mánudagur, október 29, 2007Það snjóaði ósköpin öll á vagninn, ég var pínulítið stressuð um að daman væri ekki nógu vel klædd og uppskar háðsglott frá manninum í staðinn.


Líkast til lenda öll ,,fyrstubörn" í því að vera hálfdrepin úr hita í vagnferðum sínum.
Þetta var í annað sinn sem við fórum út öll þrjú saman í göngutúr. Gönguferðirnar taka lífið úr samhengi, mér finnst undarlegt að ganga úti með vagn og í honum er dóttir mín.
Mun raunverulegra að vera heima að knúsast, þá kemur þetta allt heim og saman. Við erum nefnilega búin að vera þrjú þar í rúmar tvær vikur og það er langur og góður tími - stuttur í sögulegu samhengi- en heillangur og yndislegur fyrir okkur.
Hægt er að eyða heillöngum tíma í að skoða hverja einustu línu á líkama hennar og alltaf sést nýr svipur í andlitinu. Leiðist ekki að dást að gripnum. Matartíminn hefur breyst heilmikið og það er ævintýri að fara í sturtu. Stundum gerist ég svo villt að ég loka hurðinni á eftir mér. Háskalíf. Háskalíf.
Svo er fólk svo huggulegt að kíkja við og dást að henni með okkur - það fer ekkert illa með egóið að láta aðra dást að nýja gripnum.


Við unum okkur vel í MT52, sæl með nýjan fjölskyldumeðlim og sátt með lífið í dag.

miðvikudagur, október 17, 2007

Veðurdísin mætti 13.10.07 eins og drottningin sem hún er.

Best í heimi að vera fimm í heimili,

ekki viss um að vanræktir kéttirnir taki undir með mér svona strax en bráðum.

Og svona fínn fimmti aðili.
Hér er sýnishorn

fimmtudagur, október 11, 2007

Skilst að það spái Stormi um suður- og vesturland.

Það hefur ekkert verið að marka spána undanfarnar tvær vikur,
sé ekki að það komi til með að breytast eitthvað héðan af.

Fjöldamótmæli við Veðurstofuna? með viðkomu fyrir utan sónardeild Landspítalans?

Einhver?

,,Að eilífu" hefur öðlast nýja merkingu.

Bitra konan frá Balí

þriðjudagur, október 09, 2007

- Þú verður bara að fara í göngutúr
- Sterkt kaffi er lausnin
- Sterkur matur
- Rúnta um holótta vegi kemur öllu í gang
- kynlíf
- Koníak
- Hugleiðsla
- Rektu það út
- Nudd og nálastungur
- Stattu á haus, settu gulan klút upp í þig og drekktu mysu

Hef beðið af mér alla spádóma, fullt tungl og háflóð, nokkrar lægðir og storm. Ég hef kynnt mér og reynt öll brögðin í bókinni til þess að lokka barnið í heiminn og játa að ég rak barnið út fyrir nokkru og vitnaði í leigusamninginn. Ég hef reynt að eta þessar bækur og skrifa nýjar með tilliti til þess að Stormurinn komi í heiminn en ekkert gerist.
Ekkert, nema þolinmæðin þver, geðheilsan versnar og biðin lengist.

Auðvitað á maður að njóta þess að vera einn þessa örfáu daga sem eftir eru, málið er bara að ég hef haft það fullgott undanfarin 28 ár, hef undan engu að kvarta. Núna er ég til í að hætta að hafa það gott og fá barn í heiminn.
Svo æðruleysi verður ekki sett á ,,góðráðlistann".

Auðvitað er þetta lúxusvandamál sem ég glími við hérna. Ég er heima að bíða eftir barni. Í litla örugga landinu mínu, í risastóru íbúðinni með köttunum og barnadótinu.
Geri mér fulla grein fyrir því að óléttar konur í Darfúr eru líkast til ekkert að bíða eftir barni á þriðju viku, drekkandi kaffi um allan bæ. Held að spennustigið hjá óléttum konum í Írak komi heldur hvergi nærri afslöppunarblóðþrýstingnum mínum. Dreg í efa að óléttar konur í afskekktum héruðum Tíbets fái full laun fyrir að vera heima og bíða eftir barni og í nokkra mánuði á eftir.

