sunnudagur, maí 28, 2006

Rækjuveiðar á sunnudegi

Það hefur rignt nokkuð mikið undanfarið, ekki svo valdi skaða, regnið hefur séð um að halda hitanum niðri sem er kærkomið fyrir svitaholurnar. Yfirleitt þegar ynjan leggur vespunni sinni, setur hún hjálminn í fótastæðið og skyggnið niður, svo hjálmurinn sé þur næst þegar komið er að honum. Eitthvað hefur ynjan verið annars hugar því hún gerði sér grein fyrir því í morgun að skyggnið var uppi.
Hún blótaði í hljóði, enda hefur ófýsilegt að vera með blautan hjálm, og teygði sig eftir hjálminum. Eitthvað hreyfðist. Við nánari athugun kemur í ljós að kettlingur hefur hreiðrað um sig inn í hjálminum og sýndi ekki á sér fararsnið og kunni ynjunni litlar þakkir fyrir næturgistinguna.

Eitthvað hefur gærdagurinn læðst óþægilega að manni í formi höfuðverkjar en góður amerískur morgunmatur í góðra vina hópi gerir gæfumuninn. Þegar maður er hálfsloj er oft gott að skríða aftur heim en í dag var ákveðið að fara á rækjuveiðar í borginni.

Við grunna sundlaug settumst við niður, hver með okkar stöng og okkar beitu. Feitir bitar af lifur settir á öngulinn, girnið sett út og gosdósin opnuð í von um betri heilsu. Bið og ekkert gerist. Taívanska tónlistin passlega hátt stillt og nokkuð huggulegt að halla sér aftur í plaststólnum og láta hugann reika, þegar hugurinn var farinn að reika heyrðist hamingjugól.
Ekki var baráttan mikil við fórnarlambið og ekki var það þungt en allir fögnuðu fyrstu rækjunni. Fagmannlega rifu þeir bláar klærnar af bráðinni og settu í geymslubúr. Þá áttaði ynjan sig á því að hún hafði ekki nokkurn áhuga á því að lenda í sömu aðstöðu og félaginn. Því tók hún önglana af veiðistönginni sinni en hélt áfram að dorga og láta hugann reika.
Ekki voru þær margar sem bitu á en gleðin mun meiri þegar henni var landað. Einhverjir höfðu áhyggjur af því að ynjan væri ekkert að ,,rækja" þrátt fyrir að færa til veiðistöngina og hagræða flotholtinu reglulega en hún afþakkaði pent öll boð um aðstoð, enda komin af þorski í beinan ættlið.