sunnudagur, desember 03, 2006

Trabant

Risastórar byggingarnar voru gráar og þunglamalegar að sjá. Á árum áður hafði verið vínframleiðsla í húsunum. Fyrirtækið var fyrir löngu farið á hausinn. Það var samt eitthvað notalegt að sitja í grasinu og horfa á tómar byggingarnar og sjá ljósið frá einni byggingunni og hlusta á tónlistina.

Fyrr um daginn var listasýning opnuð. Samstarfsverkefni Taívanskra og erlendra listamanna. Myndir, skúlptúrar, gjörningar, ljóð og tónlist, allt sem prýtt getur góða sýningu.

Í grasinu sátum við nokkur og nutum þess að vera til. Hægt og hægt bættist fólk í hringinn og gleðin jókst. Maður á þrítugsaldri settist við hliðina á mér og við byrjuðum að spjalla.

Hreimurinn kemur alltaf upp um mig og með fyrstu spurningum er ,,hvaðan ertu?" Pínulítið þreytt á viðbrögðum annarra um heimalandið, var ég svolítið treg til svars. Nennti ekki að tala um hvað landið væri fallegt, hvort ég þekkti Björk eða hvalveiðar. Nú eða svara spurningum um hvort ísbirnir dafni vel og hvar í heiminum landið er.

Ég sagði satt og rétt frá og var tilbúin fyrir ,,REALLY... I´VE ALWAYS WANTED TO GO THERE". En auðvitað sagði hann það ekki. Hann gretti sig pínulítið og sagðist ekki vita neitt um landið, ég brosti og sneri vörn í sókn með því að demba á hann spurningu um hans líf.

Svo greip hann fram í fyrir mér og hálföskraði DO YOU KNOW TRABANT? Ertu ekki að grínast...

Kerla brosti, eiginlega ljómaði hún, þetta var nú með betri spurningum sem hún hafði heyrt. Og seisei jújú mikil ósköp Trabant!

Trabant rúntar um í eyrum mínum flesta daga, tónlist þeirra ber ábyrgð á nokkrum ,,óhöppum" í umferðinni.

Ég lofaði að redda honum eintaki af disknum mínum.

Næst verð ég ekki jafn upprifin spyrji mig einhver um Trabant, sömu spurningarnar sömu spurningarnar!