fimmtudagur, janúar 01, 2009

Gleðilegt nýtt ár!

Við hjónaleysin eyddum áramótunum á náttfötunum. Það var pest í MT og allir í volæði.
Við borðuðum steikina á náttfötunum og höfðum varla lyst. Neyddum okkur til þess að horfa á skaupið og fórum út á stétt og horfðum á mestu sprengingarnar. Lea litla hafi lítinn áhuga og benti aftur inn. Hún fékk sínu framgegnt þegar fulla konan við hliðina á kyssti okkur gleðilegt ár og virtist til í að spjalla.

Árið 2008 var ágætt, allgott í flesta staði. Veturinn fór í að vera inni með litla ljósi. Finnst veturinn hafa flogið í burtu. Ég var upptekin við brjóstagjöf og bakburð. Sótti mömmumorgna sem má ekki kalla mömmumorgna. Horfði á barnið þroskast og dafna og fór í göngutúra. Át flestallar hugmyndir mínar um uppeldi ofaní mig og fílaði það í botn að vera tjelling.
Svo þegar fór að vora byrjaði ég að vinna á kvöldin, Lea heima með pabbanum. Við fórum að kafa með selum sem var yndislegt.

Sumarið var frábært. Við vorum mikið úti í sólinni. Fjölskyldan fór saman í ferðalag vestur á Strandir. Eltumst við sundlaugar og að öðrum stöðum ólöstuðum var Krossneslaug staðurinn.
Mikill hluti sumarsins fór í að undirbúa brjóstagjafaviku sem haldin var í október. Þó ég segi sjálf frá heppnaðist það mjög vel. Lea litla átti líka afmæli í október og fyrsti afmælisdagurinn var dásamlegur. Dömunni var haldin mikil veisla og allir glaðir.

Nýjir ofnar voru settir í íbúðina, því þótt hinir hafi verið flottir þá virkuðu þeir ekki. Okkur hefur verið hlýtt síðan. Svo þegar kreppan skall á fengum við okkur jeppa. Jú víst er pönk í því.
Ljóni kláraði síðasta hluta fæðingarorlofsins og við héldum jólin hátíðleg í MT og áramótin voru eins og áður sagði sorgleg.

Hér er ekkert minnst á yndisstundir í góðum félagsskap sem voru ófáar og ómetanlegar.

Hlakka til að takast á við nýtt ár.