mánudagur, apríl 09, 2007

Óhætt er að segja að Taívan sé eitt best varðveitta leyndarmál Asíu.

Annað vel varðveitt leyndarmál í Taívan er upplýsingamiðstöð við lestarstöð eina í Taipei. Því þrátt fyrir einstaka hæfni í kortalestri þrömmuðum við fram og til baka án þess að reka auga í miðstöðina. Loks löngu seinna rákum við augun í starfsmann merktan miðstöðinni í dimmu horni.

Við fengum þær upplýsingar sem við leituðum eftir. Á miða var skrifað heimilisfang hótels í Taoyuan, nafnið á hótelinu og svo hve mikið ferð með leigubíl ætti að kosta.

Í lestinni til Taoyuan spurði ég gestinn um upplifun ferðarinnar. Þar sem að ferðalagið var að lokum komið var að mér þótti stund til að fara yfir helstu atburði ferðarinnar.

Af einskærri yfirvegun sagðist gesturinn ætla að bíða með svarið. Ferðin væri ekki búin og miðað við uppákomur síðustu daga vænti hún þess að ævintýrin væru ekki á enda.

Það biðu okkar karlmenn með hnetutuggu þegar við komum til Taoyuan og buðu okkur far á flugvöllinn.

Vopnaðar miðanum góða, réttum við hann fram og brostum.

Af ákefð sem ég hef ekki upplifað áður í Taívan, soguðust þeir að okkur og spurðu hvert við værum að fara.

Svo kallaði einn bílstjórinn upp yfir sig. ,,Hér stendur að það kosti 100 NT að fara á hótelið! Uss það er ekki hægt, ekki hægt. Lágmark150 NT."

Svo baðaði hann höndum og gekk í burtu og einhverjir með honum.

Eftir stóðu menn með eldrauðan munninn og skeggræddu þessa tölu.

Við fengum smá aðstoð og vorum sannfærðar um að hér, líkt og annarsstaðar í Taívan, væri notast við metrarukkun. Því settumst við upp í næsta leigubíl og hann keyrði af stað.

Ég bað hann um að setja meterinn á en hann sagði ferðina kosta 150. Ég bað hann aftur. Þá stoppaði hann bílinn. Ég gaf mig strax og sagði það svo sem ekki skipta höfuðmáli 150 NT væri allt í lagi.
En hann blótaði okkur bara og rak okkur út. Með látum

Opnaði hurðina hjá gestinum og skipaði honum út.
Opnaði skottið og henti farangrinum á jörðina.

Eftir stóðum við kindurnar gáttaðar.

Svo arkaði hann í burtu, hrækti rauðum vökva og baðaði út höndum. Hneykslaður!

Eldri maður benti á leigubíl stutt frá og sagði meter.

Skelfingulostnar gengum við að leigubílnum og hann sannfærði okkur um að hann myndi nota meterinn.

Ferðin var svona eins og leigubílaferðir eru gjarnan, við vorum keyrðar á áfangastað.

Meterinn gaf upp töluna 120

Tókum upp 150 NT og réttum leigubílstjóranum og þökkuðum honum skutlið og góða þjónustu.