þriðjudagur, mars 20, 2007

Fiskiflugur senda sveitastúlkuna í heimahagann.

Jinmen lyktaði hvorki eins og fiskur eða slor.
Hressandi norðangarinn minnti á að stutt er í heimsókn vinkonunnar.

Eyjan Jinmen liggur suðaustan við Kína, hjá Fujin-héraði en tilheyrir Taívan. Eyjan var undir herlögum fram til 1996 og ferðir til og frá eyjunni bannaðar nema þær væru í nafni hersins. Einn fjórði hluti eyjunnar er nú þjóðgarður.

Við vorum rétt lentar þegar heimamaður benti okkur á að eyjan geymdi marga drauga. Við yrðum að vera tillitsamar í allri umgengni. Bardagar milli Taívan og Kína áttu sér stað á eyjunni, margir féllu í valinn.

Eyjan ber þess merki að vera herstöð. Varað er við jarðsprengjum víða og fólki bent á að fara ekki í könnunarleiðangra. Flestir akrar með stöngum með þremur göddum upp úr til að koma í veg fyrir að fallhlífastökkvarar geti lent. Meirihluti strandlengjunnar ekki aðgengilegur almenningi. Varnargirðingar um allt.

Manngerð göng eru sögð liggja um alla eyjuna. Fæst eru opin almenningi en nokkur þó.
Gengum í gegnum 140 metra löng göng sem voru þröng og köld. Náðum að flytja okkur tvær götur frá.

Frá Ma Shan stöðinni er hægt að horfa yfir til Kína. Þegar við horfðum yfir til Kína í agnarsmáu skýlinu kom hópur af hermönnum í skoðunarferð. Þeir voru allir einkennisklæddir en yfirbragð þeirra bar með sér að þeir voru á frívakt. Flissuðu, fífluðust og hlógu.
Einn tók af skarið og spurði hvort hann mætti taka mynd af okkur. Lítið mál gegn því að fá að gera slíkt hið sama.

Þeir gegna herþjónustu á litlu Jinmen, eyju rétt við Jinmen. Þar hafast þeir við í göngum. Flestir höfðu lokið hálfu ári í herþjónustu og áttu annað eins eftir.
Átján ára strákur, smávaxinn og samanrekinn, skóf ekkert utan af því. Hann viðurkenndi að hafa grátið fyrir framan hershöfðingjana sem ákvörðuðu hvar hann átti að þjóna. Margir kinnkuðu kolli eins og þeir hefðu verið í sömu sporum. Hann játaði líka að hafa átt erfitt með að halda aftur af tárunum þegar hann steig fyrst á eyjuna.

Komum við hjá Meistara Wú.

Í seinni heimstyrjöldinni var skortur af ýmsu tagi en stálskorturinn var sárastur. Meistari Wú fór að safna sprengikúlum sem flestum hafði verið skotið af Bandaríkjamönnum. Úr sprengikúluafgöngunum bjó hann til hnífa.

Árið 1958 sendu Kínverjar kveðju sína með fallbyssuskotum og fleiri sprengjum sem skildi eftir mikinn fjölda af sprengjubrotum sem nýta mátti í hnífagerðina.
Enginn stálskortur á Jinmen eftir það en á svipuðum tíma var Kína í sárri nauð.
Enn í dag eru hnífarnir handgerðir, ekki lengur af Meistara Wú heldur afkomendum hans. Hnífarnir njóta mikilla vinsælda víða.

Hnífagerðarmaðurinn, sem töfraði fram kjötöxi á örstuttum tíma fyrir okkur, glotti þegar við spurðum hvort enn væri nóg um birgðir ,,jú enn um sinn, magnið var svo mikið að við þurfum ekki að örvænta á næstunni".

Gerði dauðaleit að otri. Otrarnir á Jinmen eru í útrýmingarhættu. Mér stóð á sama, ég hafði trú á því einn myndi sýna á sér smettið. Leitaði og leitaði, beið og beið, brosti og engdist um af tilhlökkun.
Ekki nokkur maður sá sér fært að benda mér á að otrar hafa sig að mestu í frammi á nóttunni.
Ég sá mikið af fuglum meðan ég beið.

Hafi ég uppgvötað nýja fuglategund fær hún heitið beðiðeftirotri-fugl. Það gleymist ekki svo glöggt