mánudagur, júlí 28, 2008

Ég er svo sjálfmiðuð að ég ætti að eiga afmæli oftar.
Svo sjálfmiðuð að ég hef lofað mér því að kynnast fleirum sem deila sama afmælisdag og ég.

Við fórum út að borða og skildum Leu litlu eftir heima. Það var frábært að fara út að borða saman en betra að koma heim til brosandi barns.

Dagurinn var yndislegur- ég held hann verði fordæmisgefandi fyrir síðasta tuttugu og eitthvað árið.

fimmtudagur, júlí 17, 2008

Örsjaldan fæ ég heimþrá. Núna er ég með svo sára heimþrá að ég er við það að tárfella. Mig svíður í magann og er öll ómöguleg. Ég veit að það er ekki til huggun við heimþránni en hún fer yfirleitt jafnskjótt og hún kom.
Mig langar heim til Danmerkur. Mig langar að sitja úti í garðinum mínum í Danmörku, undir tré og drekka límonaði, mig langar að finna danska lykt.

Heimþráin versnar bara við þessi skrif- ég engist hreinlega um.

Ég man enn tilfinninguna þegar ég fékk heimþrá síðast, þá var ég á tónleikum með Cecaria Evora og langaði heim til Grænhöfðaeyja.

Ég veiktist eitt sinn af heimþrá í flugvél og missti slag þegar flugfreyjan ávarpaði mig á ensku.

En núna langar mig heim til Danmerkur og skil vel að skáldin hafi eytt ævinni í að semja ljóð um heimþrá sína.

sunnudagur, júlí 06, 2008

Í dag áttu tveir heiðursmenn í mínu lífi afmæli
ég hitti þá báða og bar á þá afmæliskveðju. Fékk köku í þakklætisskyni.

Kakan var góð