sunnudagur, apríl 17, 2005

Sögnin að éta

Það stefnir allt í að lokaritgerðin klárist og ég haldi lífi. Ég hef efast um það í nokkurn tíma, en ég hef trú á því að þetta takist. Skólinn er óþægilega nálægt því að vera búinn sem þýðir að ég verði að fara að vinna og vera fullorðin. Ég hafði heldur enga trú á því að það myndi nokkurn tímann gerast. En á móti kemur þá hafði ég ekki nokkra trú á því að Bobby Fisher kæmi aftur til landsins svo 2005 er líkast til árið sem maður verður að éta eitthvað mikið ofan í sig. Vonandi eru allir búnir að gleyma því þegar ég sagði að kennarar væru fylgismenn djöfulsins og að í þeirri stétt myndi ég aldrei starfa. Enn og aftur ét ég. Ég hef enn fulla trú á því að kárahnjúkar fari í rassgat og að þessi framkvæmd verði aldrei að veruleika, kannski verð ég að éta það ofaní mig líka. Þar er hinsvegar enn von.
Mig minnir að einhvern tímann hafi ég misst það út úr mér að ég ætlaði aldrei aftur út á land. Best að éta það ofaní sig núna og snögglega. Brátt verður farin svaðilför ársins á Tálknafjörð og ef allir halda heilsu ætlum við hjúin þangað næsta vetur. Það er líka svolítið síðan að ég þurfti að éta eigin yfirlýsingar um körfubolta aftur ofaní mig. Ég ætlaði líka til Afríku í boði ÞSSÍ en ....

Nú er ég södd