þriðjudagur, júní 19, 2007

Akkúrat ekkert betra í heiminum en að vera í MT52

laugardagur, júní 16, 2007

Bráðum verð ég komin á mölina, maginn er í hnút af spenningi. Fílingurinn eilítið eins og á sjónum hér í denn, nema þá gat ég ekki sofið á landstíminu. Hef ekki orðið svefnvana hér enda hver getur ekki sofið við gargið í mávunum.

Dvölin í sveitinni yndisleg og Göngutúrinn sjálfur hættur að vera smeykur við mig.
Hann er ennþá ósáttur við að danshæfileikar hans séu ekki metnir sem skildi. Enda dansar hann alltaf ef hann heyrir lag og dillar sér heyri hann takt.
Stundum sest hann og fær sér kaffi með mér og segir mér frá sínum dögum. Með stolti sér hann um að sendast fyrir elliheimilið og er boðinn og búinn til að vera mér innan handar. Helst er að hann er of duglegur.
Í gamla daga var hann í siglingunum, hefur komið á staði sem mig hefur bara dreymt um, lent í ævintýrum sem ég hef aðeins séð á filmu. Hann kann líka að ýkja og veigrar sér ekkert undan því að stækka og mikla minnigar atburðanna. Sögurnar svo hressilega ótrúverðugar að þær minna mann á Heljarslóðarorustu.
Svo er Göngutúrinn líka uppfinningamaður. Um daginn mætti hann með borð fyrir einfætta menn sem ferðast mikið. Skrifborðið má svo nota fyrir sem skiptiborð í útilegum beri svo undir.

Fannst þetta góð hugmynd, mjög góð hugmynd.
Svo bilaðist ég úr hlátri og réði ekki við eitt né neitt.
Skammaðist mín agalega, næst ætla ég að hlæja með honum.
En bráðum verð ég á mölinni þar sem afgreiðsludömunni er alveg saman hvernig ég hef það og stendur slétt á sama um hvernig ég hafi það.

sunnudagur, júní 10, 2007

Lognið hér úti á landi á að vera einstakt en eftir fjóra daga í sunnanroki og aðra þrjá í rigningu er ég ekki sannfærð um að lognið sé nokkurn tíma í þessu bæjarfélagi. Hef þó heyrt af því sögur og tel mig hafa óljósa minningu um sumarblíðu.

Það er svo langt síðan ég var í smáu bæjarfélagi að ég gekk um lotin og roðnaði öll þegar ég var nefnd með nafni og spurð frétta.
,,Hvað hefur þú verið að gera síðastliðin 15 ár eða svo?"
Langar alltaf að byrja að telja upp öll húsin, vinnuna, löndin og segja í smáatriðum hvað ég er búin að gera, en ég er ekki viss um að fólk hafi húmor fyrir því.

Smá saman hef ég rétt úr kútnum og svarað fólki. Hitt sem er verra er að ég spyr til baka.

Umhyggja og hnýsni er kannski eitt og sama hugtakið?

Sorglegast er að þekkja börnin á því hverjir foreldrar þeirra eru og muna eftir eldra fólkinu á því hver börnin þeirra eru. Þurfti að horfa vel og lengi á gamla skólastjórann áður en hann þekkti mig og eins fór fyrir honum.

Undarlegt að vera í bæjarfélagi sem minnist stóra bróður, í samúð eða sögum. Tvisvar staðið klökk og óskað þess að ég væri Dórótea í töfraskónum.
Fólkið í bænum minnist líka á hina og vita jafnvel hvað hefur á daga okkar drifið undanfarin 15 ár.
,,Ég fæ alltaf fréttir frá þeim gamla" heyrist stundum og einlægt brosið fylgir.
Í borginni er maður fjölskyldulaus og í útlöndum nafnlaus. Í sveitinni ertu nafn og fjölskylda.

