föstudagur, mars 28, 2008

Ég elska öll burðarsjölin mín
- út af lífinu held ég. Eini ókosturinn sem ég hafði fundið hingað til var fíknin, að vilja fleiri, meiri, nýrri. Það er ekki ódýrt að vera burðarpoka/sjala fíkill.

En nú er ég með hor á bakinu... það er líklega ókostur.

mánudagur, mars 24, 2008

Ég át túnfiskinn, át páskamatinn og páskaeggið.
Með móral.

Föstudagurinn langi var sem betur fer ekki eins langur og hann er í minningunni. Veit að sá dagur myndi rústa keppninni ,,leiðinlegasti dagur ársins". Það hefur skánað aðeins með vaxandi kapítalisma sem betur fer. Sjónvarpið fær hrós fyrir ágætis dagskrá.

Næstu páska ætla ég að byrja að eta páskaeggið á langa, jafnvel skírdag til að koma í veg fyrir árvissa magaverki páskadags.

fimmtudagur, mars 20, 2008

Ég skal játa það
Skammast mín mikið og lofa að gera það ekki aftur eftir morgundaginn

Ég keypti túnfisk og ætla að eta hann hráan á langa.

Það er ljótt ég skammast mín nú þegar

laugardagur, mars 08, 2008

Játningar

Ég verð að játa á mig blæti.
Mitt blæti er á þann veg að ég get ekki farið í Krónuna/Bónus/aðrar verslanir án þess að reyna að sikta út aðstoðarfórnarlamb. Ég er eiginlega allan búðarleiðangurinn að horfa á fólk með tilliti til þess hvort því vanti aðstoð. Gamalmenni, konur með ungbörn, óléttar konur, farlama fólk og svo framvegis. Þið vitið; fólkið sem hægt er að segja við kassann : Afsakið en á ég ekki að taka upp úr körfunni fyrir þig? Eða : Viltu að ég beri pokana fyrir þig að bílnum?

Eðli málsins samkvæmt hefur blætið legið niðri í nokkra stund eða kannski frekar að ég hef ekki getað ræktað það með mér sem óskandi væri. Fyrst því ég var svo rosalega ólétt sjálf og svo hefur búðarferðum fækkað, þær hafa styðst og ég er nú orðið yfirleitt með Lúsina með mér.

Undir lok meðgöngunnar fór ég ekki í búð án þess að óska þess heitt að einhver myndi bjóðast til að aðstoða mig með pokana. Ég var þreytt og ólétt og ómöguleg og þótti afar erfitt að bera þrjá og fjóra poka út í bíl, tveir voru líka alveg nóg og einn ekkert of léttur. En aldrei var mér boðin aðstoð. Fólk starði á mig með samúðaraugum en átti enga aðstoð að gefa.

Eftir að Lúsin fór að koma með í búðarferðir hefur hún verið í þar til gerðum poka og innkaupin ganga vel fyrir sig. Það tekur smá stund að taka upp úr körfunni. Önnur höndin þarf að halda um Lúsina og hin tekur upp.

Svo gerðist það um daginn að ég er að taka upp úr körfunni, ég heldur rausnarleg í innkaupum og tók minn tíma í að setja upp á bandið, og ungur huggulegur maður spyr hvort ég vilji ekki aðstoð. Hann geti vel tekið upp úr körfunni fyrir mig.

Ég horfði á hann með forundrunaraugum og sagði nei takk að ég gæti þetta alveg sjálf.

Jamm- gott hjá þér, gott hjá þér