minn er dauður" eða ,,faðir minn er látinn" en annars eru báðar hálfkjánalegar. Þessar setningar hjóma frekar eins og tilkynningar heldur en orð notuð í almennu spjalli. Niðurstaðan er eitthvað á þá leið að dauður eigi ekki að nota nema um dýr, illmenni (hitler er dauður eða flokkast hitler ekki sem illmenni?) eða einhvern sem er löngu löngu dáinn jafnvel þá er það ekki í lagi að segja viðkomandi dauðann. Aristóteles er dauður, líka dáinn, fallinn frá og svo framvegis. ,,Barbie er dauð" er setning sem slær í gegn í huga mínum þó kjörþyngdar bjútibollur séu ekki sammála. Orð eru alltaf neikvæð meðan neikvæð merking er lögð í þau og að sama skapi eru orð alltaf jákvæð meðan jákvæð merking er lögð í þau. Greni er fínt orð og flestum alveg sama um það, snúi maður stöfunum aðeins er komið orðið negri og það er afskaplega ljótt.

Dauðinn eða andlátin svona til að huga að tilfinningunum sem fylgja orðum er helst ekki til í samfélaginu núna. Samt vita allir að þeir deyja einhvern daginn en enginn má vita af því, hugsa til þess eða ræða það. Sjálf stend ég mig að því að vilja lítið kannast við dauðann. Fólk deyr þegar er gamalt deyr það en það er ekki dáið þannig. Skrapp í ferðalag. Í jarðaförum er fólk það vel farðað að maður heldur það á leiðinni á ball. En maður sér ekki dáið fólk og enginn gerir ráð fyrir dauðanum. Því kemur hann manni alltaf á óvart.

Þessi pæling er kannski stytt en t.d. þegar gamalt fólk ,,komið á aldur" deyr er maður samt hissa í öllum þeim skilningi en er maður hissa eða ekki bara tilbúinn fyrir þá að hafa ekki einhvern í lífi sínu?
Kemur þetta kannski niður á eigingirnina og ónægjusemina sem virðist stundum heltaka mig og eflaust fleiri. En hvenær er maður eigingjarn og hvenær ekki? Er dauðinn einhverntímann timabær? Varla.
Þrátt fyrir allar hugsanir um dauðann sem hugtak og orð og það að ég vilji að dauðinn sé hluti af lífinu á maður alltaf svolítið erfitt með að skilja af hverju lítil börn deyja. Alla vega á ég ekki gott með að skilja það og það bara passar ekki inn í hugmyndafræði mína að börn deyji. Einar Már skrifaði einhvern tíma svo snyrtilega ,,...og ég sem hélt að litlir strákar gætu ekki dáið". Það er bara alveg satt. Það bara passar ekki. Líkast til er það vegna þess að þegar barn deyr þá er lífið varla byrjað og lífið á að hafa varað ákveðið lengi til þess að dauðinn komist að. Eða hvað?
Svo er einhvern veginn stór munur á því að þekkja einhvern sem hefur misst barnið sitt og manni er ekki ætlað að skilja það og svo að fá fréttir t.d. um barnadauða í Afríku eða Indlandi. Miðað við einhverja tölfræði er barnadauði lítill hér á landi en hár í Afríku. Er samt ekki sama sorgin og sami missirinn sama frá hvaða landi þú ert? Samt hugsar maður meira um einstök tilvik heldur en tölfræði heillar þjóðar. Gera vestrænar þjóðir meiri kröfur og upplifa þar af leiðandi meiri sorg ef barn deyr? Getur einhver sem missir barn sitt hugsað með sér, einn af tölfræðinni hin fjögur lifðu? Á bak við tölfræðina er nefnilega fólk af holdi og blóði sem finnur til og elskar.
Vá ég er komin út í einhverja vitleysu hér út frá orðinu dauður og tilfinningalegu gildi þess og ætti kannski að stroka þessa hugleiðingu mína út og vera ekki að birta hana á prenti. Af hverju má maður ekki birta þessa illa hugsuðu pælingu? ´Þá vaknar óttinn við að særa einhvern eða reyta til reiði eða snerta viðkvæma strengi. Ynjan er farin að snökta t.d. núna við tilhugsunina um alla þá sem hafa misst einhvern sér nákominn.
Er ekki rétt að kveikja á kertum til minningar um alla þá sem fallið hafa frá, þá sem okkur þykir vænt um og öll börnin sem veltast um í skýjunum.
Þá má ekki gleyma því að þegar maður minnist hins látna er ekki úr vegi að hugsa til þess sem lifir. Því oft er það nú þannig að það er ekki sá sem deyr heldur sá sem eftir lifir.

Kveikjum á kertum leyfum þeim að lifa.

Lynjan

mánudagur, nóvember 22, 2004

,,hafðu engar áhyggjur af okkur" sögðu kettirnir letilega þegar ynjan kvaddi í morgunsárið. Þeir lögðust aftur í sófann og pírðu aftur augun. Heimski klappari.

Þegar klapparinn kom heim nokkrum klukkustundum seinna, með bros á vör komu þeir hlaupandi á móti honum. Sleiktu út um og sögðust ekkert hafa gert af sér. Blikkuðu augunum ótt og títt og flæktust fyrir fótum klapparans.

,,Afhverju er fiður út um allt?" Ætli það hafi ekki fokið úr einum koddanum, hóstaði annar upp úr sér og ein fjöður kom upp úr maganum á honum

,,afhverju er svona undarleg lykt hérna?" Ætli það sé ekki bara í nösunum á þér sagði hinn og reyndi að loka baðherbergishurðinni.

