sunnudagur, maí 15, 2005

Berrössuð á tánum

í sólinni á Akureyri. Ég veit svosum ekkert um hvernig veðrið er úti, ég hef ekki hætt mér nema út á stétt. Vil ekki taka áhættuna á að fá súrefnissjokk.

Við lentum í töfum á leiðinni, alvarlegt bílslys í Hörgárdal. Lögreglumaður kom og veitti umferðinni um gamlan slóða. Hann stóð þarna og útskýrði fyrir fólki hjáleiðina. Hann stóð þarna rjóður og rauðeygður, þreyttur og dapur, álútur og miður sín. Ynjan ætlaði að skutla sér í fangið á honum svona til að vera hughreystandi, trúlega þurfti hann á því að halda. Mannsefnið kom í veg fyrir það með þeim orðum að líkast til færi manngreyið að gráta eftir erfiðan dag.

Það er alltaf erfitt að fara svona að heiman, kettirnir einir og hugsanlegt að þeir verði afvegaleiddir. Undarleg tilfinning að langa að hringja til að athuga hvort þeir dafni ekki ágætlega án okkar. Ég ætla ekki að láta það eftir mér að hringja, ég veit þeir eru í góðum höndum.

Ég sá mér fært að rífa mig yfir því að akureyringar töluðu um malpoka sem í mínum huga er bara pokapoki og tvítekning í sama orðinu, en fussum svei þá er malpoki annað orð yfir mal eða poka. stundum er lífið gert óþarflega flókið.

Malpokaynjan