föstudagur, júní 02, 2006

Pökkunarhæfileikar Ynjunnar eru stórkostlegir enda telur hún sig hafa ágætis reynslu af því að koma miklu dóti ofaní litlar töskur.
Fyrst er öllu dótinu raðað upp og forgangsraðað, hvað fer fyrst, hvað passar hvar og hverju má henda. Þegar búið er að koma þessu haganlega fyrir ofan í tösku er dótið sem mann langar í sett ofan í tösku, en yfirleitt er plássið búið. Það skiptir engu hve lítið pláss er meðan maður hefur enn hæfileikann til að troða. Troða þessu hér og hinu þar og þarna er pláss og hér er næstum því og afgangurinn settur efst. Hoppað aðeins á töskunni og með smá átaki má renna og loka.

Ekkert mál á þessum bæ.

Hefðbundinn vafstur er líka frá, búin að kaupa allt sem á að kaupa og koma því ofan í tösku, svo kemur panikið bara seinna, maður gleymir jú alltaf einhverju.

Kvöldið fer svo í að kveðja og lofa að hafa samband og skrifa niður netföng sem maður týnir. Velta því fyrir sér hvort maður komi aftur og hvað taki við. Það er eitthvað svo yndislegt við að kveðja fólk, yfirleitt kveður fólk svo innilega.

Ynjan lendir á miðnætti á sunnudag á Fróni. Tilhlökkunin er alveg mátuleg, hún kvíðir mest að þurfa hugsanlega að fara haga sér eins og hún sé fullorðin! Líklegast nær hún að forðast það.
Hún er líka örlítið döpur yfir því að stelpuskottin í FM verða farnar af landi brott, hún sem hélt hún myndi ná eins og einu knúsi. Í fullri hreinskilni fílar Ynjan það ekki þegar fólk tekur sjálfstæðar ákvarðanir með eitthvað annað hagsmuni Ynjunnar í huga, þá líður henni soldið eins og heimurinn snúist ekki bara í kringum hana. Slíkt er fráleitt, það hefur verið vitað frá örófi alda að Ynjan er nafli alheimsins. Þegar Ynjan fer úr landi er það stórkostlegt og frábært, þegar einhver annar fer úr landi er hún hlessa að viðkomandi skuli ekki vera þarna fyrir hana!!!
En það er kannski hægt að skella sér í smá flugtúr og kíkja aðeins á Evrópu og innheimta knúsið þannig.

Zhang Bing Xin, er ekki bara fallegt nafn á bloggynjunni heldur skjalfest og skorið í stimpil. Skiptineminn færði Ynjunni stimpil með nafninu hennar á og Ynjan ekki þetta litla kát og missti sig eilítið úr gleði. Svo beygði hún sig niður og knúsaði Irisi að íslenskum sveitasið og stelpugreyið í klessu. Líkast til óvön svona viðbrögðum og svo er þetta líkast til í fyrsta sinn sem einhver sem er 70 cm og kg stærri en hún knúsar hana. Hún kvaddi nokkuð snögglega eldrauð í framan.

Já svona er Taívan í dag....

Maður heyrir svo í aðdáendum ynjunnar fljótlega. Kaffi ekki klikka á því að eiga kaffi.