miðvikudagur, apríl 26, 2006

Meðan Ljóni og Lynja settu köfunargræjurnar í töskurnar sprakk jarðsprengja í Kambódíu, tíu menn dóu. Þeir voru á leiðinni út á akur að huga að uppskerunni.

Meðan þau stóðu og keyptu sér miða niður til Kenting, dóu börn úr vannæringu.

Lynja brosti til Ljóna og spurði hvort þau ættu ekki bara að taka lúxusrútuna niður eftir og Ljóni samþykkti það. Á sömu stundu einhvers staðar í Asíu var stúlka seld í vændi fyrir sama pening og við borguðum fyrir rútuferðina.

Þegar Lynja stóð á stöndinni og gerði sig klára í að skoða undirheimana, hlupu börn fram hjá og híuðu á hana.

Ætli þau verði fórnarlömb stríðsreksturs einhvern daginn? spurði hún sjálfa sig og hleypti lofti í tankinn.

Ef þau verða jafnheppin og Ljóni og Lynja munu þau bara lesa um jarðsprengjurnar í nágrannaríkjum sínum.

Þegar börnin á ströndinni verða fullorðin verða jarðsprengjurnar í Kambódíu alveg jafn virkar og þær voru í Víetnamstríðinu.