miðvikudagur, janúar 16, 2008

Crocs eru að mínu viti ljótustu skór sem settir hafa verið á markað. Það lá ljóst fyrir að slíkan skófatnað myndi ég aldrei nota.

Svo varð ég ólétt, alveg ofboðslega ólétt og hætti að passa í skóna mína. Allir skór sem til voru á heimilinu voru of þröngir og pössuðu ekki.

Því lét ég til leiðast og keypti mér ljóta skó sem pössuðu og í nokkra mánuði þrammaði ég á þeim hvert sem ég fór. Ég kem líkast til aldrei til með að gleyma því þegar ég fór í kjól og Crocs út að borða. Ekki eins fín og mig langaði að vera. En þeir voru þægilegir, pössuðu og þjónuðu sínu hlutverki vel.

Svo þegar ég gekk út í búð nú fyrir stundu og kól á fótunum því ég var í Crocs- skónum í snjónum gerði ég mér grein fyrir því að nú er kominn tími til að fjárfesta í nýjum skóm.