laugardagur, janúar 21, 2006

Til að koma í veg fyrir frekari misskilning

Ynjan fór í afmæli í gær, sem ekki er í frásögur færandi nema kannski fyrir þær sakir að afmælið var gott. Hún er í góðu yfirlæti að spjalla við nokkra stórsnillinga þegar einn snillingurinn spyr, heldur álútur á svip, kerlu út í nýlegt blogg sem bar titilinn "í minningu besta vinar míns". Ynjan glotti, nokkuð ánægð með þá færslu og gerði sig klára í að hlusta á mikið lof.

´Seg mér - finnst þér ekkert óviðeigandi að dissa félaga þinn til margra ára á blogginu?´

Ynjan kom af fjöllum, hún hélt að allir vildu losna við Sigga Rettu. Hún taldi sig hafa farið nokkuð fínt í þetta.

´Ég hélt kannski að það væri verið að tala um mig og sat lengi og var að spekúlera hvort ég ætti að hringja í þig svona til að vera viss, jafnvel fá að heyra hvað veslings maðurinn hafði unnið sér til saka´.

Ynjan reyndi strax að leiðrétta misskilninginn ´hehe nei þú skilur Siggi Retta - sígarretta heheh tóbak heheh þú veist hætta að reykja eeee he´. Of seint - ynjan var orðin eins og kind.

Hann hristi hausinn ´nei ég þekki hann bara ekki´.

Ynjan hefur reynt í gegnum tíðina að fara varlega í færslum sínum á þessu bloggi og sver af sér öll tengsl við textabirtingu sem eitthvað á skilt við DV heitið. Stundum ritskoðar hún eigin gjörðir. Siggi gamli félagi ynjunnar hét öðru nafni Salem lights, kostar nú um 600 krónur pakkinn. Gælunafnið er útskýrt hér að ofan.