föstudagur, febrúar 06, 2004

Sælt veri fólkið

Fúlynjan vaknaði fyrir klukkan sjö i morgun og telur það algjört afrek og á skilið klapp á bakið. Einstakur viljastyrkur þar á ferð. Það vita allir sem til þekkja. Kannski betra að taka það fram að ynjan þurfti ekki að mæta fyrr en hálfníu í skólann.

Ég efast einhvernveginn um að tölvuhangs geri mann að framaeinstaklingi í þessu þjóðfélagi. Ég hef setið hér heilalaus og vafrað um alheimsnetið og flissað. Nú finn ég að heilinn er dofinn, líkaminn vildi gjarna vera fjarverandi og öll þau upplífgandi verk sem hefðu geta verið framkvæmd eru enn ógerð.
Illu er best slegið á frest.

Eitthvað hafa ummæli mín á blogginu farið fyrir brjóstið á veðurguðunum og þeir ákveðið að láta mig finna allhressilega fyrir því og glotta sjálfir. Ég eyddi stórum hluta morgundagsins í það að skafa Kormák. Kormáki þótti það bara bísna þægilegt. Mikill snjór.
Það má ekki skilja mig sem svo að ég sé andstæðingur snjóa og vetrarveðra. Það er ekki þannig, ég er bara hundfúl út í slyddu og slabb. Reykjavík er borg slyddu. Þegar maður hefur vanið sig á að ganga í sandölum allt árið þá er ekki gott að ganga í slabbi. Moksturshæfileikar virðast líka vera í útrýmingarhættu og stundum skil ég ekki hvað drífur þessa menn af stað til vinnu. Kannski að almúginn sé sinnulaus og nenni ekki að rífast í þessum greyjum sem alltaf reyna að gera manni til geðs.


Slafak er grænt slý í eða á tjörnum,lækjum, jafnvel sjó.
Góða helgi