miðvikudagur, apríl 15, 2009

Flesta daga hugsa ég um hvað ég get skrifað á bloggið sem snýst ekki um líf mitt sem móðir. Ég reyni stanslaust að muna eftir einhverju sem hefur ekkert að gera með taugaveiklað móðurhlutverk mitt. Gengur illa. Tvennt kemur til. Ég er að mestu taugaveikluð húsmóðir og ég man ekkert stundinni lengur. Góð blanda?

Páskahelgin var mjög ljúf. Við lágum ekkert í leti. Reyndar lágum við óþarflega lítið í rúminu. Eftir að Lea litla kom er ræs um sjö. Ef við erum heppin sex. Sofa út er til átta, hálfníu er aðeins minning um gamla tíma.

Við fórum að heimsækja eldri bróður minn í Búðardal. Rétt áður en við lögðum í Bröttu brekku hringd´ann. Ekkert kjöt sem konunnin hugnaðist til í Búðardal. Hvernig getur það hent á páskadag, í Bröttu brekku og allt lokað? Vonbrigðin voru gífurleg. Nú var að keyra aftur til Reykjavíkur eða svelta.

Eftir smá pepp ákváðum við að hringja. Hringdum á sveitabæ innst í Haukadalnum. Kynntum okkur með nafni. Eftir smá hjal og rop og vandræðalega þögn stumraði ég erindinu upp úr mér:

Eigið þið nokkuð lambakjöt handa okkur?

Sem betur fer var smá spotti á bæinn sem betur fer. Þau sáu aldrei hve skömmustuleg ég var. Nóg var samt hlegið. Ég var sem betur fer ekki kölluð ,,reykvíkingur" eða eitthvað þaðan af verra. Ég skammaðist mín samt.

Maturinn var ljúfur og félagsskapurinn líka. Lea litla sátt við allt nema bílferðina.

fimmtudagur, mars 05, 2009

,,Hverju gleymdir þú nú?" sagði maðurinn minn þegar hann svaraði í símann.
Mér hefði þótt vænt um að heyra halló. Ekki það ég gleymdi dagbókinni minni heima og bað hann um að kíkja aðeins í hana.

fimmtudagur, febrúar 12, 2009

Lea litla sá mynd af Sigfúsi Sigurðssyni í Fréttablaðinu um daginn.
Hún benti á myndina, barði á bringuna á sér og sagði aaa. Hún var að herma eftir górillu.

Þegar hún sá myndina af honum á forsíðunni gerði hún það aftur.

Mér finnst krúttlegt að Lea kunni að herma eftir górillu.

föstudagur, janúar 16, 2009

Eftir að Lea litla kom í heiminn er ég morgunhani. Eða Lea er morgunhani og býður ekki upp á dundstund meðan móðurletin sefur áfram. Því erum við oft klæddar og komnar á ról klukkan níu og langar að gera eitthvað annað en að sitja inni.

Íslenskt samfélag opnar klukkan tíu í fyrsta lagi. Oft ellefu eða tólf. Þá erum við tilbúnar í fyrstu leggju. Mér finnst þetta hrikalega fúlt. Til dæmis ætluðum við á elskulegt borgarbókasafnið í Tryggvagötu sem er einn af uppáhaldsstöðunum okkar og þar var lokað. Opnar tíu á virkum dögum og eitt um helgar!

Eitt um helgar, hvaða djók er það? Þjónustar borgarbókasafnið aðallega fólk sem er timbrað? Annars fellur mér illa að hallmæla þessum dásamlega stað. Borgarbókasafnið er staðurinn góði og yndislegi.

fimmtudagur, janúar 01, 2009

Gleðilegt nýtt ár!

Við hjónaleysin eyddum áramótunum á náttfötunum. Það var pest í MT og allir í volæði.
Við borðuðum steikina á náttfötunum og höfðum varla lyst. Neyddum okkur til þess að horfa á skaupið og fórum út á stétt og horfðum á mestu sprengingarnar. Lea litla hafi lítinn áhuga og benti aftur inn. Hún fékk sínu framgegnt þegar fulla konan við hliðina á kyssti okkur gleðilegt ár og virtist til í að spjalla.