Lúxusvandamálið er algert, átta mig á því. En eins og snillingurinn benti á hér um árið þá eru börnin í Afríku ekkert saddari hvort sem ég klára fiskinn eða ekki.

mánudagur, október 08, 2007

Ég keypti lifur í fyrsta sinn á ferli mínum sem húsmóðir, sauð aðeins af henni og steikti lítinn bita og henti svo restinni.

Þá keypti ég hjörtu - líka í fyrsta sinn og sauð smá og steikti minna og henti afgangnum.

Kettirnir geta haldið áfram að eta þurrmat og sykraðan dósamat, ég ætla ekki að splæsa í nýru til að prufa.

Kemur ekki til greina.

Kemst samt ekki hjá því að velt því fyrir mér hvort þeim finnist nýrun betri....

föstudagur, október 05, 2007

Á náttborðinu mínu eru nokkuð margar bækur um allt sem lítur að meðgöngu, fæðingu og ungbarni. Huggulegar bækur sem ég hef sankað að mér undanfarna mánuði og lagt mig fram um að lesa.
Flestar áhugaverðar og góðar, uppfullar af skemmtilegum upplýsingum og fróðlegum, sem og gagnlegum ábendingum.

Í öllum þessum bókum er talað um að meðganga sé almennt 38-42 vikur og að langflest börn fæðist um 40 vikurnar. Hver einasta bók hamrar á því að börnin komi þegar þau komi, lítið þýði að ýta á eftir þeim og að þau verði að vera tilbúin. Huggulegar setningar í bókum sem oft eru endurteknar af fólki með reynslu. Hve oft ég hef séð skrifað og heyrt að börn komi oft ekki fyrr en á 42 viku hef ég ekki tölu á.

Mér hefur alltaf fundist þetta skemmtilegasta pælingin á meðgöngunni, að barnið ófædda stjórni fæðingu sinni og velji sinn fæðingardag. Sú staðreynd minnir mann á að manneskja ólík öllum öðrum er á leiðinni í heiminn, manneskja sem er líkust sjálfri sér, hefur aldrei verið til áður og veit hvernig á að gera hlutina, tekur ákvörðun fyrir sig.
Minnir mann á að svo margt í lífinu er ekki fyrirséð og oft engu hægt að stjórna.
Eitthvað svo friðsælt og fallegt að ófætt barn velji sinn tíma þegar það er tilbúið til að koma í heiminn.

Eins yndislega og það hljómar að ófætt barn starti sinni fæðingu og komi þegar því hentar, má öllu ofgera. Það er ekki ætlast til þess að þau kúri endalaust og geti ómögulega fundið réttu stundina til að koma í heiminn.

Þegar leigusamningurinn er útrunninn er ætlast til þess að fólk finni sér annað húsnæði.

Mér verður ekki mikið lengur skemmt yfir sjálfstæðum ákvörðunum.

miðvikudagur, október 03, 2007

Líður pínulítið eins og ég hafi verið svikin á stefnumóti. Sitji á veitingahúsi í sparifötunum, með tómt glas fyrir framan mig og líti í sífellu á klukkuna. Velti því fyrir mér hvort ég hafi misskilið eitthvað eða hann.

Að einu undanskildu, stefnumótasvik geta leitt af sér eitthvað hressandi, gaurinn ekki kominn eftir hálftíma og þá má bjalla í vinkonurnar og hanga á bar, það er hægt að hefna sín eða finna annað deit í snatri og síðast en ekki síst þegar manni leiðist biðin er alltaf hægt að standa upp og fara. Varaliturinn er farinn að dofna.

Ég er sem sagt á fjórða degi stefnumóts og ekki í boðinu að beila.