þriðjudagur, apríl 29, 2008

Vefritlan hefur fengið að mæta afgangi undanfarið.

Ég er úttauguð heimavinnandi húsmóðir, alltaf nóg að gera og aldrei neitt búið og samt finnst mér ég samt aldrei gera neitt. Ég er háheilagt í því að ala upp barn eða það að ala mig upp frekar. Mér finnst hún alltaf kunna allt svo vel og veit flest löngu áður en ég fatta það. Svo sker í hjartað þegar lausnin er fyrir framan mann og maður sér ekki samhengið.
Ég get setið og staðið og dáðst að henni vera til endalaust, mér finnst ég vera í þessum heimi til að bera hana á milli nýrra uppgvötanna, ég þreytist ekki á því að dásama hana og lofa og knúsa og kjassa, svo kannski er ég ekki svo úttauguð eftir allt, í það minnsta ekki núna þegar hún sefur.

Mér finnst ég búin að missa öll tök á lífinu, sjálfri mér og ekki síst tímanum, veit varla hvað varð um gærdaginn og hvað þá þann áður og síðasta vika flaug í burtu rétt meðan ég reyndi að greiða mér. Líkast til er ævin runnin mér úr greipum. Mér finnst stundum tíminn líða svo hratt að ég nái ekki að njóta augnabliksins. Jamm á fleygiferð. Ég nýt þess þó að drekka tjellingakaffi og ropa um ágæti brjóstagjafar. Og stundirnar þegar við erum á gólfinu þrjú að hlæja eru yndisyndislegar.

Ég finn mest af öllu hvað litla lífið hefur gefið mér sterkan vilja til þess að vera betri manneskja. Síðustu sex mánuðir hafa verið hrein upplifun, ferð í rússíbana sem ætlar engan enda að taka, flug um himintungl sem ekki hefur sést áður, hvirfilbylur.
og fari allt eins og það á að fara er ævintýrið rétt að byrja, við erum enn á blaðsíðu eitt.

Ég varð síst meiri nagli við að fá lúsina til okkar.