fimmtudagur, júní 29, 2006

Þegar Ynjan var ung, var hún eilítið hjátrúarfull eða svona... í gamla daga þótti henni betra að tryggja sig, gera ekki þetta og hitt svona ef.... hún var í sínum huga að viðhalda hefðinni, skemmta sér og hafa gaman af lífinu með því að lifa eftir kerlingabókum.

Nú örfáum árum seinna er konan svo hjátrúarfull að það nær ekki nokkurri átt og hún viss um að hún hafi komið sér í vandræði með því að fylgja ekki gömlum duttlungum.

Ynjan reynir því þessa dagana, meir en annars að vera réttlát og hjartahrein, svona í þeirri von að það vegi eitthvað upp á móti.

Kerla huxar og huxar fallega og vonar og vonar og vonar og bíður og bíður og bíður.

Svarið kemur í lok júlí

sunnudagur, júní 25, 2006

Sumar stofnanir eru fyrir geðveika, aðrar stofnanir gera mann geðveikan!

mánudagur, júní 19, 2006

krossa fingur

sunnudagur, júní 18, 2006

Fjallkonan birtist ynjunni ekki þetta árið frekar en áður. Ynjan þekkir ekki fjallkonuna persónulega en hefur hlerað út í bæ að hún hafi gaman að ljóðum og þjóðbúningum. Hafi fjallkonan aukreitis áhuga á bátum og sjó eiga þær stöllur margt sameiginlegt og ekki úr vegi að þær kynnist og haldi sambandi.

Kannski að fjallkonan sé að austan og gráti nú land sitt, hver veit nema hún hafi fellt fé sitt Landsvirkjun til heiðurs. Kannski fjallkonan sé í Brasilíu á veturna til þess að kynna sér virkjanir annarra landa. Fallegt væri að sjá í símaskránni að fjallkonan hefði starfann atvinnumótmælandi og betra ef hún laun hennar kæmu frá listasjóði Landsvirkjunar.

Svo gæti verið að fjallkonan sé uppfærð nútímakona og vinni reglulega í banka í 101 eða á töff hárgreiðslustofu. Þá er fjallkonan í nýmóðinsfötum á daginn með sokkana girta utan yfir, sem reyndar hefur tíðkast í gegnum aldirnar. Hún laumast þá til þess að sofa í þjóðbúningnum sínum þegar fáir sjá til.

Milli þess sem hún les þjóðfræði og Íslendingasögurnar situr hún við vefstólinn sinn eða prjónar lopapeysu. Í góðra vina hópi slær hún sér á lær og segir margt skrýtið í kýrhausnum og stundum vitnar hún í ljóð til þess að fá dýpt í frásögn sína. Hver veit.

Tvennt skilur Ynjan ekki;
af hverju það er ekki fyrir löngu búið að kynna þær
og af hverju er fjallkonan ekki fyrir löngu gengin út?

laugardagur, júní 17, 2006

Líkast til er ynjan ekki náttugla lengur.

Kannski ynjan sé tímavilltur morgunhani

nú eða hæna fyrir þá sem þrá kvenkynsbeygingu í íslenskum stíl.

Líklegast er að ynju vanti kaffi.

fimmtudagur, júní 15, 2006

OG svo tekur veruleikinn við....
...veruleikinn er grár
eins og hjá öðrum
´
Ynjan er bara ekki þessi týpa, veruleikatýpa.

mánudagur, júní 12, 2006

Vika á skerinu fagra, á góðu heimili með fögrum dýrum.
Vikan hefur liðið svona eins og á alvöru sveitabæjum, nóg um að vera og svefn innan um rollur og álftir endurnýja þá hluta sálarinnar sem þess þurfa.

Það er gott að sofa í sveit og betra að sofa í torfkofa, verra er að vita lítið um gistinguna og minna um torfkofann.

Rigningin er ámóta alþýðleg og í Taívan.

þriðjudagur, júní 06, 2006

Landið fagra og kalda með öllum hestunum!!

föstudagur, júní 02, 2006

Pökkunarhæfileikar Ynjunnar eru stórkostlegir enda telur hún sig hafa ágætis reynslu af því að koma miklu dóti ofaní litlar töskur.
Fyrst er öllu dótinu raðað upp og forgangsraðað, hvað fer fyrst, hvað passar hvar og hverju má henda. Þegar búið er að koma þessu haganlega fyrir ofan í tösku er dótið sem mann langar í sett ofan í tösku, en yfirleitt er plássið búið. Það skiptir engu hve lítið pláss er meðan maður hefur enn hæfileikann til að troða. Troða þessu hér og hinu þar og þarna er pláss og hér er næstum því og afgangurinn settur efst. Hoppað aðeins á töskunni og með smá átaki má renna og loka.

Ekkert mál á þessum bæ.

Hefðbundinn vafstur er líka frá, búin að kaupa allt sem á að kaupa og koma því ofan í tösku, svo kemur panikið bara seinna, maður gleymir jú alltaf einhverju.

Kvöldið fer svo í að kveðja og lofa að hafa samband og skrifa niður netföng sem maður týnir. Velta því fyrir sér hvort maður komi aftur og hvað taki við. Það er eitthvað svo yndislegt við að kveðja fólk, yfirleitt kveður fólk svo innilega.

Ynjan lendir á miðnætti á sunnudag á Fróni. Tilhlökkunin er alveg mátuleg, hún kvíðir mest að þurfa hugsanlega að fara haga sér eins og hún sé fullorðin! Líklegast nær hún að forðast það.
Hún er líka örlítið döpur yfir því að stelpuskottin í FM verða farnar af landi brott, hún sem hélt hún myndi ná eins og einu knúsi. Í fullri hreinskilni fílar Ynjan það ekki þegar fólk tekur sjálfstæðar ákvarðanir með eitthvað annað hagsmuni Ynjunnar í huga, þá líður henni soldið eins og heimurinn snúist ekki bara í kringum hana. Slíkt er fráleitt, það hefur verið vitað frá örófi alda að Ynjan er nafli alheimsins. Þegar Ynjan fer úr landi er það stórkostlegt og frábært, þegar einhver annar fer úr landi er hún hlessa að viðkomandi skuli ekki vera þarna fyrir hana!!!
En það er kannski hægt að skella sér í smá flugtúr og kíkja aðeins á Evrópu og innheimta knúsið þannig.

Zhang Bing Xin, er ekki bara fallegt nafn á bloggynjunni heldur skjalfest og skorið í stimpil. Skiptineminn færði Ynjunni stimpil með nafninu hennar á og Ynjan ekki þetta litla kát og missti sig eilítið úr gleði. Svo beygði hún sig niður og knúsaði Irisi að íslenskum sveitasið og stelpugreyið í klessu. Líkast til óvön svona viðbrögðum og svo er þetta líkast til í fyrsta sinn sem einhver sem er 70 cm og kg stærri en hún knúsar hana. Hún kvaddi nokkuð snögglega eldrauð í framan.

Já svona er Taívan í dag....

Maður heyrir svo í aðdáendum ynjunnar fljótlega. Kaffi ekki klikka á því að eiga kaffi.

fimmtudagur, júní 01, 2006

Á þessu heimili er notað gas. Gaseldavél og gassturta.

Í ljósi þess hve margir notast við þetta kerfi verður að ganga út frá því að það sé nokkuð gott.... en Ynjan hatar gas þetta gas hitt. Í þessi örfáu skipti sem hún reynir að elda eitthvað, brennir hún yfirleitt matinn, ekki mikið en nóg til þess að blóta gasinu. Ynjan hefur gert sér grein fyrir því að það má laga með meiri æfingu og einbeitingu en þegar maður er kominn með annan fótinn í gröfina nennir maður ekki að læra að elda upp á nýtt.

Öllu verri er gassturtan, alveg sama hvernig og hvernær og hve mikið maður leggur á sig er ekki hægt að finna sæmilegt hitastig. Annað hvort er sturtan heldur of köld eða allt of heit og erfitt að finna réttu stillinguna. Því eyðir maður miklum tíma í að stilla sturtuna sem er sóun á tíma, orku og vatni. Verst er þegar maður er í sturtu og gasið klárast. Alltaf og án undantekninga er maður með sjampó í hárinu og það er ekki þægilegt að skola af sér skítinn með ísköldu vatni. Þegar gasið er búið er gasið búið svo maður getur annað hvort bitið á jaxlinn og látið sig hafa það eða hangið inn á baði í um það bil tvær klukkustundir meðan beðið er eftir gasmanninum. Báðir kostir vondir. Lögmálið er líka að vatnið klárast alltaf á Ynjuna ekki á meðleigjandann eða hundinn hennar. Ynjan klárar alltaf gasið!!!

Annars er ynjan að lesa dásamlega bók um áhrif ofveiði á hafið. Dásamleg bók hreint út sagt, en hún minnir ynjuna alltaf á að hún er frá ansi litlu landi.... Arthúr Bogason said that..... Guðjón Arngrímsson says fishing Halibut now.... Hún þorir ekki fyrir sitt litla líf að segja fólki frá þessu hérna, Ynjan er nefnilega að reyna að koma fólki í skilning um að Ísland er engin smáþjóð!