miðvikudagur, nóvember 28, 2007

Nafnaveislan fór vel fram, daman kát og virtist ánægð með nafnið sitt - og gestina.
Það er erfitt að velja nafn á barn, ákvörðun sem fylgir annarri manneskju líklega lífið út. Vel þarf að vanda til verka. Því fylltist maður valkvíða stuttu áður en endanleg ákvörðun var tekin, maður vill vel hvort sem það er í nafnavali eða öðrum þáttum sem tengjast umönnun barns.

Vont að skýra nafnið fyrir vinum í út-löndum. Fire Island Minky whale eða Fire Island Female Raven hljómar ekki eins vel upp á ensku og það gerir á íslensku. Við gleymdum alveg hvað við erum ,,international" og áhugavert fólk þegar barnið var nefnt. Munum það betur næst.

Nýjasta uppgvötunin á heimilinu er hnúinn, hún veit að það er hægt að troða honum upp í sig og snúa á alla kanta. Hún er líka að fatta að eyrun á henni eru föst - hún tosar í þau af mikilli áfergju. Í fyrstu hélt maður að hún væri að fá eyrnabólgu, ég minnist þess ekki að hafa tosað í eyrun á mér því ég vil vissa mig um að þau séu þar enn.

Auðvitað brosir hún og hlær til okkar, fallegasta brosið sem við höfum séð. Hún brosir oft eitthvað út í loftið - brosir til ljóssins, sjónvarpsins eða jafnvel sófans. Hún þarf ekki nokkra ástæðu til þess að brosa... það eru mörg ár síðan ég brosti að óþörfu.

Við erum saman að læra stöllurnar, hún að uppgvöta hlutina í fyrsta sinn - ég að endurupplifa þá.

fimmtudagur, nóvember 15, 2007

Hún sefur vært í ógnarstóru rúminu og ég má halda aftur af mér að vera ekki í sífellu að laga sængina hennar eða koma henni betur fyrir. Mér þykir hálfóþægilegt að vita af henni einni og yfirgefinni, sofandi í svo stóru rúmi en hugga mig við að hún sefur í mömmu- og pabbarúmi. Þar hlýtur að vera öryggi, kunnugleg lykt og áferð.

Rúmið er orðið annað og stærra og svefnherbergið ekki lengur mitt. Eftir nokkur ár verður það herbergi mömmu og pabba. All sérstök tilfinning að vera komin í ábyrgðarhlutverk og fast hlutverk. Hef heyrt að mömmuhlutverkinu sé ekki sagt upp svo auðveldlega. Ekki það að ég hafi áhuga, ég er alveg sokkin í pakkann.

Mér finnst ég verða að passa hana svo vel og gæta að velferð hennar. Ég hugsa reglulega um hvernig ég geti veitt henni það sem þarf til að lifa í þessu samfélagi. Stundum nötra hnéskeljarnar af ótta um að mistakast. Mömmumistökin eru nú þegar orðin allmörg.

Ég get og er tilbúin til að veita henni athygli og tíma, held hana ekki skorta meira. Hún er fædd inn í heim forréttinda og bara við það að hafa fæðst á þessari eyju er hún nú þegar ríkari en 85% íbúa heims.

Stundum þegar ég er orðin þreytt í handleggjunum af því að halda á henni en vil ekki leggja hana frá mér því það er svo gott að knúsa hana hugsa ég til tímanna á barnaheimilinu í Taívan.
Umhyggjan til þeirra kom frá fólki sem fékk borgað fyrir að hugsa um þau og vaktaskipti voru á átta tíma fresti. Aldrei áður hafði barn ríghaldið í mig og grátið þegar ég fór eftir fyrstu kynni.

Verandi með barn í fanginu er erfitt að gera sér í hugarlund af hverju kornabarn er skilið eftir, til að búa á munaðarleysingjahæli. Þessi reynsla sem ég bý að minnir mig á forréttindi mín og ég er þakklát.

Veit fátt um hvernig framhaldið verður en ég hlakka til að hún vakni svo ég geti knúsað hana og séð fallega brosið hennar. Þarf ekki meiri vitneskju.