laugardagur, júlí 03, 2004

Morgunstund gefur gull í mund sagði einhver spekingurinn, ég fékk einvörðungis jurtir í morgunsárið. Hressandi. Nú sit ég á laugardagskvöldi, snemma, sárþreytt að bíða eftir seyðinu mínu. Það er nokkuð ljóst að vakni maður snemma, sofnar maður snemma og hvað er það betra en að sofna seint og vakna seint? Nei ekkert nöldur. Nei það er yndælt að vera vakandi, sumar, ekki gleyma því, sumar, GLEÐi, sumargleði eða já pass.

Við Djúpfari sigldum stolt um kollafjörðinn í dag, fullkomið samband manns og báts. Ég leyfði huganum að reika örlitla stund, komin á skútu í karabíska hafið, með yndælis kaffi þegar talstöðin truflaði mig. Pampampam 14 mílur norðvestur af rifi er Eskey saknað, pampampam þyrlur á leiðinni.... Já draumurinn dofnaði við tilkynningu frá veruleikanum. Eskey reyndist svo í góðu lagi að fiska og ekkert mál, ynjan glotti örlítið, ekki mikið þegar starfsmaður tilkynningarskyldunnar skammaði skipstjóra Eskeynnar fyrir að hlusta ekki á sig. Hehehhe. Allt er gott sem endar vel og ég er sannfærð um að margur annar sem hlustaði á hafi flissað. En þegar allt er í lagi þá verða hlutirnir fyndnir svona eftir á....þó skal ég ekki fullyrða um að þyrlunni hafi verið skemmt!

Hitti tröllskessuna góðu nýlega, hef ekki hitt hana síðan um 2000. Þetta voru ánægjulegir endurfundir og ég gerði mér grein fyrir því að skessa skipar sérstakan sess í hjarta mínu, maður ætti að kíkja á kerlu oftar.

Tréynjan síkáta