laugardagur, júlí 29, 2006

Þegar Ynjan var ung átti hún (og á enn) frænku í Reykjavík.
Hún er alin upp í sollanum í Reykjavík og hélt að það væri eitthvað töff, Ynjan sem alin er upp í sveitarómantík í heilnæmu umhverfi vissi að hún yrði aldrei heil af því umhverfi og hefur því í gegnum tíðina tekið tillit til þess og því þykir henni vænt um hana. Hún át tómatsósu í hvert mál og nýlega tók hún upp á því að ljúga upp á Ynjuna heilnæmu ruglsögur eins og að Ynjan hafi ekki borðað matinn sinn og fleira.

Verst var þó þegar þær voru yngri montaði Pandran sig alltaf af því að vera eldri. Þetta fór í taugarnar á Ynjunni þó hún hafi látið sem ekkert væri. Þegar þær voru komnar á unglingsár sá hún að það skipti nú ekki alveg máli, hvort farið væri í Ríkið 28. júlí eða 27.

Í dag er miklu betra að vera yngri.

Því naut Ynjan þess í fyrradag að vera bara tuttugu og sex og fílaði það í tætlur og strimla og ræmur meðan Pandran var tuttugu og sjö.
Því var sá 27 mikill gleðidagur og féll alveg í skuggann á sjálfum afmælisdeginum.
Hér eftir og framvegis, ætlar Ynjan að hringja í Pöndruna á hverju ári - með hefnd í huga og minna hana á að Ynjan er yngri.

Miklu yngri lalalalala miklu yngri en Pandran.

En því miður fer hún sömu leið en mun aldrei viðurkenna það fyrir Pöndrunni að henni þyki það miður.
Ekki má gleyma að óska Gríshildi til hamingju með afmælið. Ynjunni er alveg sama þó hún sé yngri en Gríshildur.

þriðjudagur, júlí 25, 2006

Ynjan og félagar leita nú að íþróttamannlega vaxinni stúlku.

Hún verður að bera af í þokka og yndisfríðleik, vera gáfuð og kunna vel við sig í hóp. Hún verður að meta náttúruna, moldina og bolta.

Stúlka þessi fær þann heiður að bruna í kerlingaferð, vestur á firði og taka þátt í mýrarbolta með einstaklega skemmtilegau fólki, brottför 11. ágúst.

Áhugasamir geta hringt eða sent post.

föstudagur, júlí 21, 2006

Ynjan var búin að gleyma því hve gaman það er að ferðast á puttunum. Frá höfuðstaðnum fékk hún far í varmahlíð með byggingafulltrúa sem elskaði að fara á ball. Frá varmahlíð að Hólum fékk hún far með rithöfundi frá Bandaríkjunum sem langaði að læra íslensku. Frá Hólum inn í Fljót með heyjunarverktökum sem hlógu að borgarbarninu Ynju og svo loks fjölskyldu sem ræktaði hunda. Huggulega dásamlegt.

Siglufjörður var fagur og mikill Siglufjörður.

Líkast til er fullreynt að auglýsa Svarthöfða, enginn hefur gefið sig fram og Svarthöfði hefur ekki enn gefið upp gamla heimilisfangið. Þannig að hafi einhver hjartarúm og pláss aflögu fyrir yndælis kött má hafa samband. Gangi þessi auglýsing ekki má reyna Kattholt sem vill ekki fá hann. Ynjan þráir ekkert að senda hann í ,,sveitina".

Ynjan þurfti að kíkja í alfræðiorðabók í dag til að rifja upp kynni sín af sólinni. Sól er gott, sól er best. Þegar sólin er úti verður sólin í hjartanu meiri. Þannig er það bara.

sunnudagur, júlí 16, 2006

Svarthöfði heitir Zorro og er enn heima hjá okkur. Við höfum gengið hús í hús og enginn vill kannast við gripinn. MADdama Kattholts hélt langa ræðu um óskilakétti, vonsku mannanna og fjárhagsörðuleika kattholts. Niðurstaðan sú að Svarthöfði Zorro er enn í MT52.

Hann er ósköp ljúfur og indæll en Skuggi og Loki eru ekki mjög hrifnir af honum. Hann er ungur og kann ekki að sofa yfir tuttugu tíma á sólarhring og drattast hægt að matarskálinni. Svarthöfði sprettur upp við minnsta tilefni, leikur sér, leggur sig stutt og svo byrjar þetta aftur. Heldur óvirðulegur að mati ljónanna.

Upplýsa má um krossa fingrið, vona vona, helst og jibbíið. Ynjan fékk styrk til náms í Taívan.

Jibbí

föstudagur, júlí 14, 2006

Sem og aðra daga var grenjandi rigning. Hjónaleysin ætla að hlaupa inn í skjól þegar þau heyra aumt væl. Pínulítið og hrakið kattarkvikindi vælandi fyrir utan húsið fjórða daginn í röð. Ljóni fór inn en Ynjan sagði kettinum það að í ljósi stormviðvörunar, væri svo sem hægt að gefa honum að eta. Ynjan varaði hann við villidýrunum tveimur sem búa með hjónaleysunum, en væri hann óbærilega svangur, kaldur og hrakinn kæmi hann inn. Hann afþakkaði pent svona í bili.
Svo þegar hjónaleysin voru búin að koma sér vel fyrir upp í sófa, öskraði hann á þau. Inn var hann kominn, tilbúinn að lúffa fyrir villidýrunum og sleikja sig upp við húseigendur. Svo fékk hann að éta, þá fékk hann að þurrka feldinn og smá klapp. Eins og samningar höfðu gert ráð fyrir átti hann svo að fara sína leið.
Hann kúrði aðeins meir, og sleikti sér aðeins upp við húsfreyjuna og reyndi svo að blíðka húsbóndann. Hann gætti þess vel að angra ekki óargadýrin sem fylgdust með hverri hreyfingu.
Ynjunni datt í hug að það gæti verið fínt að eiga þrjá ketti, Ljóna fannst það verri hugmynd en að gerast grænmetisæta. Það hvarflaði að Ynjunni að hann gæti fengið að vera þangað til hann fyndi nýtt húsnæði, Ljóni talaði um sprengingarnar í Hirosíma.
Því var honum hent út.

Svo fór Ynjan á fætur í morgun og átti von á því að gamla óvættin væri svöng. Ynjan hélt að hún hefði séð til þess að Svarthöfða hefði verið úthýst. Óvættin var á sínum stað, fyrir utan hurðina hungurmorða og kvartinn eins og alltaf í morgunsárið, kveinin óvenju mikil.
Svo stökk Svarthöfði, þá gersamlega búinn að misnota aðstöðu sína, fyrst í fang Ynjunnar, svo beint upp í rúm til húsbóndans og eftir eltingaleik um herbergið var hann settur fram. Þegar kom að matargjöf vældi hann hærra en hinir og sárar, líkt og hann hefði verið þar alla tíð.

Meindýravarnir Ríkisins fara með Svarthöfða í Kattholt í dag.
Ynjan á von á því að hann vanti eiganda.
Ynjan gefur honum meðmæli sé þess óskað.

þriðjudagur, júlí 11, 2006

Rigning oj rigning oj

Er ekki nóg komið af þessari helv&//$% rigningu.
Af 40 dögum á skerinu hefur rignt í 34.

Það er merkilega óþolandi.

Þá styngur maður af í Dalina til þess eins að koma heim veðurbarinn og niðurrigndur.

miðvikudagur, júlí 05, 2006

já gott ef ekki...
jú ég held það

eiginlega alveg viss... svona næstum því

jú svei mér þá....


Jibbí kóla á Rauðhóla

Takk takk takk

mánudagur, júlí 03, 2006

Í dag átti að sigra fjall.
Það reyndist vera hóll.

Það var gott að viðra sig.