laugardagur, janúar 20, 2007

Janúar er alveg að verða búinn og ég veit ekki alveg hvað varð um þessa daga sem af eru árinu. Ég veit þó að ég hef eytt óþarfa tíma í að tala við fulltrúa stofnanna og stundum líður mér eins og ég þurfi að tala við stofnunina sjálfa. Ég fæ sjaldan svör og er oftast við það að missa vitið þegar ég loks ákveð að leggja á, hvort heldur erindi mínu er lokið eða ekki.

Biturleiki minn er svo langt genginn að ég verð viðþolslaus að hugsa um ,,þjónustu"-fyrirtæki í almannaþágu. Enga þjónustu eða aðstoð hef ég rekist á og síst í þágu almanna.

Eftir bið í um 10 mínútur gerist eitthvað á þessa leið.
Ýttu á 1 ef þú ert undir fimmtán, í leit aðstoð og hefur unnið fyrir hádegi undanfarna mánuði
Ýttu á 2 ef þú ert yfir fimmtán, hefur unnið eftir hádegi og vilt vita hvaða aðstoð er í boði
Ýttu á 3 ef þú ert fimmtán og veist af þjónustuboða í vandræðum
Ýttu á 4 fyrir leiðbeiningar um hvaða takka þú átt að velja.

4

Þú ert komin í þjónustu og leiðbeiningardeild.
Vinsamlegast
veldu 1 ef þú skildir ekki leiðbeiningarnar hér að ofan og vilt fá þjónustu
veldu 2 ef þú skildir leiðbeiningarnar hér að ofan en vilt ekki fá þjónustu
veldu 3 ef þú skildir ekki leiðbeiningarnar hér að ofan og vilt ekki fá þjónustu
veldu 4 ef þú skildir leiðibeiningarnar hér að ofan of vilt þjónustu
veldu 5 fyrir skiptiborð

5
Því miður eru allir þjónustufulltrúar okkar uppteknir, símtölum verður svarað í réttri röð. Til að flýta fyrir vali
ýttu á 1 fyrir ensku
ýttu á 2 fyrir sænsku
ýttu á 3 fyrir pólsku
ýttu á 4 fyrir íslensku

4
því miður eru allir þjónustufulltrúar okkar uppteknir vinsamlegst hinkrið.

Ýttu á 1 ef þú vilt tala við karlkyns þjónustufulltrúa
ýttu á 2 ef þú vilt tala við kvenkyns þjónustufulltrúa

2
því miður eru allir kvenkyns þjónustufulltrúar okkar uppteknir. Vinsamlegast hafðu samband seinna. Opnunartími er frá 8-12 alla virka daga.