,,Afhverju liggur beinahrúga á gólfinu skuggalega lík byggingu smáfyglis?" Ekki hugmynd, er maðurinn þinn nokkuð vannærður? Við þurfum að skreppa, ekki gera ráð fyrir okkur í mat, við erum búnir að borð..*hóst* okkur er boðið í mat hjá læðunni í næsta húsi.

Þeir fá á sig kúabjöllu til að koma í veg fyrir endurtekninguna. En að skilja ekki eftir smá bita handa manni. Fordekruðu kattaróbermi.

sunnudagur, nóvember 21, 2004

Lífið er svo ljúft að maður getur varla bloggað. Jólin eru alveg að koma segja auglýsingarnar manni sem er frábært því þegar jólin eru búin fer alveg að koma vor og þá er bjart og þá getur heilbrigt fólk eins og ynjan glaðst yfir því að það sé ekki alltaf nótt.

Snjórinn er fínn, fyrsta sinn í sögu ynjunnar þar sem snjór er í borg óttans en ekki fluff og slabb.

;)

fimmtudagur, nóvember 18, 2004

Mér finnst Marta best í heimi!

miðvikudagur, nóvember 17, 2004

Stundum er maður hreinlega svo hissa að maður á bara ekki orð!

En þó maður sé latur er gott að vera til og þegar mikið er að gera er best að skríða undir sæng og láta eins og maður hafi hreinlega ekkert að gera. Nú þegar maður á fallegar náttbuxur og góðan bol við sest maður upp í rúm, með dempuð ljós, þykka bók og kakó með rjóma. mmmmm

...ég nenni ekki drama ég er dama ! *fliss*sunnudagur, nóvember 14, 2004

jasveisvei

Það kom að því að pönkarinn í mér reis upp á afturfæturnar og sagði stopp við olíufélögin. Því brunaði ég á næstu bensínstöð fyllti tankinn og keyrði hratt í burtu. Pönkarinn í mér er ekki athugull og því var hringt í foreldrahúsin og ég skömmuð. Því neyddist ég til að keyra aftur (gerði það þó löturhægt) á bensínstöðina og borga fyrir mig. Háöldruð móðir mín var meðsek í þessu athæfi. Ekki þótti mér það verra hún hefur eflaust lent verr í samráðinu en ég.

Ég hef líka verið þátttakandi í verkfalli voru og morgundagurinn er fyrsti opinberi dagurinn minn í borgaralegri óhlýðni. Ég vissi að við Gandhi myndum finna tóninn saman þó seint sé.

Svona ef vantar þá er ég alveg til í að taka þátt í frekari aðgerðum fyrir aðra ef allt stefnir í lélega mætingu. Allt fyrir stemmninguna. Eitthvað verður maður að geta sagt annarra manna barnabörnum.

jatja sveisvei
Olíuynjan mikla frá Kasmír

miðvikudagur, nóvember 10, 2004

Ring ring
- ,,Halló"
- Hæ er Dabbi heima?"
- Ert þetta þú Dóri minn?"
- ,,já er hann heima?"
- ,,Augnablik"
- ,,Halldór hvað nú?"
- ,,Það hlustar enginn á mig!"
- ,,Hvað áttu við?"
- ,,Æ þarna í kennaradeilunni. Ég gerði alveg eins og þú sagðir, ég sagði við alla fréttamenn að deiluaðilar yrðu að leysa málið sjálfir. Lagasetning og fjárframlög kæmu ekki til greina. En það hlustar enginn."
- ,, Því segiru það?"
- ,,Sko, þeir ætluðu ekki að funda lengi svo ég kallaði þá á teppið og skipaði þeim að leggja fram tillögu ha og gera svona atkvæði ha sem þeir gerðu en svo lásu kennararnir tillöguna og felldu hana og ég hélt áfram að segja það sem þú sagðir mér að segja, engin afskipti en svo vilja þeir ekki gera eins og ég segi."
- ,,Halldór þetta er alvarlegt mál. Kallaðu saman fund og skammaðu þá settu lög eða eitthvað."
- ,,En..."
- ,,Ekkert enn gerðu þetta bara"
- ,,Já Davíð þú veist alltaf hvað á að gera. Á ég ekki að fá menntamálaráðherra með á fundinn. Hún á nú að vera yfir þessu?"
-,, Nei það er ekki hægt að kalla inn puntdúkkur þegar sannreynt er að enginn hlýðir. Ég utanríkisráðherra mæti."
-,, Þú? Það er náttúrulega fínt, það hlusta allir á þig."
- ,, Það sér það hver maður að utanríkismál og kjarasamningar kennara eru undir sama embætti."
- ,, Takk Dabbi minn, við reddum þessu"
- ,,Ekkert bull- ég kippi þessu í liðinn."
- ,,Einmitt takk, sjáumst á fundinum á morgun."
- ,,Hresstu þig nú við Dóri minn, ég fæ þá til að hlýða, lagasetning! ég hef gert það áður."
- ,,Takk Dabbi bless."

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Einu sinni voru stelpa og strákur sem hittust af og til. Þau voru vinir. Stelpan hringdi stundum í strákinn og strákurinn í stelpuna. Þau svöruðu alltaf hvort öðru. Þau hringdu ekki oft. Einu sinni hringdi stelpan í strákinn. Strákurinn svaraði ekki. Tveim dögum seinna fékk strákurinn gubbupest og dó. Hann svaraði aldrei aftur í símann. Stelpan er löngu hætt að reyna að hringja.