Árið 2008 var ágætt, allgott í flesta staði. Veturinn fór í að vera inni með litla ljósi. Finnst veturinn hafa flogið í burtu. Ég var upptekin við brjóstagjöf og bakburð. Sótti mömmumorgna sem má ekki kalla mömmumorgna. Horfði á barnið þroskast og dafna og fór í göngutúra. Át flestallar hugmyndir mínar um uppeldi ofaní mig og fílaði það í botn að vera tjelling.
Svo þegar fór að vora byrjaði ég að vinna á kvöldin, Lea heima með pabbanum. Við fórum að kafa með selum sem var yndislegt.

Sumarið var frábært. Við vorum mikið úti í sólinni. Fjölskyldan fór saman í ferðalag vestur á Strandir. Eltumst við sundlaugar og að öðrum stöðum ólöstuðum var Krossneslaug staðurinn.
Mikill hluti sumarsins fór í að undirbúa brjóstagjafaviku sem haldin var í október. Þó ég segi sjálf frá heppnaðist það mjög vel. Lea litla átti líka afmæli í október og fyrsti afmælisdagurinn var dásamlegur. Dömunni var haldin mikil veisla og allir glaðir.

Nýjir ofnar voru settir í íbúðina, því þótt hinir hafi verið flottir þá virkuðu þeir ekki. Okkur hefur verið hlýtt síðan. Svo þegar kreppan skall á fengum við okkur jeppa. Jú víst er pönk í því.
Ljóni kláraði síðasta hluta fæðingarorlofsins og við héldum jólin hátíðleg í MT og áramótin voru eins og áður sagði sorgleg.

Hér er ekkert minnst á yndisstundir í góðum félagsskap sem voru ófáar og ómetanlegar.

Hlakka til að takast á við nýtt ár.

fimmtudagur, desember 25, 2008

Dagblaðapappír ofan á eldhússkápa hefur líklega bjargað lífi mínu. Það versta við slíkt húsráð er að á dagblaðapappír er dagsetning. Sterkur vitnisburður um hvenær var síðast strokið ofan af skápunum. Nýji pappírinn kom 22. desember.

Aðfangadagur var yndislegur. Litla ljós sofnaði í aðalréttinum og hafði ,,annan í pakka". Súpan var aðeins of sölt og kartöflurnar gljáðar ekki brúnaðar. Þess utan var maturinn frábær.

Félagsskapurinn betri og gjafirnar dásamlegar. Engin kreppujól í MT.

Gleðileg jól og farsælt komandi ár.

Kannski kerla herði sig á nýju ári og slái oftar á lyklaborðið.

sunnudagur, desember 21, 2008

Við erum í fríi saman litla fjölskyldan. Það er yndislegt, svo ljúft að við vorum plötuð í messu í morgun. Það var reyndar ekki eins ljúft.

Lea litla er morgunhani og vill skemmtiatriði strax. Við hlýðum eins og við getum og því vorum við mætt við hlið húsdýragarðsins á slaginu tíu í morgun, vopnuð snjóþotu og slingi. Daman í afgreiðslunni gladdi okkur með fréttum af geitaklappi á slaginu tíu.

Svo við dunduðum okkur í garðinum og stundvíslega klukkan 11.10 mættum við til þess að klappa geitunum. Nokkur hópur af fólki hafði safnast saman við stíuna þeirra og allir spenntir.

Svo tók síðhærður maður upp gítar og stillti sér upp við hlið vina sinna. Ég hvíslaði að ektamanninum tilvonandi að nú væri söngvamótmælendur að missa sig. Hann taldi líklegra að maðurinn með gítarinn væri skotinn í huðnu...

Svo kynnti maður sig sem prest og þakkaði góða mætingu messustundina. Sagði að nú væri stund til að minnast jesú og jötunnar og signa sig.

Í fyrstu ætluðum við að þrauka og bíða eftir að komast í að klappa geitum en svo fórum við þegar við sáum ekki fram á að þetta myndi hætta neitt á næstunni.