sunnudagur, september 30, 2007

Dagurinn rann upp og fór, svona eins og aðrir dagar í lífi mínu og gærdagurinn var hreint ekki merkilegri en aðrir dagar.
Í gær var annar dagurinn í sama mánuði sem sveik mig, eða ég þá.

Ég hafði hugsað mikið um þessa tvo daga og átti von á þónokkru drama og einhverju sérstöku, en allt kom fyrir ekki. Líkast til ætti ég að vera fegin, hef svo oft verið þakklát fyrir að vita ekki af atburðum í lífi mínu fyrirfram. Því ætti ég að vilja hafa þá niðurneglda eftir spádómum núna?

Dagurinn í dag virðist líka ætla að vera tíðindalítill. Ég sem ætlaði að eiga barn í september- kannski orðin vön því að lítið sé hlustað á mig og bitur eftir því en mér finnst svona að ég hefði átt að hafa eitthvað um málið að segja. Þetta er jú barn sem ég á.

Sem betur fer var ég búin að undirbúa að Stormur væri óstundvís, og því ekki farin að bíða enn. Það er líka gaman að ,,fella" spádóma fólksins um hvaða dag Stormur kemur í heiminn og þeir tikka hver af öðrum. Komi barnið ekki í dag eða á morgun hef ég fellt eigin spádóm.
Allt er til reiðu, búið að mála forstofuna og greiða gæruna. Ætla að sletta í vöfflur svona í tilefni dagsins.

Eins með Storm sem og marga aðra góða, þeir koma þegar þeir koma.