fimmtudagur, júní 01, 2006

Á þessu heimili er notað gas. Gaseldavél og gassturta.

Í ljósi þess hve margir notast við þetta kerfi verður að ganga út frá því að það sé nokkuð gott.... en Ynjan hatar gas þetta gas hitt. Í þessi örfáu skipti sem hún reynir að elda eitthvað, brennir hún yfirleitt matinn, ekki mikið en nóg til þess að blóta gasinu. Ynjan hefur gert sér grein fyrir því að það má laga með meiri æfingu og einbeitingu en þegar maður er kominn með annan fótinn í gröfina nennir maður ekki að læra að elda upp á nýtt.

Öllu verri er gassturtan, alveg sama hvernig og hvernær og hve mikið maður leggur á sig er ekki hægt að finna sæmilegt hitastig. Annað hvort er sturtan heldur of köld eða allt of heit og erfitt að finna réttu stillinguna. Því eyðir maður miklum tíma í að stilla sturtuna sem er sóun á tíma, orku og vatni. Verst er þegar maður er í sturtu og gasið klárast. Alltaf og án undantekninga er maður með sjampó í hárinu og það er ekki þægilegt að skola af sér skítinn með ísköldu vatni. Þegar gasið er búið er gasið búið svo maður getur annað hvort bitið á jaxlinn og látið sig hafa það eða hangið inn á baði í um það bil tvær klukkustundir meðan beðið er eftir gasmanninum. Báðir kostir vondir. Lögmálið er líka að vatnið klárast alltaf á Ynjuna ekki á meðleigjandann eða hundinn hennar. Ynjan klárar alltaf gasið!!!

Annars er ynjan að lesa dásamlega bók um áhrif ofveiði á hafið. Dásamleg bók hreint út sagt, en hún minnir ynjuna alltaf á að hún er frá ansi litlu landi.... Arthúr Bogason said that..... Guðjón Arngrímsson says fishing Halibut now.... Hún þorir ekki fyrir sitt litla líf að segja fólki frá þessu hérna, Ynjan er nefnilega að reyna að koma fólki í skilning um að Ísland er engin smáþjóð!