mánudagur, nóvember 27, 2006

Bráðum fer að rigna, ég er ekki með regnkápuna mína og þarf því að keyra heim með súrt regn í andliti mínu og á fötum mínum. Ég fagna regninu, það hreinsar loftið aðeins og kannski verður ekki þykkt mengunarský yfir öllu á morgun, hver veit nema ég sjái til himins.

Börnin eru orðin níu, fjögurra vikna drengur bættist í hópinn í síðustu viku. Hann hefur ekki enn fengið nafn en er kallaður grenjuskjóðan enn sem er. Hann ber nafn með rentu.
Undarleg tilfinning að sitja með þrjú svöng börn fyrir framan sig og moka upp í þau mat. Svolítið eins og á sinfóníutónleikum, þau arga um leið og þau eru búin að kyngja. Ég verð því að æfa mig í að gefa þremur í einu. Það er langt síðan ég fór á sinfóníutónleika.
Þau eru farin að þekkja mig og Pi (gælunafn þýðir óþekkur) fleygir sér orðið í fangið á mér þegar ég kem. Sú umhyggja sem ég get boðið er sú umhyggja sem hann fær. Hann er aldrei sóttur á kvöldin.

Við sitjum 14 saman í herbergi og erum að leika og stóru börnin hrópa frænka frænka og gera grín af framburði mínum. Ég brosi í kampinn, svolítið sár, ekki mikið. Ég verð víst alltaf útlendingurinn sama hvað.

Starfstúlka kemur inn og er með þykkt leðurbelti um mittið á sér og ól hangandi frá beltinu. Unglingsstrákur er fastur í ólinni og eltir starfsstúlkuna. Ég kem hugsuninni um Inggjaldsfíflið ekki frá. Ég leit undan þegar hún batt strákinn við burðarsúlu í miðju herberginu. En hvað er hægt að segja við erum þrjú og börnin fjórtán. Mig svíður enn í hjartað. Við lékum okkur saman við súluna, hann barði dótinu sínu í dótið mitt og hló. Mig langaði mest að gráta.

Bekkjarfélagarnir neyddu mig til að bjóða þeim í mat. Hugmyndin var svo sem ekkert vond þangað til ég fattaði að ég á bara þrjá diska og fjóra bolla og við verðum fimm. Ég á engar skálar og lítið um annan borðbúnað. Það eru heldur engir stólar í íbúðinni. Kannski ég panti bara pítsu og segi þetta japanskt matarboð. Eða bjóði upp á grjónagraut í plastmáli.
Það er ekki hægt að sitja á gólfinu því það er alltaf svart af sóti, mengunin smýgur um allt.

Hjálmurinn minn hvarf um helgina. Ég vona að sá sem tók hann hafi þurft á honum að halda. Ég fór og keypti nýjan hjálm.