sunnudagur, febrúar 25, 2007

Það voru bara karlmenn sem þjónuðu um borð hjá BA á milli Íslands og Englands. Hressandi tilbreyting. Flugfreyarnir voru huggulegir og þjónustulundaðir annað en íslensku trunturnar sem ég hef verið samferða til Heatrow. Ég hef oft fengið móral yfir því að hafa ákveðið að eyða peningunum mínum í flug með þeim svona rétt til að angra þær.
Þjónustan hjá BA hefur skv. minni reynslu ekki enn klikkað.

Nýja flugfélagið var fínt, Oasis Hong Kong. Flugfreyjurnar og Flugfreyrinn voru í appelsínugulum búningum. Fyrstu freyjur í rauðum. Að sama skapi yndælt að fara með þeim.
Reyndar ekki mjög þægilegt að vera með hnéin í sæti hjá manneskjunni fyrir framan en það vandist, þetta voru ekki nema 14 klukkutímar. Líkast til gera þeir ekki ráð fyrir kúnnum yfir 1.65 eða bara búklöngu fólki.

EVAAIR stóð fyrir sínu sem og fyrr. Sama yndislega þjónustan og fín sæti, ég er einlægur aðdáandi þessa flugfélags.
Var næstum búin að missa af fluginu og hljóp með brækurnar á hælunum eins og fætur toguðu til að ná um borð fyrir flugtak. Það gekk. Fyrir tossaskapinn var ég sett á fyrsta farrými.

Yndislegt að vera á fyrsta farrými í stysta fluginu rétt tæpa tvö tíma. Nægt pláss fyrir fætur, yndislegur matur og næstum því þjónn á mann.

Ekki hughreystandi að hugsa til þess að lendi maður í slysi eru minnstar líkur á að maður lifi af ef maður er fremst í vélinni. Kaldhæðni að láta fólk borga meira fyrir að sitja framarlega í vélinni.

Betri þjónusta minni líkur á að lifa af!

Með hverju árinu verður ynjan flughræddari og hvert flug þarf meiri og meiri undirbúning. Bjánalegar athafnir fyrir og eftir flug. Í seinni tíð verður ynjan að taka með sér bók að lesa, stytta sér stundir.

Vond hugmynd að taka ÚTKALL - Leifur Eiríksson brotlendir í tuttugu tíma flug.

fimmtudagur, febrúar 22, 2007

Hann stoppaði hjá mér í nótt og sagði mér undarlega hluti.
Ég vaknaði með tárin í augunum og vellíðan í hjartanu.
Að hafa misst er að hafa elskað.
Ég vissi áður að hann yrði hjá mér en ég vissi ekki að ég myndi muna upp á hár hvernig návist hans var.

Á kannski að vitna í pólitíkina og segjast ekki hafa yfirgefið neinn, heldur hafi það verið öfugt?

Fötin komin ofan í tösku og ég er margbúin að athuga hvort vegabréfið sé á sínum stað. Allir miðar útprentaðir. Ljónin þrjú hafa ekki tekið töskurnar sínar fram svo líklega hef ég ekkert erindi í pólitík.

Einn af fjölmörgum kostum þess að þvælast til útlanda er að ég fæ frest á auðkennislykilinn.
Bankastarfsmaðurinn sagði hann fyrir okkar öryggi. Svona væri það best.
Hann átti engin svör til við því hvað gera ætti við okkur hin, sem eigum ekki neitt og höfum engu að tapa.

Vera með lykilinn samt. Kannski líður þá öllum hinum betur?

Sjáumst í sumar, kannski þar sem fjöllin sökkva enn.

mánudagur, febrúar 19, 2007

Kötturinn kunni mér litlar þakkir fyrir ferðina til dýralæknisins. Honum var og er nokk sama um himinháan reikninginn sem fylgdi ferðinni vanþakklátu.

Svo var ég beðin að auglýsa þetta. Vinsamlegast athugið að Taívan er rangt stafsett hjá menntamálaráðuneytinu. Og jú það er hljóðmunur á Taí og Tæ... flettið þessu upp fyrir frekari uppljómun.

Styrkir til háskólanáms
Styrkir til háskólanáms á Tævan. Ráðuneyti menntamála á Tævan hefur tilkynnt að það bjóði fram styrk handa Íslendingi til BA-, MA- eða doktorsnáms á Tævan. Styrkurinn er til allt að 5 ára, þar af 1 ár til náms í kínversku. Styrktímabilið er frá 1. september 2007. Einnig eru boðnir fram 2 styrkir til náms í kínversku við háskóla á Tævan námsárið 2007-2008, þ.e. frá 1. september 2007 til 31. ágúst 2008. Styrkirnir nema 25.000 NT á mánuði (jafnvirði um 50.000 ísl. kr.).
Umsóknum skal skila til menntamálaráðuneytis á sérstökum umsóknareyðublöðum, ásamt tilskildum fylgigögnum, fyrir 13. mars 2007.
Nánari upplýsingar og umsóknareyðublöð eru fáanleg í menntamálaráðuneytinu.


Áhugasamir geta svo haft samband við mig hafi þeir áhuga á frekari upplýsingum um land og þjóð.

miðvikudagur, febrúar 14, 2007

Sá nú eða sú sem fann upp púslið er snillingur

þriðjudagur, febrúar 13, 2007

Það er notalegt að vakna og hlusta á vini manns skrafa í eldhúsinu.
Ákvað að liggja aðeins lengur og njóta þess að eiga vini.

Drattaðist svo fram og drakk nokkra lítra af kaffi og lenti í því að tapa í spilum.
Ég bar ekki nokkra ábyrgð á því að hafa ekki unnið.

Rétt rúm vika í brottför. Einhverra hluta vegna er maður alltaf að telja, upp eða niður og stundum að telja út.

Fótakuldi hrjáir mig, hann má laga með því að fara í þykkari sokka. Þá þarf ég að standa upp.

Hraðinn í nútímasamfélaginu ÚFF... maður á að sækja sokka eins og ekkert sé!

föstudagur, febrúar 09, 2007

Vanhugsaðar pælingar í pirringi

Þegar laun kennara, þroskaþjálfa og leikskólakennara eru borin saman kemur í ljós að kennarar eru með lægstu launin.
Það segir í rauninni bara að þroskaþjálfar og leikskólakennarar eru betri í því að semja um launin sín og því verður að hrósa.

Launabarátta kennara virðist endalaus og aðgerðir reglulega í gangi.
Með líka svona góðum árangri.

Nú á að endurskoða laun kennara, viðræður bakvið tjöldin hafa ekki borið árangur.
Svona ein með sjálfri mér, minnug umræðum og vangaveltum í síðustu kjaradeilu árið 2005, hélt ég að nú yrði breytt um áherslur í baráttunni. Litið á hvað hafi ekki gengið upp og hvað hafi gengið upp. Snúa vörn í sókn og skora svona til tilbreytingar.

Ég hef sjaldan á ævi minni verið eins glöð og þegar ég fékk inngöngu í KHÍ. Ég hlakkaði mikið til að fara út í skólana og kenna. Gera eitthvað- vera hluti af því að breyta heiminum.
Svo var ég þrjú ár í Kennó og eldhugsunin fór ofan í tösku hægt og sígandi. Eftir viku í verkfalli var ég komin með nóg. Þegar verkfalli lauk ákvað ég að finna mér eitthvað annað að gera.

Allir hafa skoðun á starfi kennara- óháð því hve mikið þeir vita um kennara og kennslu. Margir telja sig vita að kennarar vinni ekki handtak nema milli 8-14 og séu alltaf í frímínútum.
Ömurlegasti brandari í heimi: þrjár ástæður til að vera kennari, sumarfrí, jólafrí, páskafrí.
Kæri sig einhver um að vita hið rétta getur sá hinn sami kynnt sér allt um starfið og komist að því að kennarar vinna fullan vinnudag og rúmlega það.

Umræðan í verkfallinu var nokkuð um að kennarar mættu bara ekki gera foreldrum þetta að fara í verkfall. Ég veit ekki til þess að nokkur kennari hafi beðið fólk um að eignast barn svo hann geti fyllt upp í bekkjarkvótann. Umræðan var að kennarar áttu að sjá um börnin- gæsla og umönnun meðan foreldrarnir voru í vinnunni.
Ég trúði því alltaf að kennari ætti að kenna og fræða ekki geyma og ala upp. Ég hafði rangt fyrir mér.

Nánast hver sem vildi tjáði sig í fjölmiðlum um ,,frekju og heimtusemi" kennara og hve há laun þeirra væru og vinnutíminn lítill. Þeir áttu ekki betra skilið!

Að skipa blindum manni að sjá er ekki hægt og það er líka erfitt að pissa upp í vindinn.

Kennarar fóru í það að sýna fólki að víst væru þeir á lélegum launum og víst gerðu þeir fullt og í fjölmiðlum heyrðist að kennurum fyndust þeir vanmetnir. Launaseðlar kennara voru birtir á heilsíðuauglýsingum í blöðum. Allir sem lesa blöðin áttu að rjúka til og segja aumingja þeir- aumingja þeir. Greyin fá engin laun.

Það gerðist ekki og almenningsálit fólks á kennurum virtist minnka með hverri mínútunni og hverri auglýsingunni. Áfram hrópuðu kennarar greyið við

Kosturinn var að kennarar ætluðu ekki aftur inn í skólastofuna, þeir vildu leiðréttingu launa sinna. En fengu á sig lögbann. Stétt sem ætlar að ná fram kröfum sínum í verkfalli nær engu fram ef sett er lögbann á stéttina þegar fólk er komið með nóg. Þegar allir eru komnir með nóg er farið að semja. Bananalýðveldi?

Niðurstaðan af verkfallinu 2005 var að mínu mati hörmuleg. Fyrir alla. Kennarar fóru sneyptir inn aftur með lögbann á sér og ljóta samninga. Ríkisstjórnin stóð ekki við orð sín. Foreldrar voru brjálaðir yfir því að geta hvergi geymt börnin og börnin komu í skólana niðurbrotin eftir allt saman, búið að svipta börn fræðslu og bölva kennurunum.

Hópflótti úr skólunum er alltaf sagt. Einn og einn kennari er farinn. Kannski eru bestu kennararnir ekki í skólunum. Það er enn hægt að manna velflestar kennarastöður með réttindakennurum svo flóttinn er ekkert til að tala um. Innan tóm hótun enn einu sinni?

Því var ég að vona að samningaumræðan yrði önnur núna, haldið utan fjölmiðla og utan umræðu almennings.

Læknar eru með margföld laun kennara og vilja hærri laun. Ég hef ekki séð lækna birta launaseðla sína í blöðunum. Þeir vilja hærri laun því þeir telja sig eiga það skilið. Svo má deila um hvort það sé rétt eða ekki.

Alþingismenn eru líklega með minnstu vinnuskyldu af öllum stéttum. Það tekur því varla að setja saman þing áður en því er slitið. Það er ekki einu sinni mætingaskylda þar! Alþingismenn segja að þeir hafi nóg að gera þó þeir séu ekki á þingi hverja stund. Laun alþingismanna eru margföld á við kennara. Kennarar og alþingismenn fylgdust einu sinni að í launum og vinnuskyldu.

Því fannst mér ömurlegt að lesa um það að Kennarasambandið væri að útbúa bækling sem á að dreifa þar sem vinna kennara er útskýrð. Nú eiga allir bara víst að kynna sér hvað kennarar eru duglegir og þeir eiga að fá hærri laun.
Fái ég bæklinginn í hús fer hann líklega beint í ruslið þannig verður það líkast til á fleiri stöðum.

Þessi taktík hefur ekki virkað áður og ég held hún virki ekki heldur núna. Mér finnst að kennarar eigi að hætta þessu rugli, rífa upp um sig brækurnar og breyta laununum. Það gerist ekki með bæklingi og ekki heldur verkfalli.

Hækki laun kennara ekki þannig að þeir eru sáttir eiga þeir að hætta. Orðalaust og fá sér aðra vinnu, allir sem einn. Hætta að skýla sér á bak við það að launin séu ömurleg en það sé svo gaman að kenna því láti þeir þetta yfir sig ganga. Lampahugsjónin á að vera löngudauð.

Auglýsingar, bæklingar og innantómar hótanir gera ekki neitt.

fimmtudagur, febrúar 08, 2007

Ynjan fer til útlanda 23 febrúar.
Ynjan er alltaf að fara á sama staðinn, engar heimsreisur.

Fattaði allt í einu að það væri meira kúl ef ég væri ekki alltaf að fara á sama staðinn, svo til alltaf sama flugáætlun.
Nema núna, þá flýg ég í gegnum Gatwick, það er alveg mikið meira spennandi.

Fer alltaf í gegnum sömu togstreituna, hluti af mér vill ekki fara
annar lagði af stað fyrir mánuði síðan og ætlar aldrei að koma aftur heim.

Ég er bara svo rík að ég get alltaf komið aftur heim
eða ennþá

Frasi síðustu mánaða hefur verið að lífið sé ekki í mínum höndum og framhaldið ekki þar heldur.
Valdlaus væbbblast ég um heiminn í umboði annarra afla.

...enginn ræður för....