fimmtudagur, desember 15, 2005

Ynjan stóð við matarstandinn fyrir neðan íbúðina hennar og pantaði steikt hrísgrjón með grænmeti. Afgreiðslukonan brosti og tók til við að framreiða matinn. Hún er í rósóttri skyrtu, bláum buxum, með stóra bláa skítuga svuntu og skærbleikum stígvélum. Hárið hrafnsvart, hún er með spöng og hárið tekið aftur í tagl.

Ósköp einfaldur standur á gangstéttinni og inn af lítið svæði til að sitja. Standurinn er með rennandi vatni og gaseldavél. Hráefnin í lítlum kæli sem eru öllum sýnileg. Einfalt og gott, þó heilbrigðiseftirlitið væri eflaust ekki mjög hrifið af staðnum.

Ynjan stóð og horfði á konuna elda og velti því fyrir sér af hverju hún væri að panta sér steikt hrísgrjón, einfalda olíumáltíð með litlu næringargildi. Meira en mánuður síðan að ynjan fékk nóg af þessum disk en reglulega stendur hún við standinn, brosir til konunnar og pantar grjón með grænmeti.

Svo byrjaði afgreiðslukonan að spjalla á fullu, hvernig hefuru það, er ekki kalt, það er mikið að gera hjá mér, ætlaru upp að borða þetta, hvar er vinkona þín. Vangaveltur sem svarað var með brosi eða bendingum. Stuttar setningar sem afgreiðsludaman endurtók og leiðrétti með brosi.

'Þú vilt ekki poka er það?' segir hún og brosir sínu breiðasta, stórar skakkar tennurnar sjást vel. Þær eru orðnar brúnar einhverra hluta vegna.

'Eg þarf ekki poka, er að fara upp' segir ynjan og bendir

'gott- sjáumst' og smitandi hlátur berst um meðan hún byrjar að gera næstu máltíð klára.

'bless- Þakka þér' ynjan gengur í burtu, eitt bros og leitar að ruslatunnu til að henda grjónunum.

Það er bara eitthvað svo notalegt að standa með fólki sem spjallar við mann um lífið og tilveruna og ætlast ekki til þess að fá svör eða skilning, það er gott að fá bros framan í sig sem segir 'hæ ég þekki þig'.

Þess vegna pantar ynjan hrísgrjón í standinum fyrir neðan húsið þrátt fyrir að borða þau ekki.