Best í heimi er að ganga heim á kvöldin, horfa á sólina setjast hjá rússrauðum skýjum og geta lagst niður í brekkuna á leiðinni heim og horfa á kríuna. Bíða svo eftir þögninni í bæjarfélaginu og hlusta á fossana niða. Það er enn best í heimi

sunnudagur, júní 03, 2007

Hátíð hafsins

Tréið fyrir utan svefnherbergisgluggann er iðagrænt og þrátt fyrir yndisgóða kaffilykt hvarflaði að mér að liggja í rúminu heila daginn og horfa á þetta fallega tré blakta í rokinu.

Áður en ég vissi af stóð ég niðri á höfn innan um leiktæki, sýningabása, sjávardýr og yndisfallega bátana. Í tilefni helgarinnar eða öllu heldur dagsins í dag flögguðu bátarnir. Er ekki frá því að mér hafi vökknað um augun þegar Akraborgin í dulargervi Sæborgarinnar sigldi frá landi.

Veðrið var íslenskt og því telst það gott. Var betra en útlit var fyrir um morguninn. Stóð yfir grillinu og smellti kryddlegi yfir nýtýnda öðuna, þegar flamúleraði upp úr hellti ég rjóma yfir og afhenti fólki sem flest brosti út að eyrum og dásamaði sjávarmetið. Hinir kunna ekki gott að meta. Úrvalsfólk á staðnum til þess að allt gengi upp.

Vissi að mikið var af fólki, sá fáa en því fleiri skeljar. Sá að Magni var uppi í slipp - man ekki hvernær hann var þar síðast. Flest svona eins og það var síðast þegar ég stóð á bryggjunni sjómönnum til heiðurs. Þó vantaði einn heiðurssjómann - ég vissi að hann kæmi ekki og saknaði hans samt. Harmonikkutónlistin ómaði innan úr tjaldinu og gömlu sjómannalögin spiluð - þegar mikið lá við hnippti Ljónið í mig til að minna á að söngur minn væri heldur hraustlegur. Reglulega dáðumst við af spilafimi þeirra. Maðurinn á bassanum vakti meiri athygli fyrir leikni sína- að öðrum ólöstuðum.

Eldri maður tróð nefinu á sér ofan í grillið hjá okkur og fussaði þegar hann sá góðgætið. Á þeim tíma sem hann var til sjós var aðan notuð í beitu. Hann kannaðist við handbrögðin -opna skelina og hreinsa skeggið en hann hafði aldrei lagt sér beitu til munns. Fyrr en þarna - með okkur. Hann tróð agninu í andlitið á sér og úr andlitinu skein að það er erfitt að breyta beitu í mat. Hann brosti þó út að eyrum, hvort það var bragðið eða áhugi stelpunnar á sjótíð hans, skal ósagt látið.
Bróðir hans fórst í Berufirðinum 1925 ásamt fimm öðrum. Þeir voru á opinni trillu og ólag gerði í sjóinn og enginn skilaði sér heill í land. Áttatíu og tveimur árum seinna er slysið enn ofarlega í huga hans. Velti því fyrir mér hvort þetta væri kannski eini dagurinn sem hann minntist bróður síns.

Skakklappaðist inn á veitingastað með Ljóninu eftir gott dagsverk og lét öðrum um að ákveða hvað við fengjum að láta ofan í okkur.
Stemningin var lævi blönduð og það var erfitt að horfa á karlmennina á veitingastaðnum - án þess að velta því fyrir sér hvort þeir færu að fagna deginum sínum.
Maturinn stóð vel undir væntingum og hver töfrarétturinn kom á eftir öðrum.
Æsingurinn í að hitta á Óla lokbrá var slíkur að við máttum varla vera að því að klára kaffið okkar.
Örþreytt lagði ég höfuðið á koddann og dáðist enn á ný af grænu útsýninu. Þakklát fyrir að vera lögst til hvílu - þakklát fyrir að búa ekki á Akureyri.

Til hamingju með daginn sjómenn