fimmtudagur, apríl 13, 2006

Þau voru nýkomin til Koh Chang og þurftu að ná í bíl til þess að komast í einhverja gistingu. Þau höfðu ekki verið lengi í Taílandi en löngu búin að sjá að margir vildu nýta sér útlit þeirra og féflétta þau.
Ynjan ætlaði sko ekki að láta hafa sig að fífli og gera þar með öðrum ferðalöngum ferðina erfiðari. Ljóna var svo sem slétt sama.

Þau gengu nokkur saman í hóp og upp að bíl. Bílstjórinn rak taílendingana úr bílnum og þeir fóru orðalaust.

Áður en þau fóru um borð urðu þau ásátt um verð... 80 krónur íslenskar var lokaniðurstaða.
Allir sáttir og keyrt var af stað.

Það var sérstök tilfinning að sitja aftan í trukki með fullt af fólki og horfa yfir skóg og fjöll og strjúka svo hitann úr andlitinu.

svo vorum við allt í einu stopp við aðra höfn og bílstjórinn stökk út og inn í litinn kofa.

,,nú já" hugsaði ynja hin skýra ,,bara að sækja vistir eða eitthvað."

Fljótlega fór fólkið að ókyrrast og reyna að komast að því hvað væri um að vera, hvort ekki ætti að halda áfram.

Bílstjórinn mætti aftur með ungri dömu sér til stuðnings.

Hún sagði að bílinn myndi bíða hér í klukkustund eftir fleiri farþegum, ekki nema að við vildum borga meira og þá færi hann af stað.

Allir í bílnum voru ósáttir við þetta enda ekki eins og lög gera ráð fyrir með almenningssamgöngur.

En nú voru góð ráð dýr, ekki vildum við bíða í klukkustund og enn síður borga meiri pening, svona út af prinsippinu.

,,Eigum við ekki að labba þetta bara" sagði einhver ekki alveg mjög skýr og Ynjan var meira en til í það.

Ljóni af himnesku æðruleysi, brosti og tók saman föggur sínar og sagði að veðrið væri í það minnsta gott.

Þau lögðu af stað, fjögur, tveir íslendingar og tveir kanadamenn með fjórar töskur og gott skap, flissandi af því að þeir í bílnum fengju að dúsa þar í klukkustund meðan þau fengju hressandi gönguferð í góðu veðri.

Innan við sextíu sekúndum seinna byrjaði að rigna sem aldrei fyrr, hugtak á við að það rigni hundum og köttum fékk nýja merkingu og í smá stund var ynjan farin að óttast að nóaflóðið væri rétt ókomið. Allt okkar hafurtask var gegn blautt áður en hægt var að telja upp á tíu.

O jæja, aðeins fimm kílómetrar eftir það tekur því ekki að snúa við héðan af.

Svo þau gengu í haugarigningu upp hóla og niður brekkur, tvisvar var stoppað fyrir þeim og þau sátu aftan á pallbíl í smástund og gengu svo áfram.

Klukkustund seinna á áfangastað hætti að rigna og sólin skein sem aldrei fyrr.

Maður lætur ekki hafa af sér peningana í góðu veðri.