þriðjudagur, janúar 30, 2007

Í huganum hef ég skrifað þúsund pistla og enn fleiri bréf. Ég reyni að eyða þeim jafnóðum í huga mér því stundum er of sárt að skrásetja hugsanir sínar og muna þær.

Janúar er á enda runninn. Það er gott að telja dagana og minna mig á að tíminn komi til með að plástra sárin. Tíminn gerir ótrúlega hluti, kennir manni að sætta sig betur við hluti, sjá atburði í öðru ljósi og tíminn gerir manni kleift að lifa með hlutunum. Eða svo segja þeir sem til þekkja.

Forsetinn sagði eitt sinn að hann hefði ekki nokkra trú á því að tíminn læknaði öll sár, en tíminn gerði manni fært að lifa með hlutunum. Ég og forsetinn.

Ég veit ekki margt en eitt hef ég fyrir víst

Það er ekki hægt að snúa við tímanum.

Þrátt fyrir þá vitneskju hef ég undanfarnar vikur reynt eftir bestu getu að selja skrattanum sálu mína og hverjum þeim sem hefur áhuga á henni til að geta fiktað í tímanum. Flest er falt hjá mér gegn smá tilfæringum.
Stundum þrái ég að snúa tímanum alveg á hvolf og breyta öllu sem hægt er að breyta, fá guðlegt afl og hafa hlutina eins og ég vil. Stundum er ég auðmjúkari í tímaóskum mínum og vil fá að bakka tvo mánuði aftur í tímann svona rétt til að fá knús eða segja eitthvað sem ég gleymdi að segja eða hlusta betur. Bara aðeins.

Ég eyði mikið af tíma mínum í að óska mér að ég hefði áhrif á tímann. Stundum ranka ég við mér og átta mig á því að tíminn gefur engum grið og bakkar ekki einu sinni sekúndubrot. Kommon ein sekúnda, það er ekki neitt. Þá stund sem ég dett í raunveruleikann gef ég skít í æðruleysisbænina og vil breyta því sem ég get ekki breytt.

Örsjaldan, en stundum, er ég tímanum þakklát. Þá sest ég niður í auðmýkt og þakka fyrir þann tíma sem ég hafði og við áttum saman. Því þrátt fyrir að egóið í mér segi hann hafa verið of stuttan þá var hann heillangur.

Yfir tuttugu ár er langur tími.

Tíminn hefur líka gefið mér kærleikann. Fyrir kærleikann er ég þakklát, því án hans væri ég engu bættari.

þriðjudagur, janúar 23, 2007

Eins

Ég slysaðist til þess að hlusta aðeins á handboltalýsingu á Rás tvö á leiðinni heim ekki fyrir svo löngu.
Íþróttafréttamaðurinn var að lýsa leikmanni úr landsliði Frakka og mismælti sig og bar fram rangt nafn. Hann var með afsökunina á hreinu, tveir menn í liðinu báru svipað nafn og svo segir hann eitthvað á þá leið;

,,ekki bara að þeir beri svipað nafn heldur eru þeir svipaðir útlits, báðir blökkumenn og með skalla"

Hva!

Eitthvað held ég að íþróttafréttaritarinn æsti myndi hafa skoðun á því ef sagt væri að allir fréttamenn væru líkir, enda hvítir með hár!

laugardagur, janúar 20, 2007

Janúar er alveg að verða búinn og ég veit ekki alveg hvað varð um þessa daga sem af eru árinu. Ég veit þó að ég hef eytt óþarfa tíma í að tala við fulltrúa stofnanna og stundum líður mér eins og ég þurfi að tala við stofnunina sjálfa. Ég fæ sjaldan svör og er oftast við það að missa vitið þegar ég loks ákveð að leggja á, hvort heldur erindi mínu er lokið eða ekki.

Biturleiki minn er svo langt genginn að ég verð viðþolslaus að hugsa um ,,þjónustu"-fyrirtæki í almannaþágu. Enga þjónustu eða aðstoð hef ég rekist á og síst í þágu almanna.

Eftir bið í um 10 mínútur gerist eitthvað á þessa leið.
Ýttu á 1 ef þú ert undir fimmtán, í leit aðstoð og hefur unnið fyrir hádegi undanfarna mánuði
Ýttu á 2 ef þú ert yfir fimmtán, hefur unnið eftir hádegi og vilt vita hvaða aðstoð er í boði
Ýttu á 3 ef þú ert fimmtán og veist af þjónustuboða í vandræðum
Ýttu á 4 fyrir leiðbeiningar um hvaða takka þú átt að velja.

4

Þú ert komin í þjónustu og leiðbeiningardeild.
Vinsamlegast
veldu 1 ef þú skildir ekki leiðbeiningarnar hér að ofan og vilt fá þjónustu
veldu 2 ef þú skildir leiðbeiningarnar hér að ofan en vilt ekki fá þjónustu
veldu 3 ef þú skildir ekki leiðbeiningarnar hér að ofan og vilt ekki fá þjónustu
veldu 4 ef þú skildir leiðibeiningarnar hér að ofan of vilt þjónustu
veldu 5 fyrir skiptiborð

5
Því miður eru allir þjónustufulltrúar okkar uppteknir, símtölum verður svarað í réttri röð. Til að flýta fyrir vali
ýttu á 1 fyrir ensku
ýttu á 2 fyrir sænsku
ýttu á 3 fyrir pólsku
ýttu á 4 fyrir íslensku

4
því miður eru allir þjónustufulltrúar okkar uppteknir vinsamlegst hinkrið.

Ýttu á 1 ef þú vilt tala við karlkyns þjónustufulltrúa
ýttu á 2 ef þú vilt tala við kvenkyns þjónustufulltrúa

2
því miður eru allir kvenkyns þjónustufulltrúar okkar uppteknir. Vinsamlegast hafðu samband seinna. Opnunartími er frá 8-12 alla virka daga.

sunnudagur, janúar 14, 2007

Viti einhver af vellaunaðri vinnu fyrir ynjuna er sá hinn sami beðinn um að hafa samband.

Þessi undurgóða vinna verður að vera tímabundin, vel launuð, með stuttan og þægilegan vinnutíma, fela í sér litla ábyrgð og má ekki byggja á afköstum. Kaffipásur verða að vera langar og aðstaða til kaffidrykkju góð. Viðvera lítil og vinnuframlag minna.

Ynjan leggja sig lítið fram en láta af hendi stöku bros, einstaka rassbögu lygasögu liggi mikið við. Ábendingar um hvað megi betur fara í fari annarra verða afhentar frítt.

fimmtudagur, janúar 11, 2007

Kannski gamalt efni
en mér fannst fyndið þegar Sigurður Kári var TEKINN og mjög pínlegt.
Ég hefði aldrei náð að vera jafn þolinmóð og kurteis og Sigurður.

Bráðskemmtilegt verð ég að segja og enn betra að þetta var ekki ég!

miðvikudagur, janúar 10, 2007

Mér finnst eins og ég þurfi að blogga en hef ekkert að segja.
Kannski gefur bloggið manni þá tilfinningu að lífið haldi áfram.
Kannski er það blekking.

Gera má ráð fyrir fleiri þunnum færslum en lesendur ynjunnar eru væntanlega ýmsu vanir.

sunnudagur, janúar 07, 2007

Komin heim
Hér er kalt,dimmt, ljótt og leiðinlegt sem og fyrr.

Lífið hlýtur að fara að batna.
Allir frasar segja að lífið batni.

Ég veit það verður aldrei eins
en það batnar.

þriðjudagur, janúar 02, 2007

Þegar kaldir vindar blása

fær maður loksins skjól