föstudagur, október 05, 2007

Á náttborðinu mínu eru nokkuð margar bækur um allt sem lítur að meðgöngu, fæðingu og ungbarni. Huggulegar bækur sem ég hef sankað að mér undanfarna mánuði og lagt mig fram um að lesa.
Flestar áhugaverðar og góðar, uppfullar af skemmtilegum upplýsingum og fróðlegum, sem og gagnlegum ábendingum.

Í öllum þessum bókum er talað um að meðganga sé almennt 38-42 vikur og að langflest börn fæðist um 40 vikurnar. Hver einasta bók hamrar á því að börnin komi þegar þau komi, lítið þýði að ýta á eftir þeim og að þau verði að vera tilbúin. Huggulegar setningar í bókum sem oft eru endurteknar af fólki með reynslu. Hve oft ég hef séð skrifað og heyrt að börn komi oft ekki fyrr en á 42 viku hef ég ekki tölu á.

Mér hefur alltaf fundist þetta skemmtilegasta pælingin á meðgöngunni, að barnið ófædda stjórni fæðingu sinni og velji sinn fæðingardag. Sú staðreynd minnir mann á að manneskja ólík öllum öðrum er á leiðinni í heiminn, manneskja sem er líkust sjálfri sér, hefur aldrei verið til áður og veit hvernig á að gera hlutina, tekur ákvörðun fyrir sig.
Minnir mann á að svo margt í lífinu er ekki fyrirséð og oft engu hægt að stjórna.
Eitthvað svo friðsælt og fallegt að ófætt barn velji sinn tíma þegar það er tilbúið til að koma í heiminn.

Eins yndislega og það hljómar að ófætt barn starti sinni fæðingu og komi þegar því hentar, má öllu ofgera. Það er ekki ætlast til þess að þau kúri endalaust og geti ómögulega fundið réttu stundina til að koma í heiminn.

Þegar leigusamningurinn er útrunninn er ætlast til þess að fólk finni sér annað húsnæði.

Mér verður ekki mikið lengur skemmt yfir sjálfstæðum ákvörðunum.