fimmtudagur, desember 25, 2008

Dagblaðapappír ofan á eldhússkápa hefur líklega bjargað lífi mínu. Það versta við slíkt húsráð er að á dagblaðapappír er dagsetning. Sterkur vitnisburður um hvenær var síðast strokið ofan af skápunum. Nýji pappírinn kom 22. desember.

Aðfangadagur var yndislegur. Litla ljós sofnaði í aðalréttinum og hafði ,,annan í pakka". Súpan var aðeins of sölt og kartöflurnar gljáðar ekki brúnaðar. Þess utan var maturinn frábær.

Félagsskapurinn betri og gjafirnar dásamlegar. Engin kreppujól í MT.

Gleðileg jól og farsælt komandi ár.

Kannski kerla herði sig á nýju ári og slái oftar á lyklaborðið.

sunnudagur, desember 21, 2008

Við erum í fríi saman litla fjölskyldan. Það er yndislegt, svo ljúft að við vorum plötuð í messu í morgun. Það var reyndar ekki eins ljúft.

Lea litla er morgunhani og vill skemmtiatriði strax. Við hlýðum eins og við getum og því vorum við mætt við hlið húsdýragarðsins á slaginu tíu í morgun, vopnuð snjóþotu og slingi. Daman í afgreiðslunni gladdi okkur með fréttum af geitaklappi á slaginu tíu.

Svo við dunduðum okkur í garðinum og stundvíslega klukkan 11.10 mættum við til þess að klappa geitunum. Nokkur hópur af fólki hafði safnast saman við stíuna þeirra og allir spenntir.

Svo tók síðhærður maður upp gítar og stillti sér upp við hlið vina sinna. Ég hvíslaði að ektamanninum tilvonandi að nú væri söngvamótmælendur að missa sig. Hann taldi líklegra að maðurinn með gítarinn væri skotinn í huðnu...

Svo kynnti maður sig sem prest og þakkaði góða mætingu messustundina. Sagði að nú væri stund til að minnast jesú og jötunnar og signa sig.

Í fyrstu ætluðum við að þrauka og bíða eftir að komast í að klappa geitum en svo fórum við þegar við sáum ekki fram á að þetta myndi hætta neitt á næstunni.

föstudagur, desember 12, 2008

Glitnir vinur minn sendi mér jólaóróa. Mikið var það nú fallegt. Ég hefði svo sem alveg treyst mér í að gefa andvirði óróans til þeirra sem töpuðu lífeyrinum sínum. Telji einhver sig geta selt óróann fyrir einhverja dollara má hinn sami gefa sig fram. Hann er falur gegn framvísun pósts frá lífeyrissjóðunum.
Annars geymi ég óróann til minningar um að bankinn er hættur að vera vinur minn.

Við fengum líka dagatal frá gamla vini okkar Glitni. Þar segir ,,við erum stolt af framlagi okkar til málefna sem efla samfélagið". Mikið er gott að Glitnir er stoltur af sjálfum sér því ég er ekki viss um að aðrir séu það. Meðan Glitnir eflir samfélagið þarf ég ekki að hafa áhyggjur. Ég á óróa.

Við fórum á Tapas-barinn í kvöld. Góður félagsskapur, góður matur og gott kvöld í alla staði. Lea litla hafði engan áhuga á því að sitja til borðs með okkur. Togaði okkur að útidyrahurðinni, inn í sal og hló og skríkti svona þegar hún náði að toga einhvern með sér.

Fyrir nokkrum árum sat ég á Tapasbarnum með Trallalinski og fleirum góðum, borðaði góðan mat, drakk bjór og hann sagði sögur og við hlógum. Gaman að hlæja eins og skáldavinur segir svo oft.

Þá var gaman, nú er gaman. Bara ekki eins gaman. Öðruvísi gaman.

fimmtudagur, desember 04, 2008

Helga Þórey er augljóslega með betra minni en ég. Auðvitað voru nokkur góð mótmæli. Man ekki betur en að hafa verið á flestum þessum mótmælum. Ég get játað það núna að innst inni öfundaði ég SiggaTom fyrir að vera handtekinn.

Mér finnst eins og það hafi ekki verið eins. Kannski af því að góðærið kallaði mann atvinnumótmælanda og ,,ekkert þýddi að taka mark á þessu fólki". Það er svo sem alveg satt ég er yfirleitt á móti. Við fengum okkur t.d. jeppa í tilefni kreppunnar. Kreppujeppa. Það er pönk í því.

Ég hef ekki svo miklar áhyggjur af því að sjá slagorð mótmælenda skröpuð í lakkið. Ég legg bara í góðri fjarlægð og reyni að láta engan sjá mig fara úr bílnum.

Kannski ég láti gamlan draum rætast og standi með Helga Hó. Lea litla er örugglega til í göngutúr á Langholtsveg.Stemningin er önnur núna

þriðjudagur, desember 02, 2008

... ég á þó ekki pels

Ég mætti á Arnarhól í dag og tók Leu með mér. Hún var sæl og sátt í pokanum sínum. Ég var sæl með hana í pokanum.
Á leiðinni heim frétti ég af því að fólk hefði skundað í Seðlabankann og blótaði í hljóði að vera ekki þar. Kunni ekki við að snúa við og skilja barnið eftir í bílnum meðan ég tæki þátt í óreirðum.

Hvað var að gerast þegar ég var barnlaus? Af hverju var ekkert fútt í mótmælum þá? Ég sem mæti á flestar mótmælasamkundur og velflestar samstöður líka. Villtustu mótmælin sem ég hef verið viðstödd voru 2005 þegar við Gríshildur örkuðum með kennaranemum í Borgartún á mótmælafund. Ég missti áhugann á kennslu, það eina sem ég hafði upp úr þeirri kjarabaráttu og þeirri göngu.

Nú eru breyttir tímar og ég er orðin kerling!

Finnst þetta ferlega fúlt.