fimmtudagur, júlí 14, 2005

Taívan

Flest er klárt og skipulagt fyrir ferðina, farmiðar liggja væntanlega í MT 52 eftir fáar vikur. Skipulagsæði ynjunnar kemur berlega í ljós við aðstæður sem þessar. Það sem til þarf við undirbúning á slíkri svaðilför:
Tíma, brottför er eftir 2 mánuði og ekki ráð nema í tíma sé tekið.
Þykka bók úr bókabúð, þar skal skrá helstu hugrenningar varðandi ferðina. Gangi skipulagning vel er nauðsynlegt að bókin hafi gorma svo auðvelt sé að rífa síðurnar úr og byrja aftur.
Síma, til að geta hringt í fólk sem nennir ekki að hlusta á þig og leiða það í allan sannleik málsins. Gott að hafa bókina þykku við hendina svona ef smáatriðin eru ekki fersk í höfðinu.
Tölvu, til að finna upplýsingar og vera með á nótunum.
Bakpoka, svo hægt sé að pakka og umpakka, endurpakka og aftur pakka.
Síðast en ekki síst umburðalyndan mann sem brosir út í annað þegar draumlyndið tekur völd:) Ákjósanlegt að taka ektamanninn með ef það er ekki í boðinu er nauðsynlegt að fyrir liggi loforð um heimsókn.

Ynjan gerir sér grein fyrir því að stóísk ró sé eiginleiki mikill, en stundum verður að vera hægt að fá lit í kinnarnar af tilhlökkun.