föstudagur, september 01, 2006

Ssr ætlar að blása til herferðar. Nú á að auglýsa hve frábært það er að vinna á sambýlum. Sem það er ansi oft. Ég dreg þá ályktun að herferðin verði í anda Hrafnistu auglýsinganna.

Með þessari herferð á að búa til nýja og betri ímynd, plata fólk inn á staðina í vinnu, því auglýsingin segir bezt í heimi. Það er ekkert leyndarmál að mannekla á sambýlum og í ,,umönnunargeiranum" er hræðileg. Bætt laun hafa ekki laðað fólk að. Þá má kannski draga þá ályktun að fólk einblíni ekki á launin?

Það er dýrt að auglýsa og halda úti herferð, undirbúningurinn er heldur ekki gefins. Þessi herferð verður alls ekki fríkeypis. En nái hún að breyta ímyndinni ber hún árangur ekki satt?
Margir koma við á sambýlum einhvern tíma um ævina, vinna í nokkra mánuði og svo aldrei meir, aðrir finna sitt ævistarf. Hefur þetta fólk ekki allt með ímyndina að gera? Það kvisast út fljótt og vel hvernig er að vinna hér og þar og ímyndin er máski óskrifuð en til.

Væri ekki ráð að eyða herferðarpeningnum í starfsfólkið og vinnustaðinn og láta það svo sjá um herferðina, tekur lengri tíma en árangurinn verður líkast til betri heldur en skilti sem segir sambýli bezt í heimi. Láta starfsmenn, íbúa og umhverfi finna að vilji sé til að gera betur og ráða bót á málum? Nei það er ekki hægt útaf reglugerðum.

Kannski hefur ræst úr málum á Hrafnistu, ímyndin betri og fleiri sækja að og vilja vera. Kannski hugsar fólk FRÁBÆRT að vinna á Hrafnistu þegar auglýsingarnar birtast og ljóshærð stúlka brosir og sækir um. Ég fæ bara hroll, fyrst hélt ég að gamla fólkinu ætti að finnast frábært á Hrafnistu, sem auðvitað næst ekki án ánægðra vinnukrafta. Svo verður mér alltaf hugsað um peningasóunina, fyrir andvirði heilsíðu auglýsingar er ýmislegt hægt að betrumbæta. Líkt og bjóða upp á gott kaffi í nokkur ár eða eitthvað róttækara.

Úr því Á.J. fékk uppreist æru má breyta reglugerðunum.
Góður vinnustaður sér nefnilega um sig sjálfur.