mánudagur, ágúst 20, 2007

Mér finnst Menningarnótt æðislegt framtak. Borgin iðar af lífi og eitthvað um að vera allsstaðar. Við hjónaleysin kíktum á kaffihús í tilefni dagsins. Skilst að það sé sett upp einu sinni á ári - blindrakaffihús!
Ótrúleg tilfinning að labba inn á kaffihús og halda um arm þjónsins til þess að hægt væri að vísa okkur til borðs. Þurftum að þreyfa eftir sófanum og staðsetja borðið áður en við gátum sest. Þegar veitingarnar voru bornar á borð kallaði maður og sagði svo til um hvar mætti setja kökuna. Ævintýralegt að borða skúffuköku með gaffli blindandi og þreifa á kaffibollanum áður en maður tók hann upp. Magnað að sitja og hlusta á skvaldrið en sjá hvergi nokkra sálu.

Tónleikarnir á Klambratúni stóðu líka fyrir sínu, aðstaðan klikkaði. Leitaði eins og logandi ljós að salernisaðstöðu en slíkt var ekki í boði nema inni á Kjarvalsstöðum og um fimmtíu manns á undan mér. Vafraði líka hálf utanvelta um svæðið í leit að ruslatunnu en fann enga. Ákvað loks að fara heim þegar partýblaðran var sprungin og sá þá örfáa kamra falda í rjóðrinu en engar ruslatunnur. Kannski er þægilegast að hirða allt ruslið upp af túninu, vesen að ná í tunnur, tæma þær og skila. Hver veit - atvinnuskapandi?

Fékk það varla af mér að horfa á flugeldasýninguna enn eitt árið. Er ég sú eina sem fæ í magann af tilhugsuninni um hvað væri hægt að gera margt gáfulegra fyrir þessa peninga? Milljónir fuðra upp á augabragði og fyrir hvað?
Það eru svo margar flugeldasýningar orðið að það er ekkert sérstakt við þær lengur. Ég legg því til að OR lækki frekar rukkanir sínar í ágúst en haldi þessu áfram. Svo væri hægt að skjóta tveimur flugeldum til að minnast þess að peningunum sé betur varið. Það væri líka hægt að nota peningana í að hafa Strætó frítt fyrir aldraða og öryrkja eða alla. Einnig mætti nota þessa peninga í að styrkja heilbrigðiskerfið eða jafnvel sem lið í að hækka laun kennara. Endalaust mikið af betri leiðum til þess að eyða þessum peningum.