þriðjudagur, mars 14, 2006

Þá eru leiðangursfarar komnir til Chiayi og eru í góðu yfirlæti.
Ferðin hefur gengið með eindæmum vel hingað til. Við fórum til Lugang í gær, gamlan bæ sem er mjög túristavænn. Veðrið var eins ömurlegt og það gerist, hávaðarok og skítkalt. Þar laumuðum við okkur inn í littla blævængjaverslun og ætluðum rétt aðeins að skoða okkur um. Karlinn í búðinni byrjaði að teikna á blævæng fyrir okkur og auðvitað gátum við ekki farið meðan hann var að teikna.... svo þegar hann var búinn að mála þennan fína blævæng neyddumst við til þess að versla....
Niðurstaða þrír blævængir og allir sáttir. Fari ynjan einhvern daginn í bissnes verður þetta vinnulagið.

Þá var ákveðið að keyra suður á bóginn, bara svona rétt til að komast á hótel. Við tókum okkur góðan tíma, enda erfitt að lesa kort á kínversku! En meðan manni er alveg sama hvar maður er villist maður ekki....

Hvert við förum svo er ekki enn alveg komið á hreint en stefnan er tekin suður á bóginn, drengirnir eru eitthvað orðnir þreyttir á þessu musterisrölti okkar og Helgi alveg klár í að fara að kafa.

Ferðaynjan kveður í bili.