fimmtudagur, september 13, 2007

Ég stóð eins yfirveguð og ein manneskja gerir í tubinu við Paddington og beið eftir lestinni þegar dr. Phil vindur sér upp að mér og býður mér sígó.
Ég lít í kringum mig og sé Ljónið hvergi svo ég afþakka pent en dreg upp eigin sígó og þarna stöndum við Phil og reykjum í gríð og erg.

Lestin kemur og við drepum í og tökum lestina, tyllum okkur niður og ég er eitthvað að segja félaga mínum dr. Phil til, hann geti grennst og hann verði að vera meiri nagli- þýði ekkert að hanga alltaf í kerlingunni sinni.

Hann kinkaði kolli yfirlætislega og spurði hvort við ættum ekki að fara saman á pöbbinn.

Ég var til ég játaði strax að ég hafði verið edrú alla meðgönguna og alveg kominn tími á smá djamm svona rétt fyrir mætingu barnsins.

Áður en ég vissi af stóðum við úti á svölum á huggulegum bar í London. Dr. Phil benti á mig og sagði að hann þyrfti að segja mér nokkuð sem enginn hefði sagt mér áður.

Svona til að tryggja að ég tæki tíðindunum af ró, svolgraði ég í mig rauðvínsglasinu og kveikti mér í annarri sígarettu. Gætti þess þó vel að Ljóni sæi mig ekki reykja.

Ég strompaði, nokkuð stressuð og beið eftir tíðindunum frá dr. Phil. Þegar félagi minn Phil bendir á einhvern er stóri sannleikurinn á leiðinni og ég ætlaði ekki að brotna niður á barnum, sat á barnum í fyrsta sinn í marga mánuði.

Svo sagði hann hátt og snjall;
Lynja þú ert léleg húsmóðir og höfuðborg Kongó er ekki Khasa.

Með vini eins og Phil eru manni allir vegir